Kirkjan er konungdæmi og kóngurinn er Kristur

Umræða um lýðræði innan kirkjunnar hefur staðið lengi. Nýjasta dæmi um aukið lýðræði innan kirkjunnar er veruleg fjölgun kjörmanna við biskupskjör. Það er þó þannig lýðræði sem venjulega kallast fulltrúalýðræði. En í umræðu um lýðræði á kirkjuþingi fyrir nokkrum áratugum átti Björn Magnússon, prófessor, þessi fleygu orð: "kirkjan er konungdæmi og kóngurinn er Kristur." Töldu margir að með þessu vildi hann draga markalínu fyrir kröfuna um lýðræði þannig að ekki yrði farið í almennar kosningar með kenningarleg efni. Í þeim efnum taldi hann lýðræði ekki eiga við í kirkjunni. Það er spurning hvernig Þjóðkirkjunni gengur að vera konungdæmi Krists í lýðræðisríki sóknarbarnanna.

Þetta sýnir hinn margbrotna veruleika kirkjunnar. Í sumum efnum er hún hin heilaga almenna kirkja, söfnuður Guðs barna. Í öðrum efnum er hún stofnun sem byggist upp á eðlilegri stjórnsýslu á hverjum tíma.

Í kosningum til kirkjuþings og kirkjuráðs og í öllum öðrum kosningum til umsýslustarfa þarf að efla lýðræðislegar aðferðir. Einn veikasti hlekkur stjórnsýslunnar innan Þjóðkirkjunnar er kosning til kirkjuþings enda sýna dæmin að það getur dugað til setu á kirkjuþing að hafa innan við tíu atkvæði á bak við sig. Þá verður kosning til sóknarnefndar að teljast mun almennari. Nú kjósa fleiri fulltrúar til biskupsembætta en var en kosningin er þó ekki almenn. Kjörmenn eru enn fulltrúar alls safnaðarins.

Ég tel nauðsynlegt að auka kosningarétt til allra starfa í stjórnsýslu Þjóðkirkjunnar. Jafn nauðsynlegt er að allir þeir sem gegna forystu leggi sér á hjarta að þeir starfa í konungsríki Jesú Krists og skulu vinna í samræmi við fagnaðarerindi hans að réttlæti, friði og virðingu fyrir manngildinu.


Full ástæða til að hafa áhyggjur

Þrátt fyrir mikla eðlislæga bjartsýni mína leggst þetta haust illa í mig vegna stöðu heimilanna. Það hefur verið nokkuð linnulaus barátta að hjálpa þeim sem farið hafa illa út úr fjármálakreppunni og margir hafa tekið höndum saman svo enginn líði algjöran skort. Áfram er staða öryrkja, atvinnulausra og eftirlaunafólks sú versta sem við höfum séð í áratugi. Og hún mun ekki lagast í heilt ár í viðbót.

Það berast mjög alvarlegar fréttir nær daglega sem staðfesta þann grun að nú fyrst er versti veturinn rétt að hefjast. Það er stundum verst þegar ferðalangar fá á sig illviðri ef þeir eru hraktir fyrir. Hjá mörgum hefur verið gengið á varasjóði og uppgjör hefur verið látið bíða. Margur vandinn er enn til staðar og hefur jafnvel versnað af því að honum hefur verið þokað áfram aðgerðalítið í tvö ár í von um úrlausn. Atvinnuleysi er greinilega að fara í aukanna með einum mesta niðurskurði og uppsögnum starfsmanna ýmissa stofnanna. Boðað er að ekki verði framhald á greiðsluúrræðum og frystingu lána og mikil vonbrigði hafa brotist fram vegna úrskurða um ólöglegu gengislánin. Núna á næstu dögum og vikum fer uppreikningur ólöglegu lánanna að gerast frá fjármögnunarfyrirtækjunum án nokkurra skaðabóta fyrir lántakendur. 

Innanlandsaðstoð hjálparstarfssins er þanin til hins ítrasta og samt er boðað að örorkubætur og lífeyrir hækki ekki um krónu á næsta ári. Sveitarfélög hafa á móti "lofað" að þeirra aðstoð verði ekki aukin með breytingum á viðmiðunarmörkum framfærslu. Það eru mikil vonbrigði fyrir þá sem eru næstum komnir á mánaðarlega framfærslu hjálparstarfs kirkjunnar og annarra líknarsamtaka.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur þó ég hvetji til þess að við æðrumst ekki. Það lagar ekki ástandið að missa sjálfsstjórnina. En þótt áhyggjurnar lagi ekki neitt sem slíkar, er óskandi að birtingarmyndir af áhyggjum almennings geti nú þegar orðið til þess að efla ráðamenn til dáða á erfiðum tímum svo ekki fari allt á versta veg í vetur.


Allt að 17% niðurskurður

Þetta er mikill niðurskurður. Sóknargjöld eru skert um á bilinu 10 - 15% miðað við fjárlög 2010, fjárlagaliðurinn Þjóðkirkjan/biskup Íslands er skertur um ríflega 10% með samningi um þessar 160 milljónir og kristnisjóður er skertur um 10%. Aðrir sjóðir skerðast meira. Samtals verða þetta ríflega 400 milljóna niðurskurður.

Hér er verið að ræða skerðingu sem kemur ofan á skerðingu þessara liða allra á árinu 2009, en samtals hefur það verið skerðing uppá ríflega 17% á sóknargjöld og aðra liði.

Sóknargjöldin eru ekki framlög því þar er ríkissjóður innheimtuaðili fyrir þessi meðlimagjöld þeirra sem eru í þjóðkirkjunni eins og er gert gagnvart öllum öðrum í öllum trúfélögum í landinu.

Það er engin hætta á öðru en kirkjan, sem þekkir þrengingar fólks í fjármálakreppunni, hafi vilja til að taka á sig skerðingu á við alla aðra í þjóðfélaginu. Það er líka skilningur á því að skerðing verði minni í velferðakerfinu og heilbrigðisþjónustu. Hún hvetur líka til þess að ekki verði skerðing á lífeyri öryrkja og eldri borgara og ég mótmæli skerðingu á grunnlífeyri eldri borgara, því margir þeirra búa við óöryggi vegna eignarýrnunar og tapaðra varasjóða.


mbl.is Þjóðkirkjan þarf að skera niður um 161 milljón króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarréttarsamningar, skiptiskylda o.fl.

Ástand fjármála hefur verið afar alvarlegt og við höfum öll fengið að finna það á eigin skinni. Það er samt gott að heyra greiningu á stöðu krónunnar sem er sett fram á jafn skýran hátt. Enn betra er að heyra menn eins og Baldur benda á leið sem snýst um að ráðast að rótum vandans.

Hugmyndin um neyðarréttarsamninga, sem hægt væri að hefja á grundvelli EES og vegna umsóknar okkar í ESB, er sennilega afar nauðsynlegt fyrsta skref í átt til leiðréttingar á gengi krónunnar. Það myndi nánast sjálfkrafa leiða til lækkunar á skuldastöðu einstaklinga, fyrirtækja og ríkissjóðs. Það myndi einnig leiða til lækkunar á verðlagi allrar vöru og þjónustu sem rokið hefur upp úr öllu valdi í landinu okkar. Ég tel líka að það auki líkur okkar á að ná slíkum neyðarréttarsamningum að gengið hefur verið fram af mikilli einurð í niðurskurði og hagræðingu í ríkisfjármálum, leitast hefur verið við að semja um innistæðutryggingar hjá nágrannaþjóðum okkar og rannsóknir eru hafnar á svikum í viðskiptum.

Skiptiskylda á gjaldeyri myndi örugglega hafa mikil og góð áhrif á gengi krónunnar enda gæti það haft það mun meiri áhrif á krónuna heldur en bara það að skylda útflutningsaðila til að flytja gjaldeyri hingað heim. Það hefur verið talað um að unnið sé að lagfæringum á lögum um gjaldeyrishöftin og það er eins og mig minnir að talað hafi verið um þessa leið nú þegar. Það er bráðnauðsynlegt að þróa nú þegar lög og reglur um gjaldeyrisviðskipti þar sem fyrstu aðgerðir frá því í fyrra fara að hætta að bíta. Ef ekki verður unnið frekar í þessum málum fara þær neyðarráðstafanir sennilega að vinna gegn nauðsynlegum bata á gengi krónunnar.

Það er uppbyggjandi að heyra hvernig Baldur metur endurreisnarstarfið enn sem komið er. Og það er ágætt að heyra að hann vill einmitt byggja á því sem þegar hefur verið gert.


mbl.is Erlendar skuldir 30% of háar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðsþjónustan - miðpunktur vikunnar í kirkjunni

Guðsþjónustan er miðpunktur eða sú stund sem við setjum mið okkar á alla vikuna. Hún er mikilvægasti þáttur í þjónustu Landakirkju af því að í guðsþjónustu safnaðarins á helgidögum kirkjunnar sjáum við hvert hlutskipti okkar er í heiminum. Við sjáum tilganginn með þessu lífi og við sjáum hvað er það merkilegasta sem við getum tekið okkur fyrir hendur. Þetta verður rætt alveg sérstaklega út frá guðspjallinu um Mörtu og Maríu sunnudaginn 20. september 2009. Þær sinna báðar mikilvægu hlutverki sem þarf að sinna til að við getum lifað og dafnað. Þar sker Jesús þó úr um það hvor þeirra valdi betra hlutskiptið út frá endanlegri velferð mannsins.
Sjá líka: www.landakirkja.is

Mesta tjónið vegna útflutnings

Þetta kemur verst niður á Eyjum vegna þess sem flutt er út héðan frá Vestmannaeyjum. Fiskur af fiskmarkaði hefur ekki komist frá því í gær og heilu tonnin af matvælum frá Grími kokki og annað í þessum dúr. Það getur verið að Ríkissjóður hafi komið sér hjá kostnaði af ferjuleigu að utan, en fyrirtæki og einstaklingar eru bæði að tapa fjármunum og verða af tekjum vegna þess hvað blessaður Baldurinn er lítil ferja og miklum takmörkunum háð. Útgjöld einstaklinga af þessum "sparnaði" eru talsverð en dýrast er að tapa vinnudögum og eyða tíma í bið.

Sennilega hefði verið betra að fá bara lítið flutningaskip í örugga vöruflutninga hér á milli því það er alvarlegasta málið. Og vonandi fara menn ekki að fara út í tvísýnu með Breiðafjarðarferjuna, þvera að framan og opna að aftan.


mbl.is Vestmannaeyjar án sjósamgangna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir eru áratugum á eftir okkur

Sjálfstæði dönsku kirkjunnar er áratugum á eftir íslensku þjóðkirkjunni. Ég átti fund í danska kirkjumálaráðuneytinu fyrir fáeinum árum og það staðfesti þetta algjörlega. Það lá við að ég fengi það á tilfinninguna á þessum fundi, sem kirkjuráðið okkar átti með ráðuneytismönnunum dönsku, að nær öll stjórnsýsla dönsku kirkjunnar væri á hendi ráðuneytisins. Það var allt niður í það á skera úr um hver gæti setið í sóknarnefnd. 

Það er mikill munur á þessari stöðu og stöðu okkar hér heima. Ég er þeirrar skoðunar að við séum afar lánsöm með þá þróun sem þegar hefur orðið í átt til aukins sjálfstæðis íslensku þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu. Það er fagnaðarefni að heyra að Danir ætla eitthvað að fara að hreyfa þessum málum fyrir sig.

Margir segja að sænska kirkjan sé komin lengst í átt til sjálfstæðis af þjóðkirkjum Norðurlanda. Án þess að ég hafi átt nema stutta kynningarfundi í einu stifti Svíþjóðar og aðeins fylgst með umræðum þar í landi eins og aðrir kirkjunnar menn, tel ég að sjálfstæði íslensku kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu sé hvað mest hér á landi af þessum löndum. Þar er ég að miða við ábyrgð þjóðkirkjunnar innan stöðugt knappari rammalöggjafar frá Alþingi og með valdi til að stýra þjóðkirkjunni með starfsreglum og öðrum samþykktum á Kirkjuþingi án afskipta ríkisvaldsins.

Tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisvaldsins eru í raun ekki að verða nema táknræn í því að forseti Íslands skipar biskupana. Og meira að segja þar hefur ríkisvaldið lítið raunverulegt vald gagnvart því hver hlýtur þá skipun þar sem hann hefur verið valinn í kosningu. Norska ríkisstjórnin skipar biskupana þar í landi og fer sjaldnast eftir niðurstöðu biskupskosninga, heldur skipar þá pólitískt.

Hið raunverulega vald íslenska ríkisins liggur í því að Alþingi setur þjóðkirkjunni rammalöggjöf. Í Svíþjóð hefur þingið einmitt lagt mikið upp úr því að hafa þá löggjöf mjög ítarlega til að halda að sínu leyti vel utan um þessi stærstu meðlimasamtök landsins, sem sænska kirkjan er, m.ö.o. hafa skýra lagalega stjórn á stærstu samtökum þegnanna.


mbl.is Kirkja og ríki aðskilin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Safnaðarstarfið í fullan gang aftur

Það er ánægjulegur tími á haustin þegar safnaðarstarfið fer aftur í gang með alla þætti sína. Við prestarnir og starfsfólk allt fórum yfir málin á haustfundi og þessa vikuna verða flestir þættir komnir í gang, barnaguðsþjónustan, 6-8 ára starfið, NTT, ETT, fermingarfræðslan, Æskulýðsfélagið, 12 spora starfið hjá Vinum í bata, biblíulesturinn, kirkjustarf fatlaðra og Litlir lærisveinar. Þetta á allt að vera komið inn á www.landakirkja.is og meira til. Guð blessi starfið og þjónustuna við hann. Guð blessi Ísland!

Tvær hér í Eyjum 090909

Tvær hjónavígslur verða hér í Eyjum í dag, ein í Stafkirkjunni og ein í Landakirkju. Góður dagur 09.09.09 og níu auk þess heilög tala. Guð blessi þau.
mbl.is Brúðkaupsdagur ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól og blíða 17. júní!!

Gleðilega lýðveldishátíð! Eyjarnar okkar skarta sínu fegursta, sól gyllir hvern hól og klettarnir brosa út í heiðríkjuna. Sennilega hvergi fallegra veður á lýðsveldishátíð Íslands. Til hamingju með að vera enn sjálfstæð þjóð og eiga enn sjálfstætt land. Ef við lifðum af versta fjármálavetur í sögu Íslands hljótum við að geta lifað af hvað sem er. Guði sé lof fyrir Ísland, sem hann blessar svona ríkulega.

Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband