Vekur spurningar um stöðu bændakirkjunnar

Þetta mál vekur furðu. Það vekur spurningar um stöðu bændakirkjunnar sem slíkrar og stöðu kirkjubóndans. Í raun ber að líta svo á að Möðruvallakirkja eigi jörðina og alla kosti hennar. Kirkjubóndi er þá skyldugur að láta kirkjuna njóta gæða jarðarinnar en ekki fara í hina áttina og hugsa til þess að sala á eignum kirkjunnar eigi að kosta byggingu og rekstur jarðarinnar. Í mínum huga vekur þetta spurningar um það hvort það hafi yfirleitt verið réttmætt í gegnum tíðina að kirkjur hafa verið slitnar frá kirkjujörð eða jörð slitin frá kirkjunni.

Ég er hræddur um að það þurfi ekki aðeins að svara þessu neitandi varðandi helgigripi Möðruvallakirkju, heldur verði að fara ofan í það hvernig skyldum kirkjubóndans er háttað gagnvart helgidómnum og eignum hans. Við gætum þurft að fara aftur í staðarmálin og samband kirkju og jarðar. Sennilega væri þó farsælast í þessari stöðu að farið yrði ofan í málefni og stöðu Möðruvallakirkju fram, sem slíkrar, vegna óvarlegrar framgöngu í málinu.

Manni kemur í hug ólögleg salan á altarisklæðinu frá Grenjaðarstað í Aðaldal forðum, klæði sem nú skipar heiðursess hinnar frönsku miðaldasögu í Luvre safninu í París vegna helgisögunnar af heilögum Marteini.

Nú heitir maður bara á Katrínu ráðherra að réttsýni hennar gangi eftir. Um skaðabætur er ekki að fást enda hefur enginn orðið fyrir skaða eða skakkaföllum.


mbl.is Ráðherra leggst gegn sölu bríkurinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Joly hrein snilld í Kastljósþættinum

Það var hrein unun að hlýða á Evu í góðu viðtali í Kastljósinu áðan. Hún er hrein snilld þessi kona og það allra flottasta í lokin að hún talaði beint til þjóðarinnar. Hún veit hvaðan umboð allra stjórnvalda er komið, en það vill gleymast. Viðbrögð Rögnu ráðherra eru til fyrirmyndar. Sennilega mætti hún þó ganga enn lengra í því að styrkja trúverðugleika rannsóknarstjóranna. Hugmyndin um að sérstakur saksóknari geti ekki leitað til ríkissaksóknara er samt mikill Akkilesarhæll eins og málið lítur út núna með part-time ríkissaksóknara.

Ummæli Evu um Ólaf Hauksson voru góð af því að hún leggur áherslu á það sem þarf til að ná árangri, dugnað og óumdeilda stöðu sérstaka saksóknarans. Það var líka traustvekjandi er hún benti á það, þessi snjalla kona, að efnahagsbrot eru yfirleitt rekjanleg í langan tíma vegna þeirrar slóðar sem fjármagnsflutningar og færslur skilja eftir sig. Þetta er mikið forgangsmál, svo gangi ykkur vel, Ólafur og þitt fólk.


mbl.is Björn verður ríkissaksóknari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkur fundur og gott verk

Gaman að sjá svo mikið koma út úr þessu starfi, en fornminjafundurinn er afar merkur. Það skyldi þó ekki vera hringur dr. Finns Jónssonar, Skálholtsbiskups? Best að hrapa ekki að neinni niðurstöðu en ég er ekki frá því að hægt sé að sjá af myndinni kaleik og krossi í miðjunni eða jafnvel mítrið gæjast upp fyrir ofan stafina. Það verður fróðlegt að heyra af þessu nánar.

Finnur Jónsson (16. janúar 170423. júlí 1789), vígðist að Reykholti 1732. Finnur var stiftprófastur í Skálholtsbiskupsdæmi 1743-53 og síðan biskup þar 1754-85. Finnur hlaut árið 1774 doktorsnafnbót í guðfræði, fyrstur Íslendinga. Hann skrifaði Historia Ecclesiastica Islandiæ, rit um kirkjusögu Íslands á latínu sem kom út á prenti í Kaupmannahöfn 1772-1778. Sonur hans varð biskup í Skálholti á eftir honum, Hannes Finnsson.

 


mbl.is Fornminjar koma í ljós á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óráð að skapa óvissu um sjávarútveginn

Það er merkilegt að nú, þegar stórir geirar atvinnulífsins eru í lamasessi eftir hrunið á fjármálamarkaði, byggingarverktakar berjast í bökkum og fjöldi fyrirtækja á ýmsum sviðum verslunar og þjónustu eiga í erfiðleikum, m.a. vegna fjármagnskostnaðar, skuli ráðamönnum koma það helst til hugar að skapa óvissu um eina af fáum greinum atvinnulífsins sem eru að bjarga landinu.

Í sjávarútvegi hafa fyrirtæki Eyjamanna sýnt fádæma útsjónarsemi og framsýni við kaup á aflaheimildum og unnið markvisst að uppbyggingu greinarinnar. Nú var loksins að sjá sem þessi útvegur gæti hugsanlega átt góða daga í vændum, ekki síst þegar litið er til þess að útflutningsverðmætin hafa aukist við núverandi gengi krónunnar, sjómenn fá mun meira fyrir sinn hlut og tekjurnar eru loksins á uppleið. Magur tími er að baki þar sem menn hafa þraukað.

Við þessar aðstæður virðist nýja ríkisstjórnin hennar Jóhönnu Sigurðardóttur ætla að taka upp eignirnar, sem keyptar hafa verið í núverandi kerfi, þ.e.a.s. eignirnar sem felast í veiðiheimildunum, með það fyrir augum að úthluta þeim aftur. Það verða þá væntanlega einhverjir aðrir sem fá að kaupa þessar eignir eða fá þær að gjöf. Trúlega eru það þeir sem áður hafa verið í bransanum en séð hag sinn í því að selja aflaheimilir frá sér í núverandi kerfi. Í þriðja eða fjórða sinn fá þeir þá aftur veiðiheimildir sem þeir geta þá selt með góðum vöxtum. Látum það þó liggja milli hluta hvað þetta gæti farist óhönduglega, því auðvitað vonum við það besta.

Það liggur þó fyrir að með eignaupptöku veiðiheimilda, sem boðuð er, hljóta þeir að fara verst út úr þeim afskiptum sem hafa byggt hvað mest upp. Verstöðin í Vestmannaeyjum fer trúlega einna verst út úr þessari uppstokkun, enda er erfitt að taka frá þeim sem ekkert á.

Nóg er að gert nú þegar þessi óvissa hefur verið sköpuð, því auðvitað kippa ríkisbankarnir að sér höndum nú þegar, en bíða ekki boðanna. Yfirlýsingin í stjórnarsáttmálanum hefur trúlega þegar áhrif á stöðu þeirra sem senn eiga að tapa veðhæfum eignum veiðiheimildanna í kjölfar síðustu ára aflaskerðingar og tapaðra annarra eigna í fjármálahruninu.


Aflétta þarf óréttlætanlegu vaxtaokri ríkisbankanna

Það er alveg ljóst að það er gegn öllu velsæmi að viðhalda því vaxta- og verðbótaokri sem viðgengst í fjármálaheiminum. Þau okurlán sem viðgangast eru gróf trygging lánadrottins gegn vonlausri stöðu þess neytanda sem okrið bitnar á. Í mínum huga og samkvæmt mínu gildismati og mínum takmarkaða biblíuskilningi mælir allt gegn því að þetta okur fái að viðgangast.

Nú þegar ríkisvaldið hefur haft eignarhald á bönkunum síðan í haust er tíminn að renna út hjá þeim sem vilja gera eitthvað í átt til þess að koma á réttlæti í landinu gagnvart lántakandanum. Fram til þessa hefur ekkert ógnað stöðu lánadrottins þannig að hann drottnar núna eins og kúgari á þjóðinni. Meira að segja Biblían okkar leggur blátt bann við okri af þessu tagi svo það er óhætt að segja að þetta sé óguðlegt óréttlæti.

Nú þegar sitjandi ríkisstjórn hefur tryggt sér áframhaldandi völd í landinu yfir öllum hinum gríðarlegu ríkiseignum og áhrifum á fjármálamarkaði sem á sér sennilega engann líkan, er ekki eftir neinu að bíða fyrir Jóhönnu og Steingrím. Hinir nýkjörnu hafa ekki tíma til að fagna sigri því það getur ekki beðið lengur að komið verði á einhverju réttlæti í þessu landi.


mbl.is Vill neyðarlög um íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýrara ef við gætum treyst Alþingi

Miklu myndi það muna ef við gætum treyst Alþingi til að ganga í endurskoðun á stjórnarskránni. Bara að við gætum treyst þeim til að skilja betur á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins, en það er eitt brýnasta verkefni þjóðarinnar ef litið er til þess hvernig við viljum sjá lýðræðsiríkið þróast. Það er enginn vafi að það þarf að þróast frá konungsskipan til lýðveldis. Aðgreining æðsta valdsins er nauðsyn. trúlega er það borin von að við fáum Alþingismenn til að ganga af heilindum fram í því verki, enda myndi það kollvarpa valdakerfinu sem nú er ríkjandi. Og það sem meira er, er trúlega alveg sama niður í hvaða flokki við dræpum fæti með tillögur um breytt hlutverk löggjafarþingsins. Sá sleppir illa því valdi sem hann hefur. 
mbl.is Stjórnlagaþing kostar 1,7 til 2,1 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gangi ykkur vel sem valin hafa verið

Blessunaróskir inn í baráttuna um velferð þjóðarinnar. Sigur eða ekki sigur. Málið er að sigrast á efnahagsvanda þjóðarinnar og stýra okkur sem fyrst aftur inn í velsæld í ríku landi.


mbl.is Ragnheiður Elín sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsmynd þjóðarinnar svona mikið brotin?

Ætli sjálfsmynd þjóðarinnar sé svo niður brotin að hún verði að fá útlending í embætti seðlabankastjóra? Og eins þótt það sé andstætt ákvæðum stjórnarskrárinnar, ef marka má ábendingar Sigurðar Líndal, lagaprófessors, því fyrsta skilyrði fyrir embættisgengi hér heima er að vera íslenskur ríkisborgari.

Sennilega liggur okkur svona mikið á að laga sjálfsmynd þjóðarinnar að við þurfum útlending til að ganga í augun á útlendingum. Lengi höfum við Íslendingar verið háðir áliti annarra og oft höfum við gert grín að setningum eins og: "Há dú jú læk æsland?" Nú sýnist mér það vera komið á annað stig og heldur aukast nú vandræði okkar, kerling.

Hefði ekki verið nær að setja Arnór seðlabankastjóra og ráða handa honum alþjóðlegan sérfræðing sem aðstoðarmann eða ráðgjafa? En nú er ekkert heilagt og ekki heldur stjórnarskráin og hvað þá ímynd þjóðar í eftirköstum bankakreppu.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki meiri þrælar en við viljum vera

Ég tel að við verðum ekki meiri þrælar en við viljum vera. Þetta er táknrænn gjörningur og mjög sterkur. Samt get ég ekki verið sammála því að við séum að gerast þrælar nokkurra aðila, nema við ætlum virkilega að leggjast á strekkingarbekkinn hjá þeim eins og þrælar. Ég er ekki til í þessa píslarvættisvæðingu íslenskrar þjóðar. Þessi þjóð þarf ekki að vera í þrældómi frekar en hún vill, enda tel ég að skuldirnar okkar séu alls ekki óyfirstíganlegar.

Þótt ég skuldi bankanum mínum nokkrar milljónir í íbúðarláni er ég einfaldlega viðskiptamaður bankans. Það er eign á móti og skuldbinding um greiðslu. Sem betur fer höfum við ekki oft þurft að vera viðskiptamenn IMF en við erum einfaldlega í stórum viðskiptum við þá núna. Við erum ekkert fórnarlamb öðrum þjóðum fremur, því kreppan virðist bitna á öllum þjóðum sem á annað borð hafa haft opið fyrir alþjóðleg viðskipti. Efnahagssamdrátturinn er mjög viðtækur en við erum lánsöm að eiga mikinn auð í gæðum landsins og miklum sjávarafla, en ekki síður í miklum og dýrum mannauði mikillar menntunar og vinnusamra handa sjálfstæðra kvenna og karla.


mbl.is Láta hýða sig í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slys ef losa á um séreignasparnaðinn

Það yrði hörmulegt slys ef löggjafinn tæki uppá því núna að losa um viðbótarlífeyrissparnaðinn hjá okkur. Það myndi hafa áhrif á eignina sem eftir stæði bæði hjá þeim sem fengju að taka út hluta hans og okkar hinna sem ekki hafa minnstan áhuga á því að eyðileggja þennan ævisparnað meira en orðið er.

Í fyrsta lagi er þessi sparnaður ekki aðfarahæfur og slyppi því ef gengið yrði að skuldurum. Þeir misstu sjálfsagt sitt en ættu þó þetta sem ósnertanlega eign þrátt fyrir gjaldþrot.

Í öðru lagi þarf hlutur þeirra sem losa úr séreignasjóðum sínum að seljast og ólíklegt annan en þeir sem geta keypt reyni að kaupa á sem lægsta verði. Ólíklegt annað en sú eign yrði metin niður þegar til útgreiðslu kæmi. Sá sem ætlar þannig að losa fé fær ekki raunvirði fyrir það.

Vonandi skjóta ráðmenn hvorki sjálfan sig né alla aðra í fótinn með svo slæmri aðgerð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 39649

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband