Færsluflokkur: Bloggar

Kreppuafmæli fimmtugs eyjaklerks

Þá er komið að því að ég verð 50 ára laugardaginn 6. des. Þeir sem vilja gleðjast með mér og fjölskyldu minni er boðið í fátæklegan sal í Frímúrarahúsinu við Básaskersbryggju (gamla Geirseyri) sama dag kl. 17 – 19 og þiggja léttar veitingar. Í stað gjafa bið ég fólk að koma með gleðina með sér en leggja fé sitt frekar til líknar- og styrktarsjóða. Einnig verður baukur á staðnum í söfnun fyrir innanlandsaðstoð kirkjunnar.

Fjölskyldan og vinir hafa verið að útbúa salinn og gera klárt. Xprent prentar út myndir, Eyjaís skaffar klakann í fiskiker Vinnslustöðvarinnar, vínið kemur frá Ástralíu og bjórinn ofan af klaka, eins og límonaði og kóka-kóla. Nammið verður íslenskt og fríkadellurnar af pönnu frúarinnar og smáræði úr eldhúsinu hans Gríms kokks, bakstur úr ofni Guðrúnar Helgu og frá Arnóri bakara. Svo verða vonandi ýmsir til að syngja eða halda spaklegar ræður. Reynt verður að stilla ræðum í hóf en tónlist er vel þegin ef einhver vill leggja á borð með sér.

Allir velkomnir sem vilja gleðja okkur fjölskylduna á þessum tímamótum.

Hér kemur svo myndin af afmælisspjaldinu og yfirskrift karlsins (t.d. Mt. 5.16) á einum veggnum í hinum fátæklega en bjarta sal:

afmælismyndin

Hér er svo farið að þynnast meðal veislugesta. Synd hvað mikið var eftir í ískarinu.

IMG_3984

Má vera að ég fái fleiri myndir sendar innan tíðar. Nokkrar góðar birtust þó í Vaktinni í Eyjum af góðum gestum, kór Landakirkju og fleirum, en auk þeirra spiluðu Eymenn, þeir Finnur, Frikki og Einar, og kvartettinn Mandal söng eftirminnilega. Veislustjórarnir voru þeir synir mínir, Bjarni Ben og Sigurður Stefán, auk tengdasonarins in spe Péturs Vilhjálmssonar.

Hjartans þakkir fyrir alla gleðina sem þið sýnduð mér öll, takk fyrir kveðjur og gjafir, en allra bestu þakkir fyrir gjafir í styrktarsjóði. Í boðinu söfnuðust 82 þúsund krónur til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins. Takk fyrir það og líka geitur til Afríku og önnur framlög. Maður þyrfti að verða fimmtugur sem oftast.

Og takk líka, elskuleg eiginkonan mín, Guðrún Helga fyrir að elda ofan í mannskapinn :)


Frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum

Kirkjuþing samþykkti frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum í dag. Til hamingju með það. Verði þetta frumvarp að lögum frá Alþingi verða þau lög til að fullkomna þau þáttaskil sem urðu með setningu laganna um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997. Það stóð alltaf til að þau yrðu endurskoðuð eftir tíu ár frá setningu svo hér er á ferðinni tímabær lagasetning. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur verið hvetjandi í þessu máli og leggur vonandi frumvarpið fram sem fyrst. Hann á þakkir skilið fyrir áhuga sinn á kirkjumálum og elju, hjá honum er orðin mikil þekking og skilningur á þjóðkirkjunni.

Hér er gengið mun lengra í átt að rammalöggjöf þótt fyrsta og merkasta skrefið hafi verið tekið fyrir rúmum áratug. Nú er sú kirkjuskipan fest í sessi, sjálfstæði þjóðkirkjunnar er aukið til muna og allar mótsagnir eða agnúar væntanlega horfnir, sem voru í frumrauninni. Hér er í fyrsta sinn farið svo ofan í saumana á stjórnkerfi kirkjunnar að nær öll hugsanleg úrræði, ábyrgð og vald er komið á hendur þjóðkirkjunni og stofnunum hennar hvað varðar málefni kirkjunnar. Það hefur í fyrsta sinn verið hægt núna eftir að samningarnar voru í höfn varðandi prestsetrin og kirkjueignir árið 2007. Hér er gengið lengra í því að skilgreina skiptingu æðsta valdsins í þjóðkirkjunni og ber þar hæst hina kirkjulegu þrískiptingu á hendi kirkjuþings (löggjafarvaldið), kirkjuráðs (framkvæmdavaldið) og biskups (tilsjónarvaldið). Staða sóknarbarna, þjóðkirkjufólks, er skilgreind, hlutverk grunneiningarinnar í sókninni og kirkjustjórn í héraði, gagnkvæmar skyldur ríkis og kirkju, og staða presta, prófasta og djákna, svo eitthvað sé nefnt.

Það hefur verið heiður að fá að vinna að gerð þessa frumvarps undir formennsku Péturs Kr. Hafstein, kirkjuþingsforseta, og með Bryndísi Helgadóttur, lögfæðingi úr kirkjumálaráðuneytinu. Það var hátíðleg stund að finna samstöðuna á kirkjuþingi við afgreiðslu frumvarpsins. Það hefur verið ánægjulegt að fá að vinna að þessu og fylgja því eftir, fara yfir gagnlegar ábendingar úr ýmsum áttum og sjá verkið síðan ganga upp í samstöðu kirkjuþings. Hafi allir þökk fyrir það sem lögðu hönd á plóginn og horfðu til framtíðar í kirkjunni í skugga efnahagslegra þrenginga þjóðarinnar.

 


Málað og lagað fyrir kreppuafmæli á Nikulásarmessu

Geirseyri 027

Hann er ekki árennilegur gamli netasalurinn í Geirseyri við Básaskersbryggju, en hér verður dæmigert kreppuafmæli á Nikulásarmessu, 6. des., í hráum sal með smáréttum (engum stórum) og öl og límonaði bara á ís í fiskikari.

Takið frá daginn sem viljið koma í heimsókn og fagna 50 árum með klerki þarna síðdegis.

Hér svo önnur mynd af salnum áður en við feðgarnir og vinir og bræður tókum til við að mála og laga og smíða:

Geirseyri

Ég spái því að þetta verði heitasti staðurinn í vetur.


Hvar eru hin æðri gildi mannsins í öllu þessu fárviðri?

Leyfi mér að vekja athygli á prédikun minni um "Öldurótið í viðskiptalífinu og hin æðri gildi" inná www.tru.is (postilla). Ég velti því mjög fyrir mér þessi misserin hvað umfjöllun um viðskiptalífið og efnahagslega afkomu er gríðarlega fyrirferðamikil í þjóðfélaginu og í fjölmiðlum. Eitt ljós í myrkri að fylgjast með því þegar fólkið í landinu braut upp sparibaukana sína og gaf í söfnun fyrir mænuskaðaða á föstudagskvöldið var.
mbl.is Fjármálafárviðri nær til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alister McGrath magnaður trúvarnarmaður í Skálholti

Þessi eftirtektarverði guðfræðingur og merkilegi vísindamaður var ótrúlega flottur í fyrirlestrum sínum í Skálholti. Það er ekki vanþörf á þessari skeleggu trúvarnarbaráttu hans enda hefur hann haft gríðarleg áhrif víða um heim. Apólógetían er nauðsynleg og ef menn setja hana fram á jákvæðan hátt rifa sólargeislar trúarvissunnar inn í líf hvers manns.

Ég lét það líka koma fram í prédikun minni í Landakirkju í morgun að trúvörn hefur á sér minnst tvær hliðar. Eitt er að verja trúna á Jesú Krist. Hitt að skynja hvernig trúin á hann ver mig og þig. Og ég vitna í Lewis: "Ég er kristinnar trúar á sama hátt og ég er fullviss um sólarupprásina í morgunn. Ekki af því að ég sé sólina eða Guð heldur af því að í ljósi þess sé ég allt í þessu lífi." Ég sé ekki alltaf sólin en birta hennar lýsir daginn. Verk Guðs eru augljós í náttúrunni og sögu mannkyns - og líka í mínu lífi.

Margt var grípandi í máli McGrath. Einn molinn er skondinn: Þeir sem aðhyllast trúleysi á forsendum vísindalegra rannsókna hafa sumir sagt að trú á Guð sé einsog vírus í huga mannsins. Dawkins nokkur í Oxford hefur m.a. haldið þessu fram. En ef við skoðum þessa fullyrðingu, sem er í dulargervi vísindalegrar framsetningar, kemur í ljós að engar vísbendingar eru til um tilvist slíkra vírusa. Það er með engu móti hægt að sýna fram að slíkt sé til og hvað þá rannsakanlegt með nokkurri aðferðafræði vísindamanna, hvorki sem agnir, örður eða efnaskipti. Trúin á að enginn guð sé til byggir þá á venjulegum forsendum átrúnaðar ef hún er sett fram með svona fullyrðingum.

Það minnir mig á mann einn sem sagðist vera "lútherskur trúleysingi". Það var ekki annað hægt en dást að slíkri lífsafstöðu og virða hana sem lífsskoðun hvað sem þetta þýddi í þessu átrúnaðarkerfi einstaklingsins.

http://www.skalholt.is/2008/04/21/alister-e-mcgrath-heimsaekir-skalholt/


Frábærir handboltamenn - allir glaðvakandi í vinnuna í morgun

Frábær þessi færni og sigurvilji sem einkennir leik landsliðsins í handbolta í Bejing. Til hamingju strákar með allan þennan sigur og keppnina í heild. Hún hefur verið stórkostleg, en svo góð að þessi góði árangur mun verða það sem eftir stendur af allri umfjöllun um Ólympíuleikana í Kína. Orðstýr ykkar og Íslands í heild siglir hraðbyr á undan ykkur! Áfram Ísland!

Það mættu hreinlega allir glaðvakandi í vinnuna í morgun og brosið á öllum sem ég hef hitt í dag er einsog bros sólarinnar yfir Heimaey núna :)


Að prósessera á sumarleyfi

Það er merkilegt hvað hvíldar- og endurnæringarferlið er mikilvægt fyrir allt sem við ætlum okkur í framtíðinni. Líka til að vinna úr því sem áunnist hefur. Einsog fyrir bóndann að horfa yfir heyin sem komin eru í hús. Nú er ég búinn að vera í sumarleyfi í júlí. Fyrstu dagarnir fóru í það að vinda ofan af og ljúka verkefnum. Svo var það letin í sólinni í Brekkuskógi og yndileg skírn fyrsta afa-barnsins. Láta eftir sér að vaska og bóna amerísku drossíuna. Einn og einn dagur sem gestur í Yzta Kletti hjá lundaveiðimönnunum þar. Góðir veiðifélagar og svolítið strit að rölta um stíga, hált stórþýfi og bera lundapokana og veiðigræjurnar. Ótrúlegt að finna að enn eru vöðvar um allan kropp að vakna til lífsins með tilheyrandi verkjum og vellíðan. No pain - no gain, einsog sagt er í ræktinni. Þetta er bara meira, en auk þess stórkostlegt útsýni yfir haf og yfir jökla og fjöll og fell og eyjar. Aragrúi fugla í loftinu. Ótal þúsundir lunda í brekkum og svartur sjór af fugli á vaggandi öldum í æti. Háhyrningar og krökkt af síli. Iðandi lífríki fiskjarins í hafi.

Núna fyrst er ég að ná að trappa mig niður. Einn mikilvægur þáttur í því var erindislaus vikudvöl í Reykjavík. Krefjandi að slaka á inní miðju stressinu og í sama umhverfi og stór hluti vinnu minnar á sér stað með fundarhöldum og stjórnun í kirkjunni. Féll nokkrum sinnum og bæði hringdi og kom við á Biskupsstofu. Smá fráhvarfseinkenni. Mjög spennandi barátta við sjálfan mig. Stundum næstum pirraður. Þurfti meira að segja að ná mér niður og taka þátt í Skálholtshátíðinni án þess að vera að gera eitthvað sjálfur. Bara njóta og láta byggja sig upp.

Mér hefur verið bent á að mig skorti meiri hæfileika til að setjast niður og njóta afraksturs af allri þjónustunni. Nú er þetta einmitt að gerast. Jaðrar við titring í skrokknum og hrísl um sálarlífið. Besta endurnæringin er að skapa sér næði til að pósessera á þessar tilfinningar. Nú er ég allt í einu farinn finna hvernig ég horfi sannarlega með tillhlökkun til þess að taka af endurnýjuðum krafti á verkefnum sem ég veit að munu bíða síðsumars og í haust.

Með þeim orðum er best að rölta aðeins úti í garð á prestsetrinu og slá blettinn, tæta upp illgresið. Kannski að klippa runna. Rækta garðinn sinn. Þið fyrirgefið þetta hringsól um sjálfan mig.


Dagur eiginkonu, dætra og dótturdóttur

Hátíðis- og baráttudagurinn 19. júní er dagur baráttunnar fyrir auknum áhrifum kvenna í þjóðfélaginu. Við kosningu frú Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands 1980 var dóttir mín í barnavagni fyrir utan Aragötu 2, en Ólöf mín er fædd í janúar það sama ár. Nú er þessarar fagnaðarstundar minnst í dag við Aragötuna 28 árum síðar. Í dag var hún dóttir mín á ferðinni í háskólahverfinu með dóttur sína sem fæddist í síðasta mánuði. Sjálf er hún orðin starfandi verkfræðingur á verkfræðistofu og til alls líkleg í framtíðinni. Yngri dóttir mín er líka í borginni og er ferðamálafræðingur hér og í Lundi í Svíþjóð. Til þeirra öll mín gleði í dag, en líka til eiginkonu minnar, sem ég elska og virði eins mikið og einni karlrembu er unnt að sýna. Björt veri framtíð þeirra allra. Hinn 19. júní 2008 er ég stoltur eiginmaður, faðir og afi.

Sjómenn! Til hamingju með daginn!

Þeir sækja sjóinn og eiga heiður skilinn, en segja má að það sé lágmark að halda sjómannadag hátíðlegan einu sinni á ári. Við ættum að hefja hinn forna sjómannadag í janúar aftur upp til virðingar og muna það alla hina daga ársins hvað sjómenn leggja til samfélagins með því að draga stöðugt björg í bú við stöðugt flóknari aðstæður í atvinnulega séð. Til hamingju íslenskir sjómenn. Sjáumst niðri við höfnina, í dagskránni allri og svo í kirkjunni á sunnudag.


Skjálftinn greinilega vestar og minni hér í Eyjum en 2000

Þessi Suðurlandsskjálfti var mjög öflugur og ljósakrónur á ferðinni lengi á eftir (svona korter), svolítið grjóthrun inni í Dal og öll hús á ferðinni eftir því sem Eyjarnar köstuðust til.

Mikið verður manni hugsað til þeirra sem eru þarna nær upptökunum og bið ég þess að enginn skaðist í fátinu og hugsanlegum eftirskjálftum. Guð veri með ykkur - og nú kom einn smáskjálfti 17.10 sem finnst inni í húsi. Eitthvað hefur hann nú hrist til í Ölfusinu. Guð veiti ykkur vernd sína því ekki veitir af frammi fyrir slíku ofurafli.


Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband