Færsluflokkur: Lífstíll

Kreppuafmæli fimmtugs eyjaklerks

Þá er komið að því að ég verð 50 ára laugardaginn 6. des. Þeir sem vilja gleðjast með mér og fjölskyldu minni er boðið í fátæklegan sal í Frímúrarahúsinu við Básaskersbryggju (gamla Geirseyri) sama dag kl. 17 – 19 og þiggja léttar veitingar. Í stað gjafa bið ég fólk að koma með gleðina með sér en leggja fé sitt frekar til líknar- og styrktarsjóða. Einnig verður baukur á staðnum í söfnun fyrir innanlandsaðstoð kirkjunnar.

Fjölskyldan og vinir hafa verið að útbúa salinn og gera klárt. Xprent prentar út myndir, Eyjaís skaffar klakann í fiskiker Vinnslustöðvarinnar, vínið kemur frá Ástralíu og bjórinn ofan af klaka, eins og límonaði og kóka-kóla. Nammið verður íslenskt og fríkadellurnar af pönnu frúarinnar og smáræði úr eldhúsinu hans Gríms kokks, bakstur úr ofni Guðrúnar Helgu og frá Arnóri bakara. Svo verða vonandi ýmsir til að syngja eða halda spaklegar ræður. Reynt verður að stilla ræðum í hóf en tónlist er vel þegin ef einhver vill leggja á borð með sér.

Allir velkomnir sem vilja gleðja okkur fjölskylduna á þessum tímamótum.

Hér kemur svo myndin af afmælisspjaldinu og yfirskrift karlsins (t.d. Mt. 5.16) á einum veggnum í hinum fátæklega en bjarta sal:

afmælismyndin

Hér er svo farið að þynnast meðal veislugesta. Synd hvað mikið var eftir í ískarinu.

IMG_3984

Má vera að ég fái fleiri myndir sendar innan tíðar. Nokkrar góðar birtust þó í Vaktinni í Eyjum af góðum gestum, kór Landakirkju og fleirum, en auk þeirra spiluðu Eymenn, þeir Finnur, Frikki og Einar, og kvartettinn Mandal söng eftirminnilega. Veislustjórarnir voru þeir synir mínir, Bjarni Ben og Sigurður Stefán, auk tengdasonarins in spe Péturs Vilhjálmssonar.

Hjartans þakkir fyrir alla gleðina sem þið sýnduð mér öll, takk fyrir kveðjur og gjafir, en allra bestu þakkir fyrir gjafir í styrktarsjóði. Í boðinu söfnuðust 82 þúsund krónur til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins. Takk fyrir það og líka geitur til Afríku og önnur framlög. Maður þyrfti að verða fimmtugur sem oftast.

Og takk líka, elskuleg eiginkonan mín, Guðrún Helga fyrir að elda ofan í mannskapinn :)


Málað og lagað fyrir kreppuafmæli á Nikulásarmessu

Geirseyri 027

Hann er ekki árennilegur gamli netasalurinn í Geirseyri við Básaskersbryggju, en hér verður dæmigert kreppuafmæli á Nikulásarmessu, 6. des., í hráum sal með smáréttum (engum stórum) og öl og límonaði bara á ís í fiskikari.

Takið frá daginn sem viljið koma í heimsókn og fagna 50 árum með klerki þarna síðdegis.

Hér svo önnur mynd af salnum áður en við feðgarnir og vinir og bræður tókum til við að mála og laga og smíða:

Geirseyri

Ég spái því að þetta verði heitasti staðurinn í vetur.


Að prósessera á sumarleyfi

Það er merkilegt hvað hvíldar- og endurnæringarferlið er mikilvægt fyrir allt sem við ætlum okkur í framtíðinni. Líka til að vinna úr því sem áunnist hefur. Einsog fyrir bóndann að horfa yfir heyin sem komin eru í hús. Nú er ég búinn að vera í sumarleyfi í júlí. Fyrstu dagarnir fóru í það að vinda ofan af og ljúka verkefnum. Svo var það letin í sólinni í Brekkuskógi og yndileg skírn fyrsta afa-barnsins. Láta eftir sér að vaska og bóna amerísku drossíuna. Einn og einn dagur sem gestur í Yzta Kletti hjá lundaveiðimönnunum þar. Góðir veiðifélagar og svolítið strit að rölta um stíga, hált stórþýfi og bera lundapokana og veiðigræjurnar. Ótrúlegt að finna að enn eru vöðvar um allan kropp að vakna til lífsins með tilheyrandi verkjum og vellíðan. No pain - no gain, einsog sagt er í ræktinni. Þetta er bara meira, en auk þess stórkostlegt útsýni yfir haf og yfir jökla og fjöll og fell og eyjar. Aragrúi fugla í loftinu. Ótal þúsundir lunda í brekkum og svartur sjór af fugli á vaggandi öldum í æti. Háhyrningar og krökkt af síli. Iðandi lífríki fiskjarins í hafi.

Núna fyrst er ég að ná að trappa mig niður. Einn mikilvægur þáttur í því var erindislaus vikudvöl í Reykjavík. Krefjandi að slaka á inní miðju stressinu og í sama umhverfi og stór hluti vinnu minnar á sér stað með fundarhöldum og stjórnun í kirkjunni. Féll nokkrum sinnum og bæði hringdi og kom við á Biskupsstofu. Smá fráhvarfseinkenni. Mjög spennandi barátta við sjálfan mig. Stundum næstum pirraður. Þurfti meira að segja að ná mér niður og taka þátt í Skálholtshátíðinni án þess að vera að gera eitthvað sjálfur. Bara njóta og láta byggja sig upp.

Mér hefur verið bent á að mig skorti meiri hæfileika til að setjast niður og njóta afraksturs af allri þjónustunni. Nú er þetta einmitt að gerast. Jaðrar við titring í skrokknum og hrísl um sálarlífið. Besta endurnæringin er að skapa sér næði til að pósessera á þessar tilfinningar. Nú er ég allt í einu farinn finna hvernig ég horfi sannarlega með tillhlökkun til þess að taka af endurnýjuðum krafti á verkefnum sem ég veit að munu bíða síðsumars og í haust.

Með þeim orðum er best að rölta aðeins úti í garð á prestsetrinu og slá blettinn, tæta upp illgresið. Kannski að klippa runna. Rækta garðinn sinn. Þið fyrirgefið þetta hringsól um sjálfan mig.


Mikið af lunda, mikið flug og margir á leið í holu með síli

Var að koma úr Ystakletti í Eyjum og hef aldrei séð eins mikið af fugli í brekkunum á miðjum degi og aldrei verið undir slíkum dökkum himni af fugli. Á sjónum sátu breiðurnar af lunda og öðrum fugli. Frábært iðandi líf. Ég veiddi reyndar ekki nein ósköp í þann stutta tíma sem ég stoppaði enda stoppaði heldur ekki síminn - því miður. Gaman að sjá lundann bera heim síli og margir með fullan gogginn að færa pysjunni heim í holu. Svona dagur veit sannarlega á gott. Hann veit líka á góða þjóðhátíð því lundinn er sannarlega ómissandi hátíðarmatur í Herjólfsdalnum.

Sala aflátsbréfa upp á "kolviðarjöfnun"

Skelfing er ég orðinn þreyttur á þeim sem boða hina nýju leið til sjálfsréttlætingar: að selja aflátsbréf uppá kolefnisjöfnun á menguninni. Umhverfisverndar-prédikararnir boða þá lausn að nú sé allt í lagi að menga áfram og auka á gróðurhúsaáhrifin ef við borgum sölumönnum aflátsbréfanna fyrir gróðursetningu á nokkrum hríslum. Og þetta er meira að segja komið inn í umræðuna um stóriðju á Íslandi og mengunarkvóta.

Þessi nútímalega aflátssala er sett fram á ótrúlega grunnhygginn hátt til að bæta samviskuna en slævir hana óvart í staðinn. Þetta er eins og að segja að það sé allt í lagi að brjóta svolítið af sér ef við vinnum líka góðverk, að stela ef við jafnframt gefum, berja á einhverjum ef við erum líka hjálpleg gagnvart einhverjum náunga okkar. Eigum við næst að tæta upp viðkvæma náttúruna með utanvegaakstri og rétta svo samviskuna af með gróðursetningu nokkurra trjáa. Þessi brella er svo toppuð með því að tala um "gróðurhúsalofttegundir" í ægilega þreytandi auglýsingum eins og það sé raunverulga eitthvað til í veröldinni sem heitir slíku ónefni. 

Þið fyrirgefið samlíkinguna við aflátssöluna en það var "verðbréfasala" upp á styttingu tímans í hreinsunareldinum eftir dauðann samkvæmt viðtekinni miðaldahugsun. Ég segi nú bara einsog siðbótarmaðurinn okkar, Lúther, sagði þá: Hér stend ég og get ekki annað en verið hissa á þessari vitleysu.


Sumrinu heilsað með kaffihúsamessu í Grafarvogskirkju

Það stendur heldur betur mikið til hjá Kaffihúsakór Landakirkju sumardaginn fyrsta. Nú kemur þessi kór, sem hefur verið að æfa og syngja gospel og trúarlega söngva í vetur undir stjórn Óskars Sigurðssonar, og syngur heila kaffihúsamessu í Grafarvogskirkju í Reykjavík.

Margir koma að messunni

Messan verður niðri í safnaðarheimili Grafarvogskirkju kl. 16.00 þann 19. apríl. Söngurinn verður örugglega góður og enginn svikinn af því. Við prestarnir í Landakirkju og prestar Grafarvogskirkju komum til með að leiða stundina með prédikun orðsins, bæn og blessun. Æskulýðsfulltrúar og fleiri koma að lestri og skipulagi og hægt verður að fá sér kaffi og kleinur á vægu verði, en aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis.

Hugmyndin að kaffihúsakór 

Hugmyndin að kaffihúsakór fæddist í Landakirkju fyrir nokkrum árum þegar tónlistarfólk undir forystu Ósvaldar Freys Guðjónssonar og prestar kirkjunnar vildu freista þess að brjóta upp hnakkasamfélagið. Það gerum við með því að skapa notalega stemningu við guðsþjónustu í safnaðarsal kirkjunnar. Við sköpum umgjörð kaffihúss með því að fólkið situr við borð og kertaljós, slakar á og fær sér kaffi og með því á meðan stundin líður við söng og lifandi Orð Guðs. Prédikun prestanna hefur oftar en ekki verið samtalsprédikun eða samtal prestsins við söfnuðinn.


Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband