Stórir helgir dagar og fíflalegt bingó

Kæru bloggarar og lesarar á páskadegi 2007. Skellti hér inn prédikun minni í Landakirkju síðan í morgunn og vona að þið njótið boðskaparins. Pundaði örlítið á fíflalegt bingó vantrúarmanna og vitleysuna í þeim um leið og ég lagði áherslu á helgi daganna og þann mikla sigur sem Kristur vann með upprisu sinni á páskum. En umfram allt, gleðilega páska! Njótið helginnar.

Það eru margir stórir dagar í kirkjunni þessar vikurnar og rekur hver viðburðurinn annan. Varla að nokkur hafi undan að fylgjast með því öllu og svo líka fermingarnar fyrir og eftir páska. Nú er enda stærsta og mesta hátíð kristinna manna, sjálfir páskarnir, en messuhaldið er í anda þess; hver dagur með sínu móti að minnast alls þess er gerðist hjá Jesú dag fyrir dag. Skírdagurinn, föstudagurinn langi, aðfangadagurinn og svo sjálf stórhátíðin í dag, páskadagur, svo stór að ekki tjáir að hafa aðeins einn dag, heldur tvo daga páskanna. Í aðdraganda dymbildaganna var pálmasunnudagurinn fullur gleði og fagnaðar yfir innreið Jesú í Jerúsalem. Í raun eru þetta miklar sviptingar í lífi hins trúaða. Fastan með aðeins tveimur dögum til að fagna, á boðunardegi Maríu og svo pálmasunnudagurinn hávaðasami, þá kyrravika og allt í einu hin fagnaðarríka hátíð páskanna. Var engin furða að stundum var talað um páskahlátur því þá mátti söfnuðrinn hlæja og hafa hátt og njóta lífsins í lystisemdum og matseld. Er ég þó ekki að tala um hinn litúrgíska páskahlátur sem var formlegt fyrirbæri í páskamessunni.            Ég hló til dæmis í gær að fíflalegum rökstuðningi þeirrar vantrúarmanna sem voru með málatilbúnað á föstudaginn langa við Austurvöll eða hvar sem það annars var í 101. Þá klæjaði svo undan því að hin fátæklega rest af helgidagalöggjöf Alþings Íslendinga skuli enn minnast á að enn er eitthvað sem ekki má gera á föstudaginn langa. Og kjánar á fréttavef Vísis.is töluðu um það eins og sjálfsagðan hlut að eitthvað væri réttlætanlegt í þessari ádeilu á “helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar”, eða það var það látið heita þar. Þetta vakti hlátur vegna þess hvað þetta er vitlaust. Er heimsku manna engin takmörk sett, spyr ég bara? Vitaskuld er ekki neitt til sem heitir helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar. Það er Alþingi sem setur lögin í landinu. Og vitaskuld hlýtur það að vera þannig, að ef ekkert stendur eftir af helgi tiltekins helgidags, sem þó hefur verið helgidagur heillar þjóðar með lagastoð í löggjöf hins háa Alþings um langan aldur, fæ ég ekki séð að þjóðin í heild sinni geti áfram haldið í helgidaginn sem frídag eða dag með sérstökum helgidagablæ. Ef þjóðin lætur það endurspeglast með æ fleiri helgidaga í löggjöf Alþings að þessir dagar séu ef til vill ekki svo miklir helgidagar, er engin ástæða til að taka þá frá. Hjá þeim sem ekki sér helgi föstudagsins langa eða sér hana og er ráðinn í hafa hana að engu er auðvitað að lifa bara einn föstudaginn enn í ársins hring. Hjá honum eru allir dagar jafnir. Honum er þá heldur engin vorkunn að vinna þennan föstudag ef hann er orðinn að virkum degi í huga hans eins og hér væri engin kristni.            Í þjóðfélagi sem ekki tekur svo mikið tillit til trúarskilnings kristinna manna umfram trúarskilning fólks af annarri trú eða trúleysingja er föstudagurinn að sjálfsögðu ekki helgidagur með tilheyrandi helgi og frið og fríi. Hann er virkur dagur um öll Bandaríkin, svo dæmi sé tekið af einni tæplega 300 milljóna þjóð. Og það sama gildir um skírdaginn og annan í páskum. Ekki veit ég um nokkra þjóð, þótt slík dæmi megi eflaust finna, sem heldur annan í páskum helgan dag. Fíflaleg uppákoma vantrúarmanna vekur mér því bara hlátur og þó væri ef til vill nær að tala um aðhlátursefni, fyrst fólk getur verið svo lokað í eigin heimi eða blint í þröngsýnni lífsskoðun sinni, þeir sem vildu sjálfsagt segja eitthvað voða merkilegt með því athæfi að halda bingó á gömlum messutíma föstudagsins langa.            Ég vil aðeins skýra það nánar með dæmi frá Ísraelsríki nútímans. Þar er auðvitað ekki þriggja daga helgi í hverri viku og aðeins fjórir virkir dagar þótt múslímir haldi föstudaginn helgan, gyðingar laugardaginn, sabbatinn, og kristnir menn sunnudaginn helgan hvíldardag. Helgi og virki daganna ræðst auðvitað af trúarskilningi, því án trúarskilnings er engin helgi. Og rétt er að minna á að helgi hvíldardagins er vitaskuld fengin með sköpun Guðs, sem skapaði himinn og jörð og allt sem þar hrærist í sköpunarverkinu á sex dögum en skapaði þá að lokum hinn sjöunda dag til að hinn skapaði mætti hvílast. Og það sem meira er, er að hann skapaði þennan dag og hvíldist sjálfur af öllu verki sínu. Þannig að hvíld Guðs verður til að gefa þessum degi helgi sína og fyrir hvíld skaparans er hvíld mannsins heilög. Það er innbyggt í trú okkar á hinn skapandi mátt Guðs, sem sést og heyrist í orði hans og þá einnig í þriðja boðorðinu af hinum tíu. Páskadagurinn er helgastur dagur því þá varð hin nýja sköpun.            Gallinn við okkar kynslóð, fólk sem er uppi núna og ber uppi þjóðfélagið með vinnusemi og útsjónasemi og elju og gáfum og margvíslegri getu til ótrúlegustu afreka er ekki að sinna þeirri heilögu köllun sem felst í því að helga sig Guði. Ef ég tek dæmi hér af okkur í Vestmannaeyjum verður að segjast að okkur fer aftur í einu efni. Áður fyrr voru páskastoppin tilefni til mannfagnaða og gleði yfir því að hittast og skemmta sér, því sjaldan voru jafn margir inni á sama tíma. Það hefur verið mikið um páskahlátur í Eyjum kynslóð eftir kynslóð og enn er það svo að ef stórir hópar vilja hittast er ekki úr vegi að velja þessa daga, þótt kristilegir helgidagar séu, til að ná saman og hafa jafnvel bara nokkuð hátt á köflum. Það er bara gott og blessað og ég hef tekið þátt í því á stundum af sérstöku tilefni. En ég sagði að okkur hafi farið aftur hér í Eyjum. Það er vegna þess að þrátt fyrir þennan gleðskap og söng og vín létu hinir hraustu það ekki um sig spyrjast að missa úr messu. Helgi daganna skyldi virða með kirkjugöngu þótt nota mætti aukagetuna eða umframkraftinn til að eiga líka góða stund með vinum. Hér er bleik brugðið og það fer að verða vel réttlætanlegt að spyrja hversu kristin sú kristna þjóð er sem tekur sér alla þessa helgidaga en heldur ekki helgi þeirra. Ekki einu sinni í einn og einn klukkutíma sem messan tekur. Hún lætur sér nægja að taka fríið og fjörið. Ef til vill á þetta eftir að breytast rétt eins og helgidagalöggjöf Alþingis hefur breyst hin síðari ár með vaxandi veraldarhyggju og verslunarhyggju og afhelgun daganna með því að gera þá virka. Ég get ekki annað en hvatt til þess að helgi daganna verði virt hjá þeim sem eiga þá helga. Löggjöf á vitaskuld að hjálpa fólki að verja helgi helgidaga sinna í samræmi við þá trú og sannfæringu sem það fylgir. Hér einsog víðar óttast ég mest það sem kallað hefur verið tómlæti samtíðarmanna minna, tómlæti sem segir að það hljóti að vera í lagi að hver maður geri bara það sem honum sýnist. Ég óttast að tómlæti en ekki árásir á kristna trú sem muni valda henni mestum skaða gagnvart því sem heilagt er.            Það er ekki svo í mínum huga að helgi þess heilaga sé mjög hætt komin hér í Eyjum og bið ég ykkur að skilja ekki orð mín þannig þegar ég segi að okkur hafi farið aftur í vissum efnum sem snýr að kirkjurækni. Þið eruð þá hér allmörg. En við megum gæta okkar og það má líka segja að við getum ekki lengur ætlast til þess að fólk muni jafn vel og áður hvað það er sem mestu skiptir á helgum hátíðum. Kirkjusókn er fádæma góð á jólum og ætti að vera betri í kyrruviku og páskum út frá því að í dag er hæsta hátíð kristinna manna um allan heim. Það er hins vegar æði margt sem glepur og trúlega er mun meiri þörf á að auglýsa betur en gert er hvað til friðar kristins manns heyrir í kirkjulegum efnum. Það er eiginlega fáránlegt hversu auðvelt er að gleyma að fara til kirkju í hátíðarmessur og helgar guðsþjónustur. Það er næstum því aðhlátursefni ef ekki grátlega kaldhæðnislegt hvað það er létt að láta sér koma eitthvað allt annað til hugar en sækja kirkju á helgum degi eða nýta sér helgidagafriðinn til að næla bara í fríið.             Hvað sem því líður er ljóst að virðing okkar fyrir trúarlegri helgi er sennilega ekki á neinu undanhaldi, nema síður sé. Ég hallast að því að hún sé stöðugt að aukast. Trúhneigð er að aukast. Það held ég að sé alveg stórmerkileg staðreynd um okkur hér. Sjáið hvernig þetta er innbrennt í peyjana sem sátu hér uppi á lofti og fylgdust með því eitt sinn er presturinn gekk hér skrýddur inn. Annar sagði þá upphátt: “Sjáðu þarna er Guð.” “Nehei,” sagði þá hinn, “þetta er ekki Guð, þetta er Drottinn.”            Það vantar ekkert á virðinguna og það kemur oft fram að trú okkar er mikil og traust. Það vantar ekkert á bænarlífið sem slíkt. Og meðan það er svo hjá næstum því heilli þjóð, að hún trúir því að Jesús frá Nazaret, sem krossfestur var á hinni fornu páskahátíð Gyðinga, hafi á þriðja degi risið upp frá dauðum, og minnist þess með hinni nýju páskahátíð kristinna manna, er ekki nema eðlilegt að sú þjóð setji sér löggjöf sem ver þessa helgi að einhverju hæfilegu marki. Hitt væri annað hvort bilun eða grunnhyggni sem ógnað gæti því að þjóðin ætti áfram hald og traust í trúarlegri sannfæringu sinni og trúarsið. Það er ekki lengur einn siður í þessu landi eins og lögfest var á sínum tíma á Alþingi hinu forna. En það er enn svo að kristinn siður mótar samfélagið og mótar helgidaga og mótar siðgæði og mótar framferði eftir hinum kristilega náunga kærleika. En það er ekki bara vegna þess að við viljum endilega vera gott fólk og kærleiksríkt svona almennt talað til að fullnægja einhverju almennu réttlæti. Við erum mótuð af þeim sið sem á sér hverfipunkt í einum stórum atburði mannkynssögunnar og úrslitaatriði í lífi og trú kristins manns: Að Jesús frá Nazaret reyndist vera Kristur, Drottinn og frelsari heimsins, er hann reis upp frá dauðum á þriðja degi. Um það snýst þetta nú allt hjá okkur hversu heit eða innileg sem hin kristna trú annars er hjá hverjum og einum frá einum tíma til annars. Hin nýja sköpun Drottins skóp helgi hins nýja skilnings á páskadegi kristinna manna og hinn nýji sáttmáli tók ekki aðeins gildi, heldur var honum þrykkt á enni og á brjóst hverrar kristinnar sálar með krossmarki trúarinnar. Af því tákni krossins er maðurinn helgaður og undir það tákn krossins, tákn hins nýja sáttmála, helgum við okkur signt og heilagt, það er að segja á virkum dögum og helgum. Vegna sigurverksins sem Kristur vann er sigurhátíð sæl og blíð hjá okkur núna og gleymum því aldrei.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hló til dæmis í gær að fíflalegum rökstuðningi þeirrar vantrúarmanna sem voru með málatilbúnað á föstudaginn langa við Austurvöll eða hvar sem það annars var í 101. Þá klæjaði svo undan því að hin fátæklega rest af helgidagalöggjöf Alþings Íslendinga skulienn minnast á að enn er eitthvað sem ekki má gera á föstudaginn langa.

Ég átta mig ekki á þessu, hvað er það nákvæmlega í málatilbúnaði okkar sem þú hlærð að?  Ertu að mynda þér skoðun á málinu útfrá örstuttum fréttaskotum?

og kjánar á fréttavef Vísis.is töluðu um það eins og sjálfsagðan hlut að eitthvað væri réttlætanlegt í þessari ádeilu á “helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar”, eða það var það látið heita þar. Þetta vakti hlátur vegna þess hvað þetta er vitlaust. Er heimsku manna engin takmörk sett, spyr ég bara? Vitaskuld er ekki neitt til sem heitir helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar. Það er Alþingi sem setur lögin í landinu.

Þú setur þig á háan hest og talar um kjána og fífl, en hefur þú lesið helgidagalöggjöfina?  Fyrsta grein er svona:

 I. kafli. Tilgangur laganna.
1. gr. Um helgidagafrið er mælt í lögum þessum í því skyni að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar innan þeirra marka er greinir í lögunum.

Það er því fullkomlega eðlilegt að tala um helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar.

Matthías Ásgeirsson 

Matthías Ásgeirsson (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 15:29

2 identicon

Sæll Eyjaklerkur.  Mikið er ég ósammála þér. 

 Þú talar um fífl og kjána og bætir um betur og hendir gysi að þessu ágæta framtaki Vantrúarfólks sem framkvæmdu þá höfuðsynd að spila bíngó þennan tiltekna dag.  Að orðum þínum að dæma má skilja að þetta sé eitthvað sérstakt fyrirbæri sem tengist póstnúmerinu 101 sérstaklega.  Hvar er nú umburðarlyndið spyr ég? Er það kannski fokið út í veður og vind?  Situr gremjan ein eftir á vindbörðum kletti yfir því að nokkrir einstaklingar skulu hafa iðkað bíngó á föstudaginn langa? 

-Bíngó kæri Eyjaklerkur.  -Glæpurin er að spila bingó.

Hvort skyldi nú vera kjánalegra og fíflalegra að spila bíngó á föstudegi eða trúa því að heimurinn sé skapaður á 6 dögum eins og þú ritar fjálglega um í predikun þinni.

TA

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 17:16

3 Smámynd: Jón Ómar Gunnarsson

Sæll Kristján, takk fyrir að setja predikunina á vefin, þú kemur með marga athyglisverða punkta sem er vert að taka upp í þessari umræðu. Vilja menn einfaldlega sleppa öllum helgidögum og hafa alla daga sem virkadaga nema kannski laugardaga. Sunnudagarnir eru eflaust í augum ákveðinna manna "helgidagar".

Matthías segir: "Þú setur þig á háan hest og talar um kjána og fífl" á vefsíðu Matthíasar www.örvitinn.com eru orð sem þessi iðulega notuð til þess að niðurlæga fólk. Hér fylgja nokkur dæmi um orðanotkun Matthíasar þegar hann fjallar um trúmenn:

"Það er kominn tími til að gera meira. Enn og aftur gengu þessir andskotar of langt." Matthías um presta þjóðkirkjunnar

"Fíflið mætti á leikskólann í dag. Kolla fór í heimsókn til Ingu Maríu og þær léku sér tvær meðan allir hinir krakkarnir voru í sal með fíflinu." Matthías fjallar um Sr. Bolla Pétur 

"Ég hef sagt það áður en sjaldan er góð vísa of oft kveðin, biskup Íslands er fífl." Matthías um biskup Íslands. 

"Það vill svo heppilega til. Afsakið meðan ég æli yfir kirkjunnar hyski." Matthías um kirkjunnar fólk í færslunni "Berjum presta"

  "get ég ekki dregið aðra ályktun en að þeir séu verulega greindarskertir eða fullkomlega siðlausir." Matthías í færslunni "Greindarskertir eða siðlausir"

Hver setur sig á háan hest....

JG

Jón Ómar Gunnarsson, 10.4.2007 kl. 12:02

4 identicon

Jón Ómar, ég þori líka að svara fyrir mig, ólíkt Kristjáni og ég stend við skrif mín.  Siðlaust hyski sem stundar trúboð í leikskólum verðskuldar ósköp einfaldlega að um það sé talað á þennan máta.  

Eftir stendur að lög um helgidaga fjalla um helgidaga Þjóðkirkjunnar.  Skrif Kristjáns um fífl, kjána og heimsku eiga því fyrst og fremst við um hann sjálfan.

Matthías Ásgeirsson

Matti (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 13:21

5 identicon

Jón Ómar klikkaði á síðustu vísun sinni, en hún átti að vísa á greinina Greindarskertir eða siðlausir á heimasíðu minni.

Ég þakka Jón Ómari fyrir vísanirnar og vil hvetja alla til að lesa skrif mín um leikskólaprest í samhengi. 

Matthías Ásgeirsson

Matti (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 13:34

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

"Ég hló til dæmis í gær að fíflalegum rökstuðningi þeirrar vantrúarmanna sem voru með málatilbúnað á föstudaginn langa við Austurvöll eða hvar sem það annars var í 101. "

Hvað var svona "fíflalegt" við rökstuðninginn? Ég sé ekki hvar þú bendir á það í þessari predikun.

"Fíflaleg uppákoma vantrúarmanna vekur mér því bara hlátur og þó væri ef til vill nær að tala um aðhlátursefni, fyrst fólk getur verið svo lokað í eigin heimi eða blint í þröngsýnni lífsskoðun sinni, þeir sem vildu sjálfsagt segja eitthvað voða merkilegt með því athæfi að halda bingó á gömlum messutíma föstudagsins langa."

Hvað var svona fíflalegt við þessa uppákomu?

Að hvaða leyti erum við "lokuð í eigin heimi eða blind í þröngsýnni lífsskoðun okkar"?


Það vantar allan rökstuðning fyrir upphrópanirnar í þessari predikun.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.4.2007 kl. 13:49

7 Smámynd: Jón Ómar Gunnarsson

Já ég hvet fólk til þess að lesa þessi skrif þau eru mikil opinberun...

Jón Ómar Gunnarsson, 10.4.2007 kl. 17:20

8 identicon

Nú ertu búinn að benda á mig Jón Ómar, hvernig væri þá að ræða það efni sem hér er til umræðu, þ.e.a.s. skrif prestins og rakalausar upphrópanir hans.  "Hann líka" hefur hingað til ekki talist málefnaleg rök.

Ekki þarf maður að fara að mæta í messu hjá prestum svo þeir svari fyrir sig, er það í starfslýsingu að prestar skuli prédika dylgjum og sleppa því að standa við orð sín?

Matthías Ásgeirsson

Matti (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 18:29

9 identicon

Takk fyrir að lesa þessa prédikun páskadagsins og bregðast svona mikið við því sem ég talaði þar. Það verður aldrei allt sagt í einni prédikun svo þetta er ágætt. Ég hef hins vegar ekki komist í að skoða þetta spjall fyrr en núna, fyrirgefið það. Matthías er nokkuð orðhvass en það hneykslar mig ekki. Bara gott mál að tala íslensku.

Það sem ég kalla kjánaskap er líkast því að setjast út á trjágrein og saga hana af nær trénu. Mér finnst það aðhlátursefni að taka sér frí á helgidegi en mótmæla helgi dagsins. Ég hélt að ég hefði sagt þetta nógu skýrt. Ég kalla engan mann fífl en stundum gerum við eitthvað fíflalegt. Það er engin upphrópun í því. Þetta er held ég satt um alla menn og mig líka.

Orð mín um sköpun Guðs á sex dögum ber ekki að skoða bókstaflega heldur sem allegórískt guðfræðilegt tal um skikkan skaparans og lögmálið í okkar lífi. Hér er ekki rúm fyrir langar útskýringar á því og því hef ég þetta svona knappt.

Þótt ég segi eitthvað um athafnir annarra og segi skoðun mína á því hvernig þær athafnir koma mér fyrir sjónir á það ekkert skylt við umburðarlyndi eða skort á því. Það eru engar dylgjur af minni hálfu heldur einfaldlega skoðun mín. Setji ég það fram í prédikun, sem ég geri af og til, sem dæmi af mannlegri breytni og til að draga fram ákveðna merkingu guðspjallsins sem ég legg útaf, er é gum leið að opna fyrir skotleyfi á þau orð mín. Gjörið svo vel. En hatursfullt viðhorf til presta þjóðkirkjunnar dæmir sig sjálft. Ég reagera ekki við því.

Löggjöf Alþingis um helgidaga geta um helgidaga þjóðkirkjunnar. Löggjöfin er þó löggjafans. Það væri tímanna tákn ef löggjafinn breytti þessu og tæki af nokkra af helgidögum að lögum sem nú miðast við helgidaga kristinna manna en tæki í staðinn upp nokkra helgidaga annarra trúarbragða. Það væri þá laufskálahátið fyrir Gyðinga og hátíð ljósanna og svo helgidagar að lögum hér samkvæmt föstu Íslam svo eitthvað sé nefnt.

Annars nóg í bili og takk fyrir viðbrögðin.

Í friði Guðs,

sr. Kristján

klerkur (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 21:28

10 identicon

Sæll klerkur.  Ég held að það væri ekkert tímanna tákn að taka upp helgidaga annara trúarbragða.  Það sem Vantrúarfólkið var að benda á er sú furðulega frekja þjóðkirjunnar að krefja alla landsmenn, af hvaða trú sem þeir tilheyra, að bukta sig yfir helgidegi Ríkiskirkjunnar. 

Þetta má ekki á föstudaginn langa:

Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó  Markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi eða önnur svipuð spil fara fram.  Tekið hér: http://www.althingi.is/altext/stjt/1997.032.html

Þetta er barasta dæmi um frekju og yfirgang Ríkiskirkjunnar.  Bannað að fara í bíó!  bannað að tvista!  Bannað að fara í Kolaportið! -Af hverju er bannað að fara í Kolaportið á föstudaginn langa?  -Hvar er hættan?  Gæti gamall lampi tekið upp á því að varpa röngu ljósi á eitthvað?   Eru notuð föt skaðlegri heilsu fólks á þessum tiltekna degi?  Eitraður Don Cano-galli á bás 22?  Hvað er eiginlega málið?
 
bannað, bannað, bannað
 
Ég er sannfærður um að fólk almennt ber virðingu fyrir helgidögum samborgara þeirra hverjir sem þeir kunna að vera en virðingin þverr um leið og fólk er skikkað til að gera einhvað (eða gera einhvað ekki sbr Bíngó keppnin á Austurvelli) af tillitsemi við trúar og lífsskoðanir samborgara sinna.
 
Hættið að banna.  -Þá verður allt betra. 
  
ps
Hvað varðar svar þitt:  "Orð mín um sköpun Guðs á sex dögum ber ekki að skoða bókstaflega heldur sem allegórískt guðfræðilegt tal um skikkan skaparans og lögmálið í okkar lífi."
 
Þá skaltu bara prófa.  Ég er BA í guðfræði og er barasta ágætur í að ráða í tyrfna orðræðu þá sem prestar hafa tileinkað þegar þeir útskýra skikkan skaparans.  -Það er oft og tíðum kátlegt hvað sumir nota mörg orð til að útskýra einfalda hugsun. 
 
-Þetta er nú ekki svona rosalega flókið
 
 

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 01:41

11 identicon

"Matthías er nokkuð orðhvass en það hneykslar mig ekki. Bara gott mál að tala íslensku."

Ekki orðhvassari en Kristján í prédikun sinni.

"Mér finnst það aðhlátursefni að taka sér frí á helgidegi en mótmæla helgi dagsins."

Sérðu ekki greinarmun á frídegi og helgidegi?  Ég á að sjálfsögðu frídaga en enginn getur neytt mig til að hafa þá helga/heilaga.  Ég hafði ekkert val um að taka mér frí þennan dag.   Mótmælin snerust þar að auki ekkert um helgi dagsins, heldur boð og bönn.  Ég hef ekkert út á það að setja að kristið fólk haldi daginn helgann.

"Ég kalla engan mann fífl en stundum gerum við eitthvað fíflalegt. Það er engin upphrópun í því. Þetta er held ég satt um alla menn og mig líka."

Þú talar um "fíflalegan rökstuðning".  Nú var það ég sem mætti í sjónvarpsviðtal og ég er formaður Vantrúar.  Hví rökstyður þú ekki þessa upphrópun, hvað er fíflalegt við athæfi okkar og rökstuðning?

"Löggjöf Alþingis um helgidaga geta um helgidaga þjóðkirkjunnar."

Nei, lögin "geta" ekki bara um helgidaga Þjóðkirkjunnar, þau fjalla um þá og einungis þá

Matthías Ásgeirsson 

Matti (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 09:56

12 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

"Það sem ég kalla kjánaskap er líkast því að setjast út á trjágrein og saga hana af nær trénu. Mér finnst það aðhlátursefni að taka sér frí á helgidegi en mótmæla helgi dagsins. Ég hélt að ég hefði sagt þetta nógu skýrt."

Þetta er óskiljanlegt. Kristján telur það greinilega vera mótsögn að "taka sér frí á helgidegi" og að "mótmæla helgi dagsins".

Það er tvennt við þetta að athuga:

1. "taka sér frí á helgidegi". Maður tekur sér ekki frí á föstudeginum langa, maður er skyldaður til þess. Ég væri til dæmis til í að taka mér frekar frí yfir sumartímann.

2. "mótmæla helgi dagsins" Það er enginn að mótmæla því að einhverjir kristnir menn líti á þennan dag sem heilagan, heldur er verið að mótmæla því að maður neyðist til þess að taka fríið sitt út á helgidögum kristinna manna (og að það megi ekki skemmta sér á þeim degi).

Þarna er engin mótsögn og þar af leiðandi ekkert kjánalegt, fíflalegt eða fyndið.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 11.4.2007 kl. 12:43

13 identicon

Það sætir furðu hvað þessi setning er vanhugsuð: "

"Mér finnst það aðhlátursefni að taka sér frí á helgidegi en mótmæla helgi dagsins. Ég hélt að ég hefði sagt þetta nógu skýrt.

Eins og Hjalti Rúnar Ómarsson benti á er fólk skikkað til að taka sér frí og er í þokkabót bannað að dansa diskó (eða hvaða danstegund sem er),  fá sér í glas,   fara í Kolapotrið eða spila Bíngó.

...af þvi að eitt trúfélag fagnar helgidegi meðal safnaðarmeðlima sinna.

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 13:18

14 Smámynd: Ólafur Jóhann Borgþórsson

Ekki veit ég hvar þú hefur fengið ba prófið í guðfræði Teitur, þú hefur varla fylgst mikið með í tímum ef þú telur að aðeins eitt trúfélag fagni helgidegi meðal safnaðarmeðlima sinna! Kristin trúfélög í þessu landi eru mun fleiri en Þjóðkirkjan og í þeim öllum er föstudagurinn langisérstakur dagur - um það er m.a. fjallað í kúrs sem heitir kirkjudeildarfræði!

Ólafur Jóhann Borgþórsson, 11.4.2007 kl. 13:43

15 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ólafur, í lögum um helgidagafrið er einungis minnst á Þjóðkirkjuna. Lögin eru ekki til komin vegna þess að Aðventistar eða Óháði söfnuðurinn telja föstudaginn langa vera heilagan. Teitur Atlason á augljóslega við þetta og hann veit örugglega vel að önnur kristin trúfélög halda líka föstudaginn langa heilagan. Það er barnalegt að reyna að snúa svona út úr orðunum hans.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 11.4.2007 kl. 14:11

16 identicon

Ólafur segir: "Ekki veit ég hvar þú hefur fengið ba prófið í guðfræði Teitur"

Því er til að svara að ég var í HÍ á sama tíma og þú.  Ég var kaffistofustjóri og við áttum oft og tíðum ágætis samræður.  Ég er semsagt útskrifaður úr sama skóla og þú.  Þú hlýtur að muna eftir mér.

Vissulega veit ég að föstudagurinn langi er hátíðisdagur kristinna manna.  Um það snýst nú ekki debatið heldur það að (og lestu nú með athygli) þegar að hópur í samfélagi fagnar helgidegi, er það frekja að ætlast til þess að allir í þessu samfélagi skuli taka þátt í helginni.  Sumir (eins og þú mannst örugglega úr guðfærðinni) eru ekki kristinir, þótt það komi þér sennilega spánskt fyrir sjónir.

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 15:27

17 Smámynd: Ólafur Jóhann Borgþórsson

Þetta er nú óþarfa viðkvæmni þó ég hafi leiðrétt ákveðna rangfærslu þína sem síðasta færsla þín snerist að mestu leyti um og er meira að segja rauðletrað.

Ólafur Jóhann Borgþórsson, 11.4.2007 kl. 15:43

18 identicon

Hver er annars þín skoðun á þessu bíngómáli?  Er það þín skoðun að það ætti að vera bannað að spila bíngó eða fara í Kolaportið þá þessum tiltekna föstudegi?

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 39660

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband