Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Óráð að skapa óvissu um sjávarútveginn

Það er merkilegt að nú, þegar stórir geirar atvinnulífsins eru í lamasessi eftir hrunið á fjármálamarkaði, byggingarverktakar berjast í bökkum og fjöldi fyrirtækja á ýmsum sviðum verslunar og þjónustu eiga í erfiðleikum, m.a. vegna fjármagnskostnaðar, skuli ráðamönnum koma það helst til hugar að skapa óvissu um eina af fáum greinum atvinnulífsins sem eru að bjarga landinu.

Í sjávarútvegi hafa fyrirtæki Eyjamanna sýnt fádæma útsjónarsemi og framsýni við kaup á aflaheimildum og unnið markvisst að uppbyggingu greinarinnar. Nú var loksins að sjá sem þessi útvegur gæti hugsanlega átt góða daga í vændum, ekki síst þegar litið er til þess að útflutningsverðmætin hafa aukist við núverandi gengi krónunnar, sjómenn fá mun meira fyrir sinn hlut og tekjurnar eru loksins á uppleið. Magur tími er að baki þar sem menn hafa þraukað.

Við þessar aðstæður virðist nýja ríkisstjórnin hennar Jóhönnu Sigurðardóttur ætla að taka upp eignirnar, sem keyptar hafa verið í núverandi kerfi, þ.e.a.s. eignirnar sem felast í veiðiheimildunum, með það fyrir augum að úthluta þeim aftur. Það verða þá væntanlega einhverjir aðrir sem fá að kaupa þessar eignir eða fá þær að gjöf. Trúlega eru það þeir sem áður hafa verið í bransanum en séð hag sinn í því að selja aflaheimilir frá sér í núverandi kerfi. Í þriðja eða fjórða sinn fá þeir þá aftur veiðiheimildir sem þeir geta þá selt með góðum vöxtum. Látum það þó liggja milli hluta hvað þetta gæti farist óhönduglega, því auðvitað vonum við það besta.

Það liggur þó fyrir að með eignaupptöku veiðiheimilda, sem boðuð er, hljóta þeir að fara verst út úr þeim afskiptum sem hafa byggt hvað mest upp. Verstöðin í Vestmannaeyjum fer trúlega einna verst út úr þessari uppstokkun, enda er erfitt að taka frá þeim sem ekkert á.

Nóg er að gert nú þegar þessi óvissa hefur verið sköpuð, því auðvitað kippa ríkisbankarnir að sér höndum nú þegar, en bíða ekki boðanna. Yfirlýsingin í stjórnarsáttmálanum hefur trúlega þegar áhrif á stöðu þeirra sem senn eiga að tapa veðhæfum eignum veiðiheimildanna í kjölfar síðustu ára aflaskerðingar og tapaðra annarra eigna í fjármálahruninu.


Sjálfsmynd þjóðarinnar svona mikið brotin?

Ætli sjálfsmynd þjóðarinnar sé svo niður brotin að hún verði að fá útlending í embætti seðlabankastjóra? Og eins þótt það sé andstætt ákvæðum stjórnarskrárinnar, ef marka má ábendingar Sigurðar Líndal, lagaprófessors, því fyrsta skilyrði fyrir embættisgengi hér heima er að vera íslenskur ríkisborgari.

Sennilega liggur okkur svona mikið á að laga sjálfsmynd þjóðarinnar að við þurfum útlending til að ganga í augun á útlendingum. Lengi höfum við Íslendingar verið háðir áliti annarra og oft höfum við gert grín að setningum eins og: "Há dú jú læk æsland?" Nú sýnist mér það vera komið á annað stig og heldur aukast nú vandræði okkar, kerling.

Hefði ekki verið nær að setja Arnór seðlabankastjóra og ráða handa honum alþjóðlegan sérfræðing sem aðstoðarmann eða ráðgjafa? En nú er ekkert heilagt og ekki heldur stjórnarskráin og hvað þá ímynd þjóðar í eftirköstum bankakreppu.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slys ef losa á um séreignasparnaðinn

Það yrði hörmulegt slys ef löggjafinn tæki uppá því núna að losa um viðbótarlífeyrissparnaðinn hjá okkur. Það myndi hafa áhrif á eignina sem eftir stæði bæði hjá þeim sem fengju að taka út hluta hans og okkar hinna sem ekki hafa minnstan áhuga á því að eyðileggja þennan ævisparnað meira en orðið er.

Í fyrsta lagi er þessi sparnaður ekki aðfarahæfur og slyppi því ef gengið yrði að skuldurum. Þeir misstu sjálfsagt sitt en ættu þó þetta sem ósnertanlega eign þrátt fyrir gjaldþrot.

Í öðru lagi þarf hlutur þeirra sem losa úr séreignasjóðum sínum að seljast og ólíklegt annan en þeir sem geta keypt reyni að kaupa á sem lægsta verði. Ólíklegt annað en sú eign yrði metin niður þegar til útgreiðslu kæmi. Sá sem ætlar þannig að losa fé fær ekki raunvirði fyrir það.

Vonandi skjóta ráðmenn hvorki sjálfan sig né alla aðra í fótinn með svo slæmri aðgerð.


Mannapólitíkin ráðandi og græðgin lifir

Það er ótrúlega dapurt að horfa uppá það þessar vikunarnar hvernig mannapólitíkin yfirskyggir alla umræðu um þjóðfélagsmál um þessar mundir. Krafa mótmælenda snýst helst um eitt og eitt nafn eða mannaskipti sem slík. Ég hef hlustað og hlustað en heyri ekki kröfu um einhverja sérstaka stefnu í peningamálum. Krafan er um mannabreytingar og velferð skuldugra heimila. Helst er þó að heyra að menn vilji breytta vaxtastefnu svo skuldir heimila og fyrirtækja lækki.

Ekki heyri ég kröfu til varnar lífeyrissjóðum landsmanna gegn spákaupmönnum og fjárfestum sem eiga allt sitt undir því að skuldavafningar viðskiptabanka og lífeyrirssjóða haldi. Hinir ríkustu fjárfestar vilja ekki gefa eftir og því mun það kosta landsmenn óheyrilegan skaða í töpuðum lífeyri í framtíðinni. Græðgin er enn allsráðandi, græðgi í valdastóla og græðgi í peningagróða.

Umbæturnar í stjórn landsins snúast of mikið um tiltekna menn. Of lítið um innihald. Það ætti að setja "low profile" fólk í allar þessar stöður og "no nonsense" vinnusama einstaklinga. Best ef þeir hafa hvorki átt nokkurn hlut nokkurn tíma í nokkru fjármálafyrirtæki og best ef þeir hafa aldrei komið nálægt bankastarfsemi.

Af hverju ekki að setja fólk í stjórnir FME og Seðlabanka og ríkisbankana sem hefur einfaldlega gott brjóstvit, heilbrigða skynsemi og æðri gildi fyrir sjónum?


Fjárstreymið stöðvast og blóðið frýs í æðum

Það er ef til vill ekki rétt líking að atvinnulífinu blæði út. Er ekki blóðið hreinlega að storkna eða frjósa í botn í æðum íslensks atvinnulífs. Það versta sem hefur verið að gerast undanfarin misseri er stöðvun fjármagns því peningaflæði er eitt helsta einkenni á eðlilegu markaðskerfi eins og ég lærði mína hagfræði. Ég hef það á tilfinningunni að milljarðar króna séu enn undir koddanum hjá fólki. Við sjáum að svimandi háir stýrivextir Seðlabanka halda uppi háu vaxtastigi viðskiptabankanna og stöðva útlán. Rist hefur verið á framvindu lánakeðja erlendis frá og við höldum enn uppá sömu stjórnun peningastefnunnar og var við líði þegar allt var að stöðvast - sömu stefnu og beitt var þegar stöðva átti bankana í útþennslu sinni. Sama peningastefnan stöðvaði þá vissulega og er nú á góðri leið með að stöðva allt atvinnulífið. Afturhaldsstefnan hins gamla stjórnmálamanns er í sjálfu sér að þykkja blóðið í æðum athafnalífsins og kæfa súrefnisstreymi markaðskerfis sem ætti frekar að skokka um frjálst á þroskabraut sinni í átt til aukinnar hagsældar fyrir alla landsmenn.

Það stefnir í mun harðari lendingu en þarf. Og til að gera það enn dramatískara er líka skrúfað fyrir fjármögnun heilbrigðiskerfisins með þursasleggju Guðlaugs Þórs. Það verður þá enginn heldur til að taka við lífvana blóðstorknum restum Íslendingsins.


mbl.is Fyrirtæki hanga í snöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkun sóknargjalda og trúfélagsgjalda dapurleg

Það er ljóst að niðurskurður á fjárlögum 2009 er víða mikill. Ljótt er að heyra af dæmum um niðurskurð í velferðarmálum, framlögum til heilbrigðismála og t.d. til vímuvarna hjá SÁÁ. Það er líka verið að leggja til lækkun á framlagi til háskóla og til annarra skóla á sama tíma og þeir ættu að vera efldir til að taka við fólki til náms í stað fjölgunar á atvinnuleysisbótum.

Sóknargjöldin er líka skert um töluverðar upphæðir og þar kemur skerðingin jafnt niður á þjóðkirkjunni og trúfélögum í landinu. Sóknargjöldin hefðu átt að hækka um ríflega 12% vegna hækkunar á meðaltekjuskatti einstaklinga í landinu milli áranna 2007 - 2008. Þessi hækkun verður ekki að veruleika og þótt mörgum hefði þótt það nógu mikil skerðing er skerðingin meiri í fjárlögum 2009. Það er gengið lengra fyrir það sem virðist vera einkennilegur slumpreikningur. Sóknargjaldið fyrir hvern mann 16 ára og eldri var 872 á árinu 2008. Nú á meira að segja að lækka það niður í 855 kr. á mann á mánuði í kirkjusókn eða öðru trúfélagi. Raunlækkunin er því ýkt einsog einhver myndi segja og mun hafa varanleg áhrif á gjaldið um ókomin ár.

Það þýðir einnig lækkun til Háskóla Íslands en þangað hafa jafngildi sóknargjalda þeirra runnið sem standa utan trúfélaga, samkvæmt stjórnarskránni. Og verst er að þessi gjöld munu sannarlega lækka árið 2010 því varla hækkar meðaltekjuskattur einstaklinga milli áranna 2008 og 2009. Skerðing sóknargjalda árið 2009 mun svo hafa varanleg áhrif á þann stofn sem verðbætur komandi ára reiknast ofaná ár frá ári.

Þá er gert ráð fyrir lækkun á launum presta en það er sjálfsagt mál að taka því ef launalækkun verður almenn á Íslandi. Við erum þó lægst launaðir af þeim sem heyra undir kjararáð og ef ég les frumvarið um lagabreytingu fyrir kjararáð rétt er fyrst og fremst gert ráð fyrir lækkun launa til ráðherra og alþingismanna. Nóg yrði lækkunin og þátttaka presta í lækkunarferlinu með því að laun þeirra yrðu fryst árið 2009. Það yrði bærileg raunlækkun og verðugt persónulegt framlag.

Allar þessar lækkanir til samfélagslegra mála og velferðarmála eru nú á dagskrá til að ná niður halla ríkissjóðs og kostnaði við lántöku og skakkaföll þjóðarinnar í kreppu fjármálaheimsins. Guð láti gott á vita og blessi þessi ráð, sem gripið er til, en aðeins með hans blessun getum við átt von um að rétta úr kútnum í framtíðinni.


Kallar á iðrun og yfirbót

Meining þessara mótmælenda er í raun ótrúlega nálægt eðli aðventunnar. Á aðventunni er kallað eftir iðrun og yfirbót, að fólk sjái að sér og vinni raunveruleg yfirbótarverk. Aðfarirnar eru reyndar hrikalegar þótt þær séu á margan hátt skiljanlegar.

Ef þessi hugsun mín reynist gáfuleg er líka jafn líklegt að við njótum þess enn frekar en áður að ganga inn í helgi jólanna eftir viku. Spurning hvort ekki sé bara andleg heilsubót í því að hreinsa svona huga sinn. 

En ég minni alla á helgi mannsins. Hinn meinti afbrotamaður er meira að segja helgur í sjálfu manngildinu vegna þess að hann er skapaður í mynd Guðs þrátt fyrir allt. Árás á bankamanninn Tryggva Jónsson og árásin Jón Ásgeir á götu úti er t.d. jafn óásættanleg og aðför að nokkrum manni öðrum.

Samkvæmt þessari hugsun eiga mótmælendurnir sjálfir eftir að leita iðrunar í eigin lífi jafn einbeitt og þeir deila á aðra. Það er væntanlega verkefni þessarar þjóðar í heild.


mbl.is Ruddust inn í Landsbankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirstrikar vanmátt fjórða valdsins - gagnrýnin reynist sönn

Það er eiginlega of freistandi að hnjóða í Reyni, mann sem hefur ekki sýnt mikla vægð í sínum blaðamannsferli. Maður fer að velta fyrir sér ýmsu í hans blaðamennsku, smyglinu og fleiru. Það ætla ég því ekki að gera enda gæti einhver farið að halda að hann hafi e.t.v. einhvern tíma þjarmað að mér. Eftir minni bestu vitund er það nú ekki þótt hann hafi tvisvar eða þrisvar skrifað upp nafnið mitt í tengslum við fréttir af öðru fólki.

Hins vegar verður ekki framhjá því horft að fjórða valdið í samfélaginu býður mikinn hnekki ef Reynir Traustason situr áfram sem ritstjóri. Fjölmiðlar hafa sannarlega fengið að heyra það undanfarnar vikur að þeir hafi brugðist hlutverki sínu - einmitt vegna eignahalds og hagsmunatengsla við ráðandi menn í fjármálaheiminum.

Slæmt að þessi gagnrýni á fjölmiðla reynist sönn. Það er líklega stærsta fréttin í þessu. Með hvaða broddi ætla ærlegir blaðamenn að stinga á úldin kýli í fjármálaheiminum eða t.d. hjá stjórnvöldum eftir þetta?


mbl.is Aldrei aftur mun óttinn stýra fréttaflutningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð Jóhönnu ráðherra sýna skilning hennar

Það er með hryllingi sem ég horfi upp á vaxandi ólgu og ákafa í framgöngu mótmælenda í Reykjavík. Atgangurinn við ráðherrabústaðinn um daginn var í raun mjög sterk og alvarleg áminning um hugarástand hjá hópi fólks. Ekki veit ég neitt um það hversu vel þessi mótmælaaðferð fellur að hugmyndum þorra landsmanna. Ekki veit ég hvort ég get yfirhöfuð dæmt um það hvort það er í lagi að koma svona fram eða hvort það sé réttlætanlegt að fólk sýni andúð sína í garð ríkisstjórnar með þessum hætti eða ekki.

Það sem situr eftir í huga mér fram á þennan dag, daginn eftir, eru viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra. Af viðbrögðum ráðherra sem sýnd voru í sjónvarpi, vitnuðu viðbrögð Jóhönnu um einstakan skilning á aðstæðum. Ef ég man þetta rétt: "Þetta er alveg ferlegt ástand og það fer stöðugt versnandi." Henni leið illa yfir þessu ástandi og átti erfitt með að horfa upp á það versna og átökin að harðna með hverjum deginum.

Það er ef til vill ekki lengur sá mikli fjöldi þátttakenda í mótmælaaðgerðunum sem farið hafa fram á Austurvelli og á fundunum í Háskólabíói og víðar. Ástandið er að versna af því að það verður stöðugt meira áberandi hversu margir ganga nú harkalega fram. Líka eins og í Landsbankanum í dag. Það er engu líkara en sá hópur stækki sem líður þannig að það sé engu að tapa. Það er hrikalegt ástand ef stöðugt fleiri Íslendingum líður þannig eða finnst þeir vera komnir í þvílíkt þrot. Í því er mikið niðurbrot þegar þjóðin þarf á því að halda að sjá ljósa von, standa saman og hefja sig upp úr erfiðu efnahagsástandi.  


Flotholta-vísindi á fljótandi krónu

Nú er um að gera að draga bara djúpt andann áður en við stingum okkur útí. Fer maður ekki alltaf fyrst á kaf sem stingur sér til sunds? Svo hef ég fulla trú á því að við komum öll uppúr þessu kafi eins og korktappi og skjótumst áfram að settu marki.

Þetta eru kannski bara flotholta-vísindi í hagfræðinni fyrir fljótandi gjaldmiðilinn okkar, blessaða litlu krónuna. En ætli hún hafi ekki burði til að koma fljótar uppúr kafi en nokkur annar gjaldmiðill? Það er allavega eðli þessarar litlu "stórustu þjóðar" sem á þessa fallegu mynt með fiskum og eigin skjaldarmerki.

 


mbl.is Gengislækkun stendur stutt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 39660

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband