Færsluflokkur: Menning og listir

Takk fyrir Skálholtshátíð 2008 - Þorláksmessu á sumar

Það væsti ekki um okkur í Skálholti og margir lögðu leið sína til hins forna höfuðstaðar kristni og kirkju í stiftinu. Pílagrímagangan frá Þingvöllum til kirkjunnar var tákn hreyfingarinnar og leitar að innri krafti, ef ekki tæming hugans og streitu til að hleypa hinu andlega að í sálinni. Það sama hendir þá er koma á seinna hundraðinu og tveimur hjólum fyrir horn inn á hlaðið og eru allt í einu leiddir í mestu rósemd inn á víðar lendur fegurstu lista, fræðslu, söngs og tilbeiðslu. Ég skrifa þessi fáu orð til að þakka sérstaklega þeim er að dagskránni stóðu, sr. Sigurði vígslubiskupi, Sumartónleikunum og rektor og starfsfólki staðarins.

Að öðrum flytjendum ólöstuðum stóð Kolbeinn Bjarnason, flautuleikari, uppúr, sérstaklega vegna samspils hans í fyrirlestri um tónverkin og svo hljóðfæraleik þeirra Guðrúnar Óskarsdottur á tónleikunum, en ótrúleg túlkun hans á Ferneyhough í þessu sambandi. Voces Thules voru flottir og þá ekki síst Upphaf Völuspár Eggerts Pálssonar. Samhljómur hinna fornu tíða var þráður í gegnum hátíðarmessu og tónleika, en þar þakka ég líka Pax og Steingrími Þórhallssyni organista og stjórnanda. Ekki klikkaði Hörður Torfa sem fékk mig til að hlusta af meiri athygli á texta ljóða sinna en nokkru sinni áður, af því að þeir áttu að vera trúarlegir.

Já, hafið þökk, allir þátttakendur, leikir og lærðir vinir og collegar fyrir nærveru og lífsfyllingu og líka þessa klassísku elskusemi sem aldrei er fegurri en þegar ást Guðs birtist í hátíðleika kirkjulegrar menningar. Erum við ekki sannarlega í skuld við Guð og menn fyrir stað eins og Skálholt þar sem helgin ein ríkir?

Og sérstakar þakkir fyrir innihaldsríka prédikun sr. Sigurðar og þeirrar hugvekju sem fékk okkur til pælinga um samtíðina og snertingar við minni sögunnar, um kænsku og trúmennsku, en heiðarleika gagnvart farsæld þjóðarinnar.


Sumrinu heilsað með kaffihúsamessu í Grafarvogskirkju

Það stendur heldur betur mikið til hjá Kaffihúsakór Landakirkju sumardaginn fyrsta. Nú kemur þessi kór, sem hefur verið að æfa og syngja gospel og trúarlega söngva í vetur undir stjórn Óskars Sigurðssonar, og syngur heila kaffihúsamessu í Grafarvogskirkju í Reykjavík.

Margir koma að messunni

Messan verður niðri í safnaðarheimili Grafarvogskirkju kl. 16.00 þann 19. apríl. Söngurinn verður örugglega góður og enginn svikinn af því. Við prestarnir í Landakirkju og prestar Grafarvogskirkju komum til með að leiða stundina með prédikun orðsins, bæn og blessun. Æskulýðsfulltrúar og fleiri koma að lestri og skipulagi og hægt verður að fá sér kaffi og kleinur á vægu verði, en aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis.

Hugmyndin að kaffihúsakór 

Hugmyndin að kaffihúsakór fæddist í Landakirkju fyrir nokkrum árum þegar tónlistarfólk undir forystu Ósvaldar Freys Guðjónssonar og prestar kirkjunnar vildu freista þess að brjóta upp hnakkasamfélagið. Það gerum við með því að skapa notalega stemningu við guðsþjónustu í safnaðarsal kirkjunnar. Við sköpum umgjörð kaffihúss með því að fólkið situr við borð og kertaljós, slakar á og fær sér kaffi og með því á meðan stundin líður við söng og lifandi Orð Guðs. Prédikun prestanna hefur oftar en ekki verið samtalsprédikun eða samtal prestsins við söfnuðinn.


Einingarviðleitni kristinna manna

Ótrúlegt hvað umræðan um sameiningu eða ekki sameiningu kirkjudeildanna náði hátt án þess að hægt væri að sjá raunverulegt tilefni. Neistinn sem kveikti þessa umræðu hefur trúlega verið yfirlýsing um að enska biskupakirkjan og rómverska kaþólska kirkjan væru að undirrita yfirlýsingu um sameiginlegan skilning á nokkrum kenningarlegum efnum. Í mínum huga var það alveg nógu stór frétt. En svo varð þessi fjöður að hálfgerðri akurhænu þegar farið var að bera það undir presta hér og þar uppi á Íslandi hvort ekki væri kominn þarna hvati að sameiningu rómversku Kristskirkjunnar á Landakoti og Þjóðkirkjunnar á Íslandi. Það er fögur hugsjón að sjá kristna menn sameinast, en það er óskaplega margt sem skýrir það kenningarlega séð, hvers vegna kristnir menn hafa kosið að starfa að framgangi guðsríkissins í mörgum kirkjudeildum. Trú og skipulag er ein af skrifstofudeildum Lútherska heimssambandsins í Genf. Það er ekki undarlegt að skipulagið í einni kirkjudeild ráðist nokkuð af trúarhugmyndum manna um kirkjuna sjálfa, sakramentin og embættið. Það er ekki endilega tákn um sundurlyndi þótt kirkjudeildirnar séu margar. Samfélag kristinna manna hér á landi hefur oftast nær verið gott samfélag og engin alvöru trúarbragðastríð hafa geysað í landinu. Eftir mínu besta viti hefur samkirkjuleg hreyfing náð mestum árangri í starfi eins og því sem trúlega kom þessum umræðum af stað. Þetta felst í því að setja á blað sameiginlegar yfirlýsingar um einstök kenningarleg efni, kirkjuleg fræði eða aðra guðfræði. Það væri gaman ef við gætum náð upp fræðandi umræðu á því plani svo það skilaði einhverju fyrir samfélagið okkar, bæði í kirkjunni og í þjóðfélaginu. Í sjálfu sér er það hið mesta og kristilegasta sameiningarafl sem hægt er að hugsa sér.


Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband