Færsluflokkur: Bloggar

Kirkjan er hrein og bein í þessari sölu

Kirkjuþing 2007 samþykkti að selja íbúðarhúsnæðið til Prestsbakkasóknar og því kom ekki nein önnur sala til greina. Heimild Kirkjuráðs var bundin við þann vilja Kirkjuþings, sem var skýr. Það á sínar skýringar hvað það hefur tekið langan tíma að ganga endanlega frá sölunni, en það þarf einfaldlega að fá sinn tíma svo öllu réttlæti sé fullnægt, afmörkun lóða húsa, kirkju og garðs o.s.frv.

Það er ekkert nema eðlilegt að Prestsbakkasókn fái aðstöðu í íbúðarhúsinu, sem er aflagt prestsetur. Húsið stendur mjög nálægt kirkjunni og kirkjugarðinum og því er þetta góður kostur sem þjónustuhús og safnaðarheimili. Þar getur söfnuðurinn hist í kirkjukaffi, kórinn haft aðstöðu og annað safnaðarstarf getur farið þar fram líka, s.s. barna og æskulýðstarf og fræðsla. Þá koma þarna snyrtingar og þjónusturými fyrir kirkjugarðinn og prestur og djákni gætu haft þar viðtalsherbergi eða aðstöðu fyrir og eftir helgihald eins og í mörgum öðrum sóknum. Það þykir sjálfsagt í dag.

Í mínum huga er frábært að sjá þetta gerast og sjálfsagt að koma þessari aðstöðu upp vegna grunnþjónustu kirkjunnar á staðnum - þótt söfnuðurinn sé fámennur. Þótt ekki sé margt fólk í sókninni á það líka rétt á grunnþjónustu kirkjunnar og sómasamlegri aðstöðu til safnaðarstarfs, ekki síður en fólk í þéttbýli. Það er mín skoðun á því og það er alls ekki miklu til kostað miðað við þau hunduð milljóna sem fara í byggingu safnaðarheimila í borgum og bæjum.

Prestsekkjan er hreint ekki ekkja eftir síðasta prest og heldur ekki eftir þann sem var þar áður. Það eru liðin meira en tuttugu ár síðan þau sátu staðinn og sr. Yngvi Þ. Árnason lauk sinni prestsþjónustu í ársbyrjun 1987. Það sjá það allir að slíkt getur ekki skapað fólki rétt til búsetu eða eignarhalds á jörðum og húsum sem kirkjan er þinglýstur eigandi að.


mbl.is Kirkjan tvísaga um sölu á Prestbakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í skuld og þökk við árið 2007 - bæði kirkjulegar og persónulegar stiklur

Ég er í skuld og þökk fyrir margt sem gerst hefur á þessu ári 2007. Það bar með sér margt nýtt sem ég er þakklátur fyrir bæði í starfi kirkjunnar og í því sem að mér snýr í einkalífinu. 

Þátttaka mín í starfi og stjórn Þjóðkirkjunnar varð meiri en ég hafði látið mér til hugar koma fyrir nokkrum misserum. Þetta var fyrsta heila árið mitt í Kirkjuráði og var þar engin lognmolla. Miklar breytingar urðu með lögfestingu samningsins um prestsetrin. Með því var skilið á milli jarðeigna ríkis og kirkju, en þetta hefur verið einn flóknasti þátturinn í sambandi ríkis og kirkju. Einnig var skilið á milli skipunarvaldsins og því komið í hendur Biskupi Íslands, bæði hvað varðar presta og sóknarpresta. Þetta var líka stór þáttur í sambandi ríkis og kirkju sem ekki var auðvelt að leysa.

Eignaumsýsla kirkjunnar hefur verið í mótun allt árið og það tókst að koma skipan á þau mál sem ég tel að geti verið til sóma. Það er ekki lítill pakki að taka við um 80 prestsetrum og þar að auki um tíu aflögðum prestsetrum og prestsetrusjörðum. Kaupin á Kapellu ljóssins á Keflavíkurflugvelli eru líka mjög stórt eignamál að ekki sé minnst á áformin um viðbyggingu sýningaskála, ráðstefnuhúss og bókasafns í Skálholti. Þar hillir undir mikla starfsemi, bæði í Keflavík með stofnun Rannsóknarstofnunar í trúarbragðafræðum og í Skálholti með ráðstefnu- og menntaaðstöðu og móttöku ferðamanna í anda menningarsögu staðarins. Það er líka víða uppbygging í starfi sóknarnefndanna, presta og leikmanna um allt land. Það eru forréttindi að taka ákvarðanir sem styðja þá uppbyggingu alla og það mikla kirkjustarf.

Þjóðmálaráð var stofnað á Kirkjuþingi og bind ég miklar vonir við að það geti skapað málefnalegri og dýpri umfjöllun um álitamál líðandi stundar af hálfu kirkjunnar en verið hefur. Vona ég að kirkjan muni með þessu láta meira til sín taka í siðferðilegum álitaefnum og þjóðmálum.

Fyrirferðamikil umræða um málefni samkynhneigðra komst á nýtt stig hvað kirkjuna varðar. Staða Þjóðkirkjunnar í þeirri umræðu hefur verið mér mikið umhugsunarefni og skýrir á vissan hátt stöðu Þjóðkirkjunnar hjá þjóðinni. Stefnum við vonandi æ meir í átt til einingar í afstöðu þjóðarinnar en verið hefur en það er undir Alþingi komið að finna því máli góðan farveg á næstu árum.

Sjónarmið kirkjunnar varð á vissan hátt undir í lagasetningum um stofnfrumurannsóknir og ekki sér fyrir enda á umræðunni um kirkju og skóla og frumvarpið að nýju grunnskólalögunum. Það verður líklega fyrirferðamikið mál á nýju ári. Þetta tengist líka þeirri þróun sem verður að eiga sér stað í upplýsingaþjónustu kirkjunnar og kynningarstarfi. Við verðum að sýna meira frumkvæði í þeim efnum, en vera ekki bara til svara þegar aðrir hefja máls á einhverju. Ný nefnd um fjölmiðlastefnu hefur mikið verk að vinna.

Á árinu tók ég sæti í stjórn Skálholtsstaðar. Það er mjög þakkarvert að fá að tengjast þeim fornfræga stað svo afgerandi böndum. Fyrir á ég sterk tengsl við Hóla í Hjaltadal og mun búa að því lengi að eiga slíkar kirkjusögulegar og persónulegar rætur í kirkjunni.

Ég tók að mér formennsku í einni nefnd um kærleiksþjónustu og sérþjónstu. Í henni er góður andi frá upphafi og ekki fjarri lagi að hún hefur verið kölluð "kærleiksbirnirnir" frá fyrsta fundi.

Heima í prestakallinu hefur kirkjustarfið vaxið og er það ekki síst að þakka góðu fólki Landakirkju og frábærlega virkum söfnuði. Það hefur verið gefandi fyrir mig að vera þátttakandi í svo mörgum, stórum og smáum, stundum í lífi fólks bæði í gleði og sorg. Það er mitt helsta embætti sem prestur. Teymisvinna hefur aukist og samstarf við stofnanir í Vestmannaeyjum. Ég geri samt ráð fyrir að það eigi enn eftir að aukast. Hver veit nema Heilbrigðisstofnun, Félags- og fjölskylduþjónustan og Landakirkja, auk annarra, eigi eftir að stofna til djáknaþjónustu á öldrunarsviði. Kirkjusókn hefur verið meiri á þessu ári en tvö árin á undan og fermingarbörnin eru áhugasöm og iðin. Safnaðarstarfið hefur dafnað og kórarnir þrír eru nokkuð öflugir.

Ég geri mér vonir um að tyrkjaránsminningin eigi eftir að komast á nýtt stig í Eyjum. Á þessu ári dróst ég inn í starfsemi "Félags um tyrkjaránssetur" með dagskrá til minningar um brottnám Eyjamannanna 243 fyrir 380 árum. Í samstarfi við góða menn fékkst styrkur til að kanna viðskiptahugmyndina um "1627 sögusetur" í Vestmannaeyjum. Vonandi verður eitthvað úr því hér heima í Eyjum með góðri samstöðu.

Einhvern veginn tókst mér að skila af mér forsetaembættinu í Kiwanisklúbbnum Helgafelli í haust. Það var eftirminnilegt því á stjórnarskiptunum á árshátíðinni í október fögnuðum við 40 ára afmæli klúbbsins með veglegri dagskrá. Þetta er stærsti klúbbur Evrópu með 80 félögum. Líknarstarfið hefur verið mikið í gegnum tíðina og tókum við ákvörðun um úthlutun til verkefna sem nema fjórum milljónum króna, en allt er það í og með í þágu barna og æskulýðs í samfélaginu.

Svo eru það einkamálin. Fjölskyldan hefur fest hér rækilega rætur í Eyjum á níu árum og erum við ánægð með okkar hlutskipti. Ferðir mínar á fundi hafa aukist til muna en flugið hefur líka batnað og bætir úr skák hvað varðar fjarveru mína. Stóru drengirnir eru á fullri ferð í Framhaldsskólanum. Bjarni er að ljúka stúdentsprófi í vor með mjög góðum árangri. Sigurður er á öðru ári og stundar fótboltann af kappi. Báðir komnir með bílpróf. Ólöf starfar á fullu sem verkfræðingur í Hönnun og kom mér á óvart með því að ég yrði afi með vorinu. Kristín lauk prófi í ferðamálafræði við HÍ og var auk þess virk sem formaður nemendafélagsins. Hún er nú komin til Lundar í Svíþjóð og ætlar að læra meira. Yngstur er Björn sem reynist líka fær í flestan sjó eins og hin börnin mín öll. Guðrún unir sér vel í vinnunni þótt oft sé mikið að gera í leikskólamálum Eyjamanna. Hún vinnur líka að nokkrum krefjandi verkefnum á sviði uppeldismála og er að bæta við sig menntun.

Ferðalög voru nokkuð mikil á fjölskyldunni. Við skruppum til London í mars. Við fórum í Kiwanisferð til Póllands í vor, sem reyndist mjög lærdómsrík í alveg nýju landi.  Svo var það ákveðinn reynsla að fara í skemmtisiglingu á Karabíska hafið í haust og koma til landa Suður og Mið Ameríku. Góð rúsína í þeim pylsuenda var kvöldverður og endurfundir með vinum mínum og prestunum við Tampa General Hospital í Tampa á Flórída. Snilld að labba út á akur með sr. Wayne og hirða nokkrar appelsínur af trjánum til að búa til morgunverðardjúsinn og fara svo á rúntinn í hús og hlöður heimamanna, "The Barn" og fleiri góða staði.

Um leið og ég þakka fyrir þetta allt vona ég að Guð hafi líka verið góður við þig. Gleðilegt ár með þökk fyrir árið 2007!


Margir minnast sr. Péturs

Það ber vott um virðingu og stöðu sr. Péturs Þórarinssonar í Laufási hversu margir komu að fylgdinni á Akureyri og að Laufási. Ég votta Ingu og ástvinum öllum dýpstu samúð við fráfall hins mæta þingeyska kennimanns. Blessuð sé minning hans. Hér eftir göngum við fram í bljúgri bæn og þökk til þín, kæri vinur og bróðir.


Fyrsta blógið er ávarp

Sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu. Göngum því fram í ljósi Guðs og þjónum honum með gleði!


« Fyrri síða

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband