Prédikað í loðnubresti á konudegi

Hér er prédikað í Landakirkju út frá guðspjalli Lúkasar, 11. kafla, vers 14-28 sunnudaginn 24. febrúar 2008. Guðsríkið er komið og það er ríki sem er ekki sjálfu sér sundurþykkt. Því er allt hið góða í þessum heimi gert í krafti hins góða Guðs en ekki með ódýrum meðulum. Guð hefur örugglega ráð handa okkur og þess vegna er gott að vona á hann. 

Konudagurinn 

Við erum að nálgast miðja föstu á leið okkar upp til páskahátíðarinnar og fögnum í dag upphafi Góu-mánaðar með konudegi. Konur, til hamingju með þann dag, sem ætla má að karlarnir noti til að sýna ykkur hina mestu ástúð og virðingu. Það verður seint oflofað af okkar hálfu hversu mikils virði þið erum fyrir okkur, að ekki sé minnst á alla þá fegurð sem þið aukið við lífið í þessum heimi. Þau tímaskil, sem mörkuð eru í gömlum mánaðarheitum segja okkur að við höfum komist af með Þorra og Þorraþræl og alla þá mörgu daga sem fólk hefur borið kvíðboga fyrir um aldir vegna harðinda og sveltis, meðan því var til að dreifa.

Loðnan og takmarkanir á aflaheimildum

             Það er ekki þannig tíðarfar í hagsældinni á okkar dögum en slæmt er það samt að heyra enn af takmörkuðum heimildum til veiða í sjónum hér í kring. Í fyrra varð ljóst að mikill samdráttur varð að eiga sér stað í aflaheimildum í þorski og nú þegar síga fer á kvótaárið förum við að finna æ meira fyrir skorti á heimildum til fiskveiða og þó aðallega í þorski. Nú berast enn alvarlegar fréttir af loðnunni og erfitt verður hér í okkar byggð ef ekki finnst meira af þeirri Guðs gjöf sem uppsjávarfiskarnir eru og loðnuveiðar fá ekki að fara aftur af gang. Til þess þarf þó tilefni og ekki er hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að veiðina þarf til að hægt sé að veiða. Það er þar sem Drottinn gefur og Drottinn tekur og undir það erum við öll seld á allan hátt í lífinu. Er það svo önnur umræða, sem ekki þarf endilega að taka hér, heldur á vettvangi stjórnmálanna, hvernig hyggilegast sé að meta stofnstærðir og út frá því afmarka veiðiheimildir. Treystum við á algjöra ábyrgð þeirra sem með málaflokkinn fara því ef það er ekki, er líka friðurinn úti, sem ríkja þarf meðal þeirra sem nýta og njóta.

Trúartraust húsfreyjunnar

Það gerðist eitt sinn á höfuðbóli norður í landi að húsfreyjan, sem var gjafmild og bóngóð sveitungum sínum, hafði gefið frá sér allt viðbitið á miðjum vetri, en þennan vetur var einmitt hart í ári og margir liðu skort. Hún gaf allt og þar var enginn kvóti. Ráð konunnar virtist ekki vera sérlega skarplegt og þegar þetta komst upp voru ekki allir ánægðir með þessa tegund af ráðdeildarsemi. En konan bjó yfir sterkri trú og svaraði sallaróleg á þann hátt að Guð myndi örugglega finna eitthvað annað að gefa þeim í staðinn. Það var sú viska kvennanna sem reisir húsið, eins og segir í Orðskviðum Salómons, sú viska kvennanna sem byggist á æðruleysi og trú. Er skemmst frá því að segja að nokkru síðar er leið nær jafndægrum á vori rak fjölda hvala upp á sanda nærri höfuðbólinu og mettaði það allar nærliggjandi sveitir og bjargaði örugglega mannslífum fram á sumar.

Sterki maðurinn og Guðs alvæpni

Við erum minnt á það með líkingunni í svari Jesú, samkvæmt guðspjalli dagsins, að sterki maðurinn, alvopnaði, er fær um að verja hús sitt og er þá allt í friði sem hann á, en ráðist annar honum sterkari á hann og sigrar hann, tekur sá alvæpni hans og skiptir herfanginu. Og nærri má geta að ekki er lengur friður í því húsi. Hér svarar hann ásökunum og vangaveltum um það hver það er sem ver húsið og með hvaða valdi og krafti hann getur rekið út illa anda og varið hús þeirra sem á hann treysta. Og við svörum þessu með því að syngja baráttusálma kristinna manna eins og í fermingarsálminum góða:

Guðs alvæpni taktu og trúfastur ver. / Þá viðnám þú veitir, / er vopnum þeim beitir, / og sigrinum heitir / hinn sigrandi þér.

Gef oss í dag vort daglegt brauð

     Hér er enginn efi að þá er sigurinn vís ef við erum heil í baráttunni með Kristi og veitum það viðnám sem er fólgið í Orði hans og fagnaðarerindinu öllu um Drottinn. Það hefur verið einhvern veginn þannig sem hún hefur hugsað, húsfreyjan, sem átti eitt sinn viðbit en alltaf sterka trú. Það varð til þess að hún óttaðist ekki ógnir aldarinnar og lét völd myrkranna enn síður ná tökum á sér. En þetta kallast einmitt að eiga trú og æðrast eigi. Það er út frá þessum vangaveltum í trúarlegri prédikun út frá guðspjallstexta og vitnisburði fólks á fyrri tíð, sem við getum með öruggri vissu sagt nú á okkar tíð – og einmitt á tímum sem þessum þegar örvæntingin gæti verið við hornið – að ef Drottinn sendir ekki von bráðar væna loðnutorfu sem þéttir sig hér uppi á grunninu, þá muni hann örugglega finna eitthvað annað handa okkur í staðinn. Og þá skulum við vera handfljót að hugsa og safna því saman í hús með Guði sem hann er að senda okkur til að veiða. Við þurfum að vera vakandi og trúföst og örugg í því sem okkur ber að gera en taka því með æðruleysi sem að höndum ber, jafnvel þótt það falli ekki alveg að væntingum okkar. Við þurfum að vera sterk til að verja húsið og alvæpnið er Orð Guðs og skjöldur okkar er bænin og fegurð þessarar baráttu er sannarlega sú lofgjörð, sem okkur er þrátt fyrir allt unnt að bera fram með guðsþjónustu okkar á helgum dögum og signdum dögum líka, svo notað sé gamalt orðalag yfir virka daga. Við lofum hann signt og heilagt, virka daga og helga, upphátt og í hljóði, og lýsum þannig trú okkar, bæði í orði og í verki, en þó fyrst og síðast þannig að það sjáist í lífi okkar að við erum bænarfull og lofgjörðarfull í garð þess Guðs sem gefur okkur lífið og allan ljóma þess. Og við förum með þann hluta bænarinnar sem Jesús kenndi okkur svo vel að hver einasta kynslóð hefur lært hana síðan og fáum alveg sérstaka merkingu í þennan hluta núna út frá því sem ég hef þegar rætt, er við segjum: "Gef oss í dag vort daglegt brauð." Höfum það í huga á eftir er við förum saman með Faðir vorið.

Saga af síðu hári og heitri ósk

Við fáum ekki alltaf nákvæmlega það sem við viljum eða biðjum um og það er þess vegna sem Drottinn sagði að við ættum að láta þessa bæn duga. Láta Guði almáttugum eftir að finna eitthvað til að gefa okkur í staðinn fyrir það sem við – í okkar takmarkaða ímyndunarafli – eigum ef til vill erfitt með að biðja um. Það er ekki annað hægt að skoða eina hliðina á því hvers við biðjum og hvað það er sem okkur langar hvað mest í út frá aðstæðum okkar og þörf sem jafnvel virðist vera aðkallandi á þeirri stundu sem hún er okkur efst í huga. Það gerðist á prestsetri einu, en þó ekki á Hólagötunni, að sonur prestsins, sem þá hafði nýlega fengið bílpróf upp á vasann, spurði pabba sinn, prestinn, hvort hann gæti ekki fengið bílinn hans að láni. Hann þurfti nauðsynlega að komast leiðar sinnar. Pabbinn var spar á fína bílinn en settist þó niður með drengnum til að ræða málin. "Við skulum hafa það þannig," sagði prestur, "að ef þér tekst að fá hærri einkunnir í skólanum, lætur klippa þetta síða hár og tekur til við að lesa í Biblíunni einu sinni á dag, þá skal ég íhuga málið."

     Drengurinn hafði mikinn áhuga á að fá að aka um á fína bíl föður síns, svo hann lagði sig allan fram í skólanum og gluggaði í Biblíuna á hverjum degi. Færði hann þetta mál að nýju í tal að nokkrum tíma liðnum og pabbinn sá að allt var á réttri leið. En drengurinn hafði ekki látið klippa hárið, heldur mætti þeirri kröfu með því að vitna í Biblíuna. Sagði hann að Samson sterki hefði verið sterkur meðan hárið hans var sítt og Móse hefði haft mikið hár og sítt og sjálfur Frelsarinn hafi einnig verið með sítt hár og ekki minnst einu orði á hárklippingu í öllum guðspjöllunum. "Já, rétt er það," sagði faðirinn, "þeir voru allir með sítt hár og margir fleiri, en fyrst þú hefur lesið þetta í Ritningunni, þá hefurðu líka tekið eftir því, sonur sæll, að allir þessir menn komust allra sinna ferða gangandi."

   Þannig vissi faðirinn betur og líklega hefur það verið drengnum til blessunar að fá að hreyfa sig meira og ganga meðan hann var enn ungur. Vafalaust hefur hann ekki verið alveg ánægður með bænheyrsluna, en ef að líkum lætur hefur hann lagt sig enn meira fram og heitið því að stefna á að eignast sinn eigin bíl með iðjusemi og eigin dugnaði en treysta ekki á aðra. Þetta hefur flýtt fyrir því að hann stæði á eigin fótum.

Við treystum Drottni 

Við treystum áfram á Drottinn og leggjum okkur fram í þeim dugnaði sem hann hefur gefið hverjum og einum. En við störfum hér fyrst og síðast undir vernd hans og hlífiskildi sem hann heldur yfir byggðalaginu hér í Vestmannaeyjum. Gleymum því aldrei að það er Guð sem skapaði þennan heim okkar og það er hann sem gefur og veitir og blessar þúsundfallt á við það sem við höfum nokkru sinni hugarflug til að biðja um. Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband