Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
26.10.2007 | 14:33
Endalausar tengingar
Sjáið bara: Þarna er nafnið hans langafa míns, Ágústs Jósefssonar, prentara og heilbrigðisfulltrúa Reykjavíkur. Langafi minn sat þennan fyrsta borgarráðsfund 6. ágúst 1932 og ég er að lesa þessa frétt 26. október 2007 úti í Vestmannaeyjum 75 árum og 5000 fundum síðar! Ég er að vísu ekki í Borgarráði en ef seta í Kirkjuráði telst vera tenging má draga það fram líka.
En annars: Til hamingju með 5000. fundinn í borgarráði. Í Borgarráði hafa menn komið mörgu góðu til leiðar og gera vonandi lengi enn. Til hamingju Reykjavík.
Sr. Kristján Björnsson
![]() |
Óvæntar tengingar komu í ljós á hátíðarfundi borgarráðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2007 | 08:26
Blessunaróskir, sr. Anna Sigríður
Hjartanlega til hamingju með nýju prestsstöðuna sr. Anna Sigríður! Það er afar gott að sjá veg þinn sem mestan innan kirkjunnar, kæra systir. Það er ég viss um að staða dómkirkju og dómkirkjupresta á eftir að aukast við þessa skipun og bæn mín er sú að þetta nýja prestsembætti lyfti þér enn meir á vettvangi þjónustunnar. Guð veri með þér í því.
Þinn kollegi í Vestmannaeyjum,
Kristján
![]() |
Valnefnd valdi Önnu Sigríði Pálsdóttur í starf Dómkirkjuprests |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.7.2007 | 17:35
Til hamingju með það Steingrímur og Stöð 2
Þetta leggst vel í mig svo ég óska bæði Steingrími Ólafssyni og Stöð 2 til hamingju með aukna ábyrgð á herðar hinum mæta fréttamanni. Ég vil líka sjá hann á skjánum enda traustvekjandi andlit fréttastofunnar að hinum ólöstuðum.
![]() |
Steingrímur Ólafsson nýr fréttastjóri Stöðvar 2 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.7.2007 | 09:56
Skipun í embætti, ekki ráðning
Þótt það virðist smásmuguleg athugasemd er þó mikill munur á því að vera skipaður í embætti eða ráðinn í starf eins og hér er ranglega farið með í fréttinni. Það rétta er að prestar og sóknarprestar eru skipaðir í embætti til þjónustu við söfnuðina. Fram til 1. desember á þessu ári skipar kirkjumálaráðherra sóknarpresta en biskup presta. Eftir þann tíma skipar biskup Íslands bæði sóknarpresta og presta og er það yfirleitt til fimm ára í senn. Ef um styttri tíma er að ræða eru prestar oftast settir í embætti. Þessi breyting er til marks um aukið sjálfstæði Þjóðkirkjunnar í innri málum, en það er þó önnur og meiri umræða.
Í þessum málum snýst þetta um hvort embættið skuli auglýst fyrir lok fimm ára skipunartíma eða hvort presturinn verði skipaður til næstu fimm ára án auglýsingar. Áður en þessi regla kom til voru prestar oftast skipaðir ótímabundið en það var í daglegu tali kallað æviráðning. Til samanburðar má geta þess að í starfsmannalögum ríkisstarfsmanna er að finna hliðstæð ákvæði um að embættismanni skuli tilkynnt hálfu ári áður en skipunartíminn rennur út hvort embættið verði auglýst. Annars getur hann vænst þess að vera skipaður aftur til næstu fimm ára.
Svo má líka geta þess að sóknarnefndir ráða ekki presta né gera við þá ráðningarsamninga heldur gegnir hann embættinu upp á ábyrgð þess sem skipar hann og samkvæmt vígsluheiti sínu. Prestur verður því hvorki ráðinn né rekinn. Sóknarbörnin hafa hins vegar mjög mikið um það að segja hver verður fyrir valinu þegar biskup Íslands auglýsir embætti. Eftir 1. desember verður ákvörðun valnefndar í prestakalli enn áhrifameiri þar sem gert verður ráð fyrir því að biskup Íslands skipi einfaldlega þann sem hlýtur þar bindandi val annað hvort í valnefnd eða í almennri kosningu. Ábyrgð sóknarinnar er þannig mikil og frumkvæði sóknarbarnanna mikið. Á kirkjulegu máli er því óhætt að segja að forysta sóknanna í viðkomandi prestakalli kalli til sín prestinn, velji hann og njóti síðan þjónustu hans. Það er auk þess mjög lútherskt, kirkjulega lýðræðislegt og heilbrigt.
Hér er ég ekki að fjalla neitt um málefni sr. Carlosar Ara Ferrer enda fréttin ekki beint um það. Mér þykir leitt að missa hann úr þjónustu í Hafnarfirði og Vogum og úr prófastsdæminu okkar með þessum málalokum. Vonandi kemur hann þó fljótt aftur til prestsþjónustu í kirkjunni. Ég bið svo sr. Báru Friðriksdóttur blessunar í þessu nýja embætti og fagna endurkomu hennar í prófastsdæmið. Megi söfnuðurinn vaxa og dafna og styrkja sinn nýja sóknarprest til lifandi þjónustu.
![]() |
Lagt verður til að reglum um ráðningu presta verði breytt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2007 | 16:41
Frá ráni, dauða og þrælasölu til sáttargjörðar og frelsis
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.7.2007 | 10:00
Misnotkun trúarbragða að bera þau fyrir sig í stríði
Mikið vildi ég óska þess að við gætum notað 380 ára minningu um "tyrkjaránið" í Vestmannaeyjum til að lagfæra hugtakanotkun okkar. Við ættum að nota þetta tilefni til að leita fyrirgefningar og sáttargjörðar með okkur sjálfum.
Það er alveg ótrúlegt hvað trúarbrögð og þjóðerni hafa verið misnotuð í þá átt að kljúfa niður og stía í sundur og til að skera úr um hollustu við baráttu stjórnmálahópa. Það eru til ótal dæmi um þessa misnotkun. Sem betur fer eru þó til enn fleiri dæmi um það hvernig fólki af ólíku þjóðerni og ólíkri trú hefur tekist að lifa saman í friði - einmitt með því að virða það hvernig náunginn hugsar og hvaða gildi eru æðst í hans lífi. Og þar er trú hans og siður ofarlega á blaði. Ég skil ekki hvernig hægt er að komast hjá því að mæta honum sem trúuðum einstaklingi, ef ég þykist ætla á annað borð að átta mig á honum eða setja mig í hans spor.
Í stað þess að tala um tyrkjaránið ættum við að tala um strandhögg sjóræningjanna eða mannránin í Vestmannaeyjum 1627. Sérstaklega í ljósi þess að við vitum það vel að mannránin höfðu eiginlega ekkert með Tyrki að gera.
Og við ættum skilyrðislaust að hætta að tala um Barbaríið. Bar bar er einfaldlega úr grísku og síðan notað af Rómverjum og ótal þjóðum síðan. Bar bar þýðir bla bla. Það eru þeir sem babla eitthvert óskiljanlegt mál. Yfirfærð þýðing á barbari er þá sá sem talar skrítið mál sem við eigum erfitt með að skilja af því að það er svo ólíkt ríkjandi tungumáli. Barbari er hugtak sem felur í sér aðskilnað. Við og hinir.
4.7.2007 | 17:43
Hvalurinn blífur en eyjaskeggjarnir herða ólina!
Fyrst hrefnan er svona tækifærissinnuð hlýtur hún að éta af þeim tegundum sem mest er af. Ergo: það er allt fullt af stórum botnfiski í sjónum eins og sjómenn í Eyjum hafa verið að segja. Til umhugsunar fyrir Hafró.
Ekki held ég að núverandi hvalveiðiheimildir hafi teljandi áhrif á stofnstærðina á þorski enda þyrftum við þá að veiða eins mikið af hvali árlega og gert var fyrir nokkrum áratugum. Samt er ég sannfærður um að það gæti stuðlað að meira jafnvægi tegundanna í sjónum í kringum Ísland ef leyfðar yrðu meiri veiðar á algengustu hvalategundum, þ.e. þeim tegundum sem vel þola nokkra veiði. Það er engin villimennska að nýta skynsamlega þær Guðs góðu gjafir sem í hafinu finnast.
![]() |
Segja hrefnurnar fullar af þorski og ýsu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2007 | 15:39
Hjónavígslur og goslokahátíð framundan
Það eru engar afbókanir í hjónavígslurnar í Eyjum 07.07.07. Þetta Eyjafólk er svo ákveðið. Samt væri enn hægt að bæta við einni eða tveimur. Enginn hefur enn pantað besta tímann kl. 7.07, en eins víst að flestar vígslurnar hefjist ekki fyrr en sjö mínútur yfir heila tímann ef ég þekki þetta rétt af reynslunni. Á æfingunum og í viðtölunum er ekki annað að sjá og heyra en væntanleg brúðhjón séu ákveðin í því að verða alveg í sjöunda himni þennan dag. Brúðkaupsveislu-söngvararnir eru meira að segja spenntir upp fyrir haus.
Svo er líka goslokahátíð um helgina í Eyjum. Ég vona að sem flestir klári sig ekki alveg í brúðkaupsveislum fram á nótt en hafi kraftinn í sér að koma í heilsubótargöngu á sunnudagsmorgninum. Göngumessa hefst í Landakirkju kl. 11 árdegis, hún heldur áfram við krossinn við gíg Eldfells og lýkur í Stafkirkjunni með bæn og blessun. Þar á kirkjulóðinni við Skansinn ætlar sóknarnefnd Ofanleitissóknar að bjóða kirkju-göngu-fólkinu upp á súpu og brauð. Ég held að það sé ekki til neitt heilsusamlegra en Guðs orð í útivist, gönguferð og súpa - að ekki sé minnst á frábært samfélag Eyjamanna.
Vonandi koma sem flestir í göngumessuna að þakka Guði fyrir vernd og blessun í jarðeldunum fyrir 34 árum. Svo er messan líka samkirkjuleg (óháð kirkjudeildum) með þátttöku Hvítasunnukirkjunnar og fólks úr ýmsum öðrum kirkjudeildum.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2007 | 14:21
Ófræging hvers á hverjum?
![]() |
Breskir múslimar fordæma riddaratignveitingu Salman Rushdie |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.6.2007 | 14:09
Margt að gerast í Póllandi
Var í tvær vikur á ferð um Pólland í ferð Kiwanismanna á Evrópuþingi í Sopot/Gdansk. Það er ótrúlega merkilegt að ferðast þar um í fallegu landi, landi sem stóð undir mínum björtustu væntingum. Glæsibragur á því sem glæsilegt á að vera; sögulega menningarlegt þar sem merkisviðburðir sögunnar hafa gerst; ævintýralegt þar sem ferðamenn eru boðnir velkomnir.
Mæli með ferðalögum um Pólland til að vinna upp nýja ímynd þessa söguríka lands í hjarta Evrópu í hugum okkar Íslendinga. Gildi Póllands í sögu Evrópu og í kirkjusögunni er líka miðlægt og merkilegt var að heyra ávarp Lech Walesa við setningu Evrópuþingsins. Ég held að við ættum að hætta að þykjast vera eitthvað gagnvart Pólverjum hér heima. Og eftir Auswitch-Birkenau ættum við líka að hætta algörlega að lyfta undir þjóðarrembing og þjóðernishyggju sem stöðugt hefur verið að skjóta upp kollinum í Evrópu allt frá seinustu áratugum 19. aldar - síðast á Alþingi Íslendinga í vetur sem leið.
Það er margt að gerast í Póllandi og margt um að vera fyrir ferðalanginn, en ég mæli sérstaklega með gömlu miðborginni í Kraká, ferð í saltnámur Kraká og dvöl í Tatrafjallabænum Zakophane - að ekki sé talað um gönguferðir um sjálf Tatrafjöllin og við vötnin blá. Og ekki sleppa góðri kirkjuferð.
Bloggvinir
-
ragnargeir
-
baldurkr
-
orri
-
baenamaer
-
peyji
-
kristleifur
-
vonin
-
kjartanvido
-
jonvalurjensson
-
kitta
-
daystar
-
theld
-
alit
-
zeriaph
-
sigthora
-
arnisvanur
-
kex
-
eyjapeyji
-
lundi
-
bajo
-
gauisidda
-
gudni-is
-
enoch
-
icejedi
-
nkosi
-
gattin
-
einarhardarson
-
fhg
-
gebbo
-
helgigunnars
-
kht
-
credo
-
krist
-
kristinm
-
trumal
-
solvi70
-
vefritid
-
vilhjalmurarnason
-
tbs
-
thorhallurheimisson
Tenglar
Mínir tenglar
- Heimasíða Landakirkju í Vestmannaeyjum
- Sjúkrahúsið mitt í Tampa á Flórida Hér lærði ég klíníska sálgæslu 2003 - 2004 og lærði margt. Bráðamóttakan er mjög flott og allt annað í TGH enda hátæknispítali í fremstu röð.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 39908
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar