Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Hugsað um Ramses - ríkisborgararéttur barnsins?

Mikið hefur verið rætt um Paul Ramses og fjölskyldu hans, Rosmary og barnið þeirra. Varla er til sá flötur sem ekki hefur verið varpað upp í málinu. Meira að segja efasemdir um að hann geti ekki verið í þeirri hættu heima í Kenýja sem hann hefur talað um sjálfur. Það er hins vegar ekki það sem mér er efst í huga eftir alla þessa miklu umfjöllun.

Barnið þeirra Rosmary er miðpunktur hugleiðinga minna að þessu sinni. Væri ekki til mikilla bóta fyrir réttlæti okkar að það barn sem fætt er hér á Íslandi hljóti undantekningarlaust ríkisborgararétt í landinu? Það er regla sem gildir í Bandaríkjunum og sjálfsagt víðar um lönd, ef að er gáð. Hver ætli geti verið meiri Íslendingur en sá sem er fæddur hér á landi? Er hann ekki innfæddur?

Þar fyrir utan eigum við að gæta réttlætis gagnvart útlendingum í landinu. Við höfum sjálf verið útlendingar í eiginlegri og óeiginlegri merkingu þess orðs. Þetta er fullyrðing sem studd er fyrirmælum Guðs í Biblíunni og við lesum þessi fyrirmæli í ljósi þess að við erum börn Guðs í þessum parti sköpunarverksins, sem hann hefur falið okkur til að gæta.


Rannsóknarréttur 24 Stunda

Í sólinni í Eyjum fékk ég undarlega dimmt símtal frá blaðakonu 24 Stunda sem krafði mig svara á kaldhæðnislegan hátt varðandi staðfesta samvist. Hún vildi fá já eða nei við því hverju ég svaraði pari sem kæmi að biðja mig um að staðfesta samvist í dag.

Ekki fékk ég mikla möguleika á að kanna hvers konar skoðanakönnun þetta var, en fljótlega heyrði ég að hér var ekki fagmennska í gangi. Hún vildi ekkert viðtal heldur já eða nei og það yrði birtur nafnalisti allra presta Þjóðkirkjunnar. Birtur yrði listi eftir svörum þessara presta. Ekkert hvort allir forstöðumenn trúfélaga yrðu spurðir. Sennilega bara Þjóðkirkjuprestarnir svo fríkirkjupresturinn í Reykjavík geti sagt eitthvað lúalegt um móðurkirkju sína Þjóðkirkjuna í glansandi viðtali.

Svarið við trukkalegri spurningu rétttar-blaðamannsins gat ekki verið efnislegt. Til að þurfa ekki að neita að svara - og gjalda þannig líku líkt - sagði ég sem rétt er að ég hafi ekki þurft að taka þessa ákvörðun ennþá. Ég eigi því einfaldlega eftir að ákveða það. "Þú ert þá óákveðinn," sagði hún. Þar sem ég fékk ekki að vita hvaða flokkar væru aðrir í boði en "já", "nei" eða "óákveðinn", sagði ég henni að hafa þetta eins og hún vildi. Eitt er víst að hún vildi ekkert viðtal.

Eftir þessa snöggsoðnu yfirheyrslu fékk ég það sterklega á tilfinninguna að búið væri að endurvekja rannsóknarréttinn og aðferðir miðaldamanna núna í blaðamennsku okkar tíma. Sviðsetning rannsóknarréttarins í auglýsingum Jóns Gnarr var þá ekki bara brandari. Fyrirbærið er orðið að praktical brandara í vinnubrögðum og hugsanagangi þessara blaðamanna og fréttastjóra.

Hvað sem líður þessum vinnubrögðum þeirra á 24 Stundum óska ég samkynhneigðum af heilum hug til hamingju með þau skil að geta leitað til fleirri vígslumanna en áður. Það hlýtur að vera léttir fyrir þau pör sem vilja leita til presta eða annarra trúarleiðtoga. Bið ég alla sem um það fjalla að gæta að málefnalegri umfjöllun. Eitt af því er athugun á greinagerð með þessum nýju lögum, þar sem skilyrt er að skoðanafrelsi þeirra sem eru vígslumenn að hjúskaparlögum og hafa nú þessa heimild, samkvæmt lögum um staðfesta samvist, verði virt. Það er mikilvæg forsenda fyrir þeirri sátt sem náðist t.d. innan Þjóðkirkjunnar um að mæla með þessari réttarbót í lögum um staðfesta samvist.


Kirkjan er hrein og bein í þessari sölu

Kirkjuþing 2007 samþykkti að selja íbúðarhúsnæðið til Prestsbakkasóknar og því kom ekki nein önnur sala til greina. Heimild Kirkjuráðs var bundin við þann vilja Kirkjuþings, sem var skýr. Það á sínar skýringar hvað það hefur tekið langan tíma að ganga endanlega frá sölunni, en það þarf einfaldlega að fá sinn tíma svo öllu réttlæti sé fullnægt, afmörkun lóða húsa, kirkju og garðs o.s.frv.

Það er ekkert nema eðlilegt að Prestsbakkasókn fái aðstöðu í íbúðarhúsinu, sem er aflagt prestsetur. Húsið stendur mjög nálægt kirkjunni og kirkjugarðinum og því er þetta góður kostur sem þjónustuhús og safnaðarheimili. Þar getur söfnuðurinn hist í kirkjukaffi, kórinn haft aðstöðu og annað safnaðarstarf getur farið þar fram líka, s.s. barna og æskulýðstarf og fræðsla. Þá koma þarna snyrtingar og þjónusturými fyrir kirkjugarðinn og prestur og djákni gætu haft þar viðtalsherbergi eða aðstöðu fyrir og eftir helgihald eins og í mörgum öðrum sóknum. Það þykir sjálfsagt í dag.

Í mínum huga er frábært að sjá þetta gerast og sjálfsagt að koma þessari aðstöðu upp vegna grunnþjónustu kirkjunnar á staðnum - þótt söfnuðurinn sé fámennur. Þótt ekki sé margt fólk í sókninni á það líka rétt á grunnþjónustu kirkjunnar og sómasamlegri aðstöðu til safnaðarstarfs, ekki síður en fólk í þéttbýli. Það er mín skoðun á því og það er alls ekki miklu til kostað miðað við þau hunduð milljóna sem fara í byggingu safnaðarheimila í borgum og bæjum.

Prestsekkjan er hreint ekki ekkja eftir síðasta prest og heldur ekki eftir þann sem var þar áður. Það eru liðin meira en tuttugu ár síðan þau sátu staðinn og sr. Yngvi Þ. Árnason lauk sinni prestsþjónustu í ársbyrjun 1987. Það sjá það allir að slíkt getur ekki skapað fólki rétt til búsetu eða eignarhalds á jörðum og húsum sem kirkjan er þinglýstur eigandi að.


mbl.is Kirkjan tvísaga um sölu á Prestbakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Messufall í Landakirkju

Ótrúlegt en satt. Vegna fannfergis og skafhríðar þarf ég í fyrsta sinn að fella niður messu í þann tæpa áratug sem ég hef verið hér sóknarprestur. Bið alla Eyjamenn að vera ekki að brjótast til kirkju í dag því barnaguðsþjónustan kl. 11 og guðsþjónustan kl. 14 falla báðar niður.

Blessunaróskir, Kristján Björnsson 


mbl.is Vont veður í Vestmannaeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölgun í Þjóðkirkjunni miðað við raunverulega skráningu

Þjóðskrá er alltaf söm við sig. Hún birtir aðeins flutning fólks á milli trúfélaga eftir sérstökum tilkynningum fólks en leggur ekki fram upplýsingar um stöðuskráningu fólks eftir trúfélögum. Þetta er mjög villandi og kemur alltaf illa út fyrir lang stærsta trúfélagið, þ.e. Þjóðkirkjuna okkar gömlu og góðu, sem er bæði breið og djúp og ríkur þáttur í lífi þjóðarinnar. 

Ég bið fólk að athuga nokkrar staðreyndir. Þjóðkirkjan er lang stærsta trúfélagið í landinu. Auðvitað er sárt að sjá á bak þeim öllum sem skrá sig úr kirkjunni (og þar þekki ég m.a. eina góða vinkonu). En 1500 manns umfram þá sem skráðu sig sérstaklega inn er afar lítið hlutfall þegnanna í Þjóðkirkjunni. Það þýddi afhroð í Ásatrúarfélaginu og jafnvel líka hjá Kaþólskum. Það er vissulega til umhugsunar.. 

Þetta er að mestu fólgið í eðli Þjóðkirkjunnar sem er ólík öllum öðrum trúfélögum í landinu. Flestir þegnar landsins fæðast inn í Þjóðkirkjuna og svo kemur að því í lífi hvers manns að hann tekur persónulega afstöðu á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. Það getur leitt til þess að hann finni sig í öðru trúfélagi eða utan trúfélaga. Þessa skoðun vil ég virða vel þótt mér þyki auðvitað vænna um þá sem eru staðfastir í þeim ásetningi sínum að teljast til Þjóðkirkjunnar og viðhalda um leið mikilvægum þætti í landslagi trúar og menningar í þessu landi.

Hér vantar alveg stöðuskráningu sem segir til um raunverulega þróun í fjölda, fjölgun eða fækkun. Mörg undanfarin ár hefur verið fjölgun í Þjóðkirkjunni miðað við stöðuskráningu. Miðað við slíkar upplýsingar mælast allir nýir þegnar Þjóðkirkjunnar sem nýir meðlimir en ekki aðeins þeir sem skrá sig beinlínis í Þjóðkirkjuna. Takið eftir því að í þessum tölum mælist ekki nema brot af nýjum meðlimum. Hér mælast ekki nýir einstaklingar þótt þeir séu skírðir inn í söfnuðinn, en þetta er auðvitað mesti fjöldi nýrra einstaklinga í nokkru einu trúfélagi á Íslandi.

En - Guði sé lof fyrir alla sem fylgja Jesú Kristi, í hvaða kirkjudeild sem er! Komi þau öll fagnandi til kirkjunnar hans!


Jarðarför loðnuveiðanna ekki gerð frá Landakirkju

Stór orð féllu á fundi hagsmunaaðila, skipsstjóra og sjávarútvegsráðherra í Vestmannaeyjum í gær. Einari K. Guðfinnsyni, ráðherra var þar líkt við prestinn sem jarðar loðnuveiðar. Af öllu má þó ljóst vera að slík útför verður ekki gerð frá Landakirkju í Eyjum. Og ég efast um að "Sr. Einar Kristinn" eða aðstoðarprestarnir hans á Fiskistofu fái nokkra kirkju til slíkra athafna.

Í Landakirkju er hins vegar talað berum orðum um ástandið út frá því að hinn trúaði maður á von sína alla í Kristi. Á það skal bent að ef Drottinn hefur ekki átt þess kost að svara ákalli okkar um góða loðnuvertíð að þessu sinni, sendir hann okkur örugglega eitthvað annað í staðinn. Við erum heldur ekki búin að gleyma öllum góðum loðnuvertíðum sem við höfum þegið úr hendi hans til þessa.

Þess skal getið að öllum prestum, æðstuprestum og spámönnum í sjávarútvegi og öllu venjulegu fólki líka er boðið að sækja messu næsta sunnudag þar sem aðeins verða sungnir uppörvandi sálmar í bland við hæfilegt spjall um siðferði í sjávarútvegi. Kaffisopi verður eftir messu í Safnaðarheimilinu og næði til að ræða málin.


Prédikað í loðnubresti á konudegi

Hér er prédikað í Landakirkju út frá guðspjalli Lúkasar, 11. kafla, vers 14-28 sunnudaginn 24. febrúar 2008. Guðsríkið er komið og það er ríki sem er ekki sjálfu sér sundurþykkt. Því er allt hið góða í þessum heimi gert í krafti hins góða Guðs en ekki með ódýrum meðulum. Guð hefur örugglega ráð handa okkur og þess vegna er gott að vona á hann. 

Konudagurinn 

Við erum að nálgast miðja föstu á leið okkar upp til páskahátíðarinnar og fögnum í dag upphafi Góu-mánaðar með konudegi. Konur, til hamingju með þann dag, sem ætla má að karlarnir noti til að sýna ykkur hina mestu ástúð og virðingu. Það verður seint oflofað af okkar hálfu hversu mikils virði þið erum fyrir okkur, að ekki sé minnst á alla þá fegurð sem þið aukið við lífið í þessum heimi. Þau tímaskil, sem mörkuð eru í gömlum mánaðarheitum segja okkur að við höfum komist af með Þorra og Þorraþræl og alla þá mörgu daga sem fólk hefur borið kvíðboga fyrir um aldir vegna harðinda og sveltis, meðan því var til að dreifa.

Loðnan og takmarkanir á aflaheimildum

             Það er ekki þannig tíðarfar í hagsældinni á okkar dögum en slæmt er það samt að heyra enn af takmörkuðum heimildum til veiða í sjónum hér í kring. Í fyrra varð ljóst að mikill samdráttur varð að eiga sér stað í aflaheimildum í þorski og nú þegar síga fer á kvótaárið förum við að finna æ meira fyrir skorti á heimildum til fiskveiða og þó aðallega í þorski. Nú berast enn alvarlegar fréttir af loðnunni og erfitt verður hér í okkar byggð ef ekki finnst meira af þeirri Guðs gjöf sem uppsjávarfiskarnir eru og loðnuveiðar fá ekki að fara aftur af gang. Til þess þarf þó tilefni og ekki er hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að veiðina þarf til að hægt sé að veiða. Það er þar sem Drottinn gefur og Drottinn tekur og undir það erum við öll seld á allan hátt í lífinu. Er það svo önnur umræða, sem ekki þarf endilega að taka hér, heldur á vettvangi stjórnmálanna, hvernig hyggilegast sé að meta stofnstærðir og út frá því afmarka veiðiheimildir. Treystum við á algjöra ábyrgð þeirra sem með málaflokkinn fara því ef það er ekki, er líka friðurinn úti, sem ríkja þarf meðal þeirra sem nýta og njóta.

Trúartraust húsfreyjunnar

Það gerðist eitt sinn á höfuðbóli norður í landi að húsfreyjan, sem var gjafmild og bóngóð sveitungum sínum, hafði gefið frá sér allt viðbitið á miðjum vetri, en þennan vetur var einmitt hart í ári og margir liðu skort. Hún gaf allt og þar var enginn kvóti. Ráð konunnar virtist ekki vera sérlega skarplegt og þegar þetta komst upp voru ekki allir ánægðir með þessa tegund af ráðdeildarsemi. En konan bjó yfir sterkri trú og svaraði sallaróleg á þann hátt að Guð myndi örugglega finna eitthvað annað að gefa þeim í staðinn. Það var sú viska kvennanna sem reisir húsið, eins og segir í Orðskviðum Salómons, sú viska kvennanna sem byggist á æðruleysi og trú. Er skemmst frá því að segja að nokkru síðar er leið nær jafndægrum á vori rak fjölda hvala upp á sanda nærri höfuðbólinu og mettaði það allar nærliggjandi sveitir og bjargaði örugglega mannslífum fram á sumar.

Sterki maðurinn og Guðs alvæpni

Við erum minnt á það með líkingunni í svari Jesú, samkvæmt guðspjalli dagsins, að sterki maðurinn, alvopnaði, er fær um að verja hús sitt og er þá allt í friði sem hann á, en ráðist annar honum sterkari á hann og sigrar hann, tekur sá alvæpni hans og skiptir herfanginu. Og nærri má geta að ekki er lengur friður í því húsi. Hér svarar hann ásökunum og vangaveltum um það hver það er sem ver húsið og með hvaða valdi og krafti hann getur rekið út illa anda og varið hús þeirra sem á hann treysta. Og við svörum þessu með því að syngja baráttusálma kristinna manna eins og í fermingarsálminum góða:

Guðs alvæpni taktu og trúfastur ver. / Þá viðnám þú veitir, / er vopnum þeim beitir, / og sigrinum heitir / hinn sigrandi þér.

Gef oss í dag vort daglegt brauð

     Hér er enginn efi að þá er sigurinn vís ef við erum heil í baráttunni með Kristi og veitum það viðnám sem er fólgið í Orði hans og fagnaðarerindinu öllu um Drottinn. Það hefur verið einhvern veginn þannig sem hún hefur hugsað, húsfreyjan, sem átti eitt sinn viðbit en alltaf sterka trú. Það varð til þess að hún óttaðist ekki ógnir aldarinnar og lét völd myrkranna enn síður ná tökum á sér. En þetta kallast einmitt að eiga trú og æðrast eigi. Það er út frá þessum vangaveltum í trúarlegri prédikun út frá guðspjallstexta og vitnisburði fólks á fyrri tíð, sem við getum með öruggri vissu sagt nú á okkar tíð – og einmitt á tímum sem þessum þegar örvæntingin gæti verið við hornið – að ef Drottinn sendir ekki von bráðar væna loðnutorfu sem þéttir sig hér uppi á grunninu, þá muni hann örugglega finna eitthvað annað handa okkur í staðinn. Og þá skulum við vera handfljót að hugsa og safna því saman í hús með Guði sem hann er að senda okkur til að veiða. Við þurfum að vera vakandi og trúföst og örugg í því sem okkur ber að gera en taka því með æðruleysi sem að höndum ber, jafnvel þótt það falli ekki alveg að væntingum okkar. Við þurfum að vera sterk til að verja húsið og alvæpnið er Orð Guðs og skjöldur okkar er bænin og fegurð þessarar baráttu er sannarlega sú lofgjörð, sem okkur er þrátt fyrir allt unnt að bera fram með guðsþjónustu okkar á helgum dögum og signdum dögum líka, svo notað sé gamalt orðalag yfir virka daga. Við lofum hann signt og heilagt, virka daga og helga, upphátt og í hljóði, og lýsum þannig trú okkar, bæði í orði og í verki, en þó fyrst og síðast þannig að það sjáist í lífi okkar að við erum bænarfull og lofgjörðarfull í garð þess Guðs sem gefur okkur lífið og allan ljóma þess. Og við förum með þann hluta bænarinnar sem Jesús kenndi okkur svo vel að hver einasta kynslóð hefur lært hana síðan og fáum alveg sérstaka merkingu í þennan hluta núna út frá því sem ég hef þegar rætt, er við segjum: "Gef oss í dag vort daglegt brauð." Höfum það í huga á eftir er við förum saman með Faðir vorið.

Saga af síðu hári og heitri ósk

Við fáum ekki alltaf nákvæmlega það sem við viljum eða biðjum um og það er þess vegna sem Drottinn sagði að við ættum að láta þessa bæn duga. Láta Guði almáttugum eftir að finna eitthvað til að gefa okkur í staðinn fyrir það sem við – í okkar takmarkaða ímyndunarafli – eigum ef til vill erfitt með að biðja um. Það er ekki annað hægt að skoða eina hliðina á því hvers við biðjum og hvað það er sem okkur langar hvað mest í út frá aðstæðum okkar og þörf sem jafnvel virðist vera aðkallandi á þeirri stundu sem hún er okkur efst í huga. Það gerðist á prestsetri einu, en þó ekki á Hólagötunni, að sonur prestsins, sem þá hafði nýlega fengið bílpróf upp á vasann, spurði pabba sinn, prestinn, hvort hann gæti ekki fengið bílinn hans að láni. Hann þurfti nauðsynlega að komast leiðar sinnar. Pabbinn var spar á fína bílinn en settist þó niður með drengnum til að ræða málin. "Við skulum hafa það þannig," sagði prestur, "að ef þér tekst að fá hærri einkunnir í skólanum, lætur klippa þetta síða hár og tekur til við að lesa í Biblíunni einu sinni á dag, þá skal ég íhuga málið."

     Drengurinn hafði mikinn áhuga á að fá að aka um á fína bíl föður síns, svo hann lagði sig allan fram í skólanum og gluggaði í Biblíuna á hverjum degi. Færði hann þetta mál að nýju í tal að nokkrum tíma liðnum og pabbinn sá að allt var á réttri leið. En drengurinn hafði ekki látið klippa hárið, heldur mætti þeirri kröfu með því að vitna í Biblíuna. Sagði hann að Samson sterki hefði verið sterkur meðan hárið hans var sítt og Móse hefði haft mikið hár og sítt og sjálfur Frelsarinn hafi einnig verið með sítt hár og ekki minnst einu orði á hárklippingu í öllum guðspjöllunum. "Já, rétt er það," sagði faðirinn, "þeir voru allir með sítt hár og margir fleiri, en fyrst þú hefur lesið þetta í Ritningunni, þá hefurðu líka tekið eftir því, sonur sæll, að allir þessir menn komust allra sinna ferða gangandi."

   Þannig vissi faðirinn betur og líklega hefur það verið drengnum til blessunar að fá að hreyfa sig meira og ganga meðan hann var enn ungur. Vafalaust hefur hann ekki verið alveg ánægður með bænheyrsluna, en ef að líkum lætur hefur hann lagt sig enn meira fram og heitið því að stefna á að eignast sinn eigin bíl með iðjusemi og eigin dugnaði en treysta ekki á aðra. Þetta hefur flýtt fyrir því að hann stæði á eigin fótum.

Við treystum Drottni 

Við treystum áfram á Drottinn og leggjum okkur fram í þeim dugnaði sem hann hefur gefið hverjum og einum. En við störfum hér fyrst og síðast undir vernd hans og hlífiskildi sem hann heldur yfir byggðalaginu hér í Vestmannaeyjum. Gleymum því aldrei að það er Guð sem skapaði þennan heim okkar og það er hann sem gefur og veitir og blessar þúsundfallt á við það sem við höfum nokkru sinni hugarflug til að biðja um. Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 


Í skuld og þökk við árið 2007 - bæði kirkjulegar og persónulegar stiklur

Ég er í skuld og þökk fyrir margt sem gerst hefur á þessu ári 2007. Það bar með sér margt nýtt sem ég er þakklátur fyrir bæði í starfi kirkjunnar og í því sem að mér snýr í einkalífinu. 

Þátttaka mín í starfi og stjórn Þjóðkirkjunnar varð meiri en ég hafði látið mér til hugar koma fyrir nokkrum misserum. Þetta var fyrsta heila árið mitt í Kirkjuráði og var þar engin lognmolla. Miklar breytingar urðu með lögfestingu samningsins um prestsetrin. Með því var skilið á milli jarðeigna ríkis og kirkju, en þetta hefur verið einn flóknasti þátturinn í sambandi ríkis og kirkju. Einnig var skilið á milli skipunarvaldsins og því komið í hendur Biskupi Íslands, bæði hvað varðar presta og sóknarpresta. Þetta var líka stór þáttur í sambandi ríkis og kirkju sem ekki var auðvelt að leysa.

Eignaumsýsla kirkjunnar hefur verið í mótun allt árið og það tókst að koma skipan á þau mál sem ég tel að geti verið til sóma. Það er ekki lítill pakki að taka við um 80 prestsetrum og þar að auki um tíu aflögðum prestsetrum og prestsetrusjörðum. Kaupin á Kapellu ljóssins á Keflavíkurflugvelli eru líka mjög stórt eignamál að ekki sé minnst á áformin um viðbyggingu sýningaskála, ráðstefnuhúss og bókasafns í Skálholti. Þar hillir undir mikla starfsemi, bæði í Keflavík með stofnun Rannsóknarstofnunar í trúarbragðafræðum og í Skálholti með ráðstefnu- og menntaaðstöðu og móttöku ferðamanna í anda menningarsögu staðarins. Það er líka víða uppbygging í starfi sóknarnefndanna, presta og leikmanna um allt land. Það eru forréttindi að taka ákvarðanir sem styðja þá uppbyggingu alla og það mikla kirkjustarf.

Þjóðmálaráð var stofnað á Kirkjuþingi og bind ég miklar vonir við að það geti skapað málefnalegri og dýpri umfjöllun um álitamál líðandi stundar af hálfu kirkjunnar en verið hefur. Vona ég að kirkjan muni með þessu láta meira til sín taka í siðferðilegum álitaefnum og þjóðmálum.

Fyrirferðamikil umræða um málefni samkynhneigðra komst á nýtt stig hvað kirkjuna varðar. Staða Þjóðkirkjunnar í þeirri umræðu hefur verið mér mikið umhugsunarefni og skýrir á vissan hátt stöðu Þjóðkirkjunnar hjá þjóðinni. Stefnum við vonandi æ meir í átt til einingar í afstöðu þjóðarinnar en verið hefur en það er undir Alþingi komið að finna því máli góðan farveg á næstu árum.

Sjónarmið kirkjunnar varð á vissan hátt undir í lagasetningum um stofnfrumurannsóknir og ekki sér fyrir enda á umræðunni um kirkju og skóla og frumvarpið að nýju grunnskólalögunum. Það verður líklega fyrirferðamikið mál á nýju ári. Þetta tengist líka þeirri þróun sem verður að eiga sér stað í upplýsingaþjónustu kirkjunnar og kynningarstarfi. Við verðum að sýna meira frumkvæði í þeim efnum, en vera ekki bara til svara þegar aðrir hefja máls á einhverju. Ný nefnd um fjölmiðlastefnu hefur mikið verk að vinna.

Á árinu tók ég sæti í stjórn Skálholtsstaðar. Það er mjög þakkarvert að fá að tengjast þeim fornfræga stað svo afgerandi böndum. Fyrir á ég sterk tengsl við Hóla í Hjaltadal og mun búa að því lengi að eiga slíkar kirkjusögulegar og persónulegar rætur í kirkjunni.

Ég tók að mér formennsku í einni nefnd um kærleiksþjónustu og sérþjónstu. Í henni er góður andi frá upphafi og ekki fjarri lagi að hún hefur verið kölluð "kærleiksbirnirnir" frá fyrsta fundi.

Heima í prestakallinu hefur kirkjustarfið vaxið og er það ekki síst að þakka góðu fólki Landakirkju og frábærlega virkum söfnuði. Það hefur verið gefandi fyrir mig að vera þátttakandi í svo mörgum, stórum og smáum, stundum í lífi fólks bæði í gleði og sorg. Það er mitt helsta embætti sem prestur. Teymisvinna hefur aukist og samstarf við stofnanir í Vestmannaeyjum. Ég geri samt ráð fyrir að það eigi enn eftir að aukast. Hver veit nema Heilbrigðisstofnun, Félags- og fjölskylduþjónustan og Landakirkja, auk annarra, eigi eftir að stofna til djáknaþjónustu á öldrunarsviði. Kirkjusókn hefur verið meiri á þessu ári en tvö árin á undan og fermingarbörnin eru áhugasöm og iðin. Safnaðarstarfið hefur dafnað og kórarnir þrír eru nokkuð öflugir.

Ég geri mér vonir um að tyrkjaránsminningin eigi eftir að komast á nýtt stig í Eyjum. Á þessu ári dróst ég inn í starfsemi "Félags um tyrkjaránssetur" með dagskrá til minningar um brottnám Eyjamannanna 243 fyrir 380 árum. Í samstarfi við góða menn fékkst styrkur til að kanna viðskiptahugmyndina um "1627 sögusetur" í Vestmannaeyjum. Vonandi verður eitthvað úr því hér heima í Eyjum með góðri samstöðu.

Einhvern veginn tókst mér að skila af mér forsetaembættinu í Kiwanisklúbbnum Helgafelli í haust. Það var eftirminnilegt því á stjórnarskiptunum á árshátíðinni í október fögnuðum við 40 ára afmæli klúbbsins með veglegri dagskrá. Þetta er stærsti klúbbur Evrópu með 80 félögum. Líknarstarfið hefur verið mikið í gegnum tíðina og tókum við ákvörðun um úthlutun til verkefna sem nema fjórum milljónum króna, en allt er það í og með í þágu barna og æskulýðs í samfélaginu.

Svo eru það einkamálin. Fjölskyldan hefur fest hér rækilega rætur í Eyjum á níu árum og erum við ánægð með okkar hlutskipti. Ferðir mínar á fundi hafa aukist til muna en flugið hefur líka batnað og bætir úr skák hvað varðar fjarveru mína. Stóru drengirnir eru á fullri ferð í Framhaldsskólanum. Bjarni er að ljúka stúdentsprófi í vor með mjög góðum árangri. Sigurður er á öðru ári og stundar fótboltann af kappi. Báðir komnir með bílpróf. Ólöf starfar á fullu sem verkfræðingur í Hönnun og kom mér á óvart með því að ég yrði afi með vorinu. Kristín lauk prófi í ferðamálafræði við HÍ og var auk þess virk sem formaður nemendafélagsins. Hún er nú komin til Lundar í Svíþjóð og ætlar að læra meira. Yngstur er Björn sem reynist líka fær í flestan sjó eins og hin börnin mín öll. Guðrún unir sér vel í vinnunni þótt oft sé mikið að gera í leikskólamálum Eyjamanna. Hún vinnur líka að nokkrum krefjandi verkefnum á sviði uppeldismála og er að bæta við sig menntun.

Ferðalög voru nokkuð mikil á fjölskyldunni. Við skruppum til London í mars. Við fórum í Kiwanisferð til Póllands í vor, sem reyndist mjög lærdómsrík í alveg nýju landi.  Svo var það ákveðinn reynsla að fara í skemmtisiglingu á Karabíska hafið í haust og koma til landa Suður og Mið Ameríku. Góð rúsína í þeim pylsuenda var kvöldverður og endurfundir með vinum mínum og prestunum við Tampa General Hospital í Tampa á Flórída. Snilld að labba út á akur með sr. Wayne og hirða nokkrar appelsínur af trjánum til að búa til morgunverðardjúsinn og fara svo á rúntinn í hús og hlöður heimamanna, "The Barn" og fleiri góða staði.

Um leið og ég þakka fyrir þetta allt vona ég að Guð hafi líka verið góður við þig. Gleðilegt ár með þökk fyrir árið 2007!


Gleðilega hátíð Jesú Krists á jólum

Logndrífa er ekki algeng í Vestmannaeyjum en þegar slíkt hendir, líkt og fyrr í desember, verð ég að setjast niður og yrkja. Það er einnig mjög langt síðan ég hef ort nokkurn skapaðan hlut af viti. Og því ekki að leyfa þeim sem lesa að njóta.

Í logndrífu aðventu 2007

Leiðarstjarnan lýsir hátt
lyftir stuttum degi.
Mjallar drífan mjúkt og smátt
málar hús og vegi. 

Leiði þig Guðs ljúfa stef,
lýsi friðarstjarna.
Breiði dýrð hans bænar vef
bólin yfir barna. 

Leiðarsteinninn vísar veg
visku spádóm birtir.
Ferð þótt verði tæp og treg
í trú og von ei syrtir. 

Leiðsögn Drottins líki mér
leið hans feta viljum.
Áfram kærleik eflum hér
allt til þess við skiljum. 

Lýsi Orð Guðs ljóst um jól
liti þjóð og siðinn.
Maríu son þér skapi skjól
og skenki jólafriðinn.

Með þeim orðum fylgir sú bæn að Guð gefi þér gleðileg jól og frið á hátíð Frelsarans.


Útilokað að forsetavaldið fari úr landi - handhafarnir ættu að vera á föstum launum miðað við skyldurnar

Það eru nokkur atriði sem hafa alls ekki komið fram um forsetavaldið og ég skil ekki hvernig alþingismenn geta talað - og það stjórnarþingmenn - að ekki sé talað um fjölmiðla sem eru að velta þessu upp.

Það er í eðli forsetaembættisins að það getur ekki farið úr landi. Forseti á ferðalagi í útlöndum gæti hugsanlega farið með forsetavaldið inni í sendiráðum Íslands þar sem það er næstum því íslenskt lögsagnarumdæmi.

Forsetavaldið þarf því að vera eftir í höndum manna sem eru á landinu. Ef fella á niður handhafa þess sem verið hafa forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti hæstaréttar, æðstu menn hins þrískipta valds í landinu, verðum við að stofna embætti varaforseta Íslands sem sæti heima með forsetavaldið þegar forsetinn færi af landinu eða legðist í veikindi eða félli frá.

Það sem ég ekki skil í þessu dæmi öllu er aukagreiðslan til handhafa forsetavaldsins. Hún kemur ekki heim og saman við skilning minn á launagreiðslum þeirra sem heyra undir kjaradóm. Ef það er inní embættisskyldum forsætisráðherra, forseta Alþingis og forseta hæstaréttar að gegna þessum störfum ex officio, vegna stöðu sinnar, ætti kjaradómur eða kjararáð að úrskurða þeim þau laun í samræmi við embættisskyldurnar þeirra. Þeir ættu ekki að fá neinar sérgreiðslur fyrir þessi störf heldur vera á jöfnum launum í samræmi við allar skyldur þeirra.


mbl.is Forseti gegni embættinu þótt hann sé í útlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband