Hugleiðing um kirkjusókn í Landakirkju

Einhverra hluta vegna fór ég að velta fyrir mér kirkjusókninni. Ef til vill af því að nú er frekar rólegt yfir að líta mest allan sumarleyfistímann. Síðsta sunnudag var kirkjusókn meiri en ég átti von á þar sem auglýsingar fórust alveg fyrir af tæknilegum ástæðum og miður ágúst er algengasti orlofstíminn í Eyjum. En hér er tölfræðin í Landakirkju fyrir 2007:

Miðað við kirkjusókn síðasta árs lætur nærri að hver einasti íbúi Vestmannaeyja hafi mætt oftar en fjórum sinnum til helgihalds í Landakirkju á árinu og fullyrði ég að það sé langt yfir landsmeðaltali! Ef aðeins eru taldar almennar guðsþjónustur á sunnudögum og öðrum helgidögum sótti hver íbúi kirkjuna oftar en einu sinni. Það er líka nokkuð gott. Svo mætti hvert sóknarbarn oftar en einu sinni í barnaguðsþjónustu eða kaffihúsamessu á árinu. Hver íbúi mætti líka oftar en tvisvar til jarðarfara, skírna, hjónavígslu eða í aðrar helgistundir safnaðarins.

Nánar tiltekið er þessi útreikningur þannig að íbúarnir voru 4040 hinn 1. desember 2007 en þar af voru 3675 skráðir í Þjóðkirkjunni. Hlutfallið er um 91% sem er hærra en hlutfall Þjóðkirkjunnar á Íslandi.

Heildarfjöldi þeirra sem sóttu helgihald Landakirkju var 18359 manns. Það er 4,5 föld íbúatala og nærri því fimmföld tala þjóðkirkjufólks.

Alls sóttu 5443 manns almenna guðsþjónustu á sunnudegi og aðra helga daga og hátíðir (1,3 x íbúatala og 1,5 x tala sóknarbarna). Þær voru 58 svo það gefur okkur meðaltalið 94 yfir allt árið. Fæst er jafnan í kirkju á sumrin nema við sérstök tilefni. Fjölmennasta messan var ferming á pálmasunnudag um 335 manns. Aðrar fermingarmessur voru einnig mjög fjölmennar. Einnig voru yfir 200 manns á fjölskylduguðsþjónustu á aðventunni, göngumessunni á goslokahátíð og á aðfangadagskvöld. Þar á eftir má nefna vorhátíð, sjómannadag, jólanótt og hvítasunnu.

Alls sóttu 3963 barnaguðsþjónustu og aðrar safnaðarguðsþjónustur, einsog t.d. kaffihúsamessu. Þær voru samtals 49 svo meðaltalið er 81 yfir árið. Fjölmennast var í barnaguðsþjónustu á æskulýðsdaginn í mars og 21. október um 160 manns í hvort skiptið.

Alls sóttu 8953 aðrar guðsþjónustur, helgistundir, hjónavígslur, skírnir og útfarir í Landakirkju. Helgistundin í Kirkjugarðinum er þó meðtalin hér en þar er talið að um 350 manns hafi safnast saman í bæn og blessun.

Alls voru guðsþjónustur 236 og gengu um 1400 manns til altaris á árinu.

Það skal tekið fram að hér eru ekki taldar með helgistundir á Hraunbúðum og sjúkrahúsinu, né heldur skírnir og helgistundir í heimahúsum eða helgistund í Herjólfsdal á Þjóðhátíð eða yfirleitt á öðrum stöðum utan við guðshúsið sjálft.

Ég á von á hærri tölum fyrir árið 2008 og reikna ég með að þar muni um góða kirkjusókn í maí og frábæra þátttöku í göngumessunni. Það er óskandi að menn sjái ástæðu til að þakka Guði fyrir gott sumar með góðri kirkjugöngu um leið og vetrarstarf safnaðarins fer í gang í september.

Mesta fjölgunin yrði trúlega ef þeir sem mæta einu sinni á ári tækju upp á því að mæta tvisvar á ári, nema ef það gerðist að sá sem mætti ekki í eitt skipti til kirkju sinnar allt síðasta ár myndi mæta einu sinni eða tvisvar á þessu ári. Það hefur reynst mörgum gagnleg hefð að mæta einn eða tvo tiltekna daga ársins og rækja þá sem sína helgu kirkjudaga. Mest fá þeir þó út úr kirkjugöngu sem mæta sem oftast. Og það eru vitaskuld þeir sem teljast oftast sem halda uppi góðri kirkjusókn í Landakirkju. Megi það vera okkur öllum til mikillar uppörvunar og eflingar í þjónustunni við Guð í Eyjum og víðar í hinum kristna heimi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 39673

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband