Þá verður grátur og gnístran tanna - prédikun á líðandi stund

Það er alveg heint með eindæmum hvað guðspjallstextar, sem valdir eru fyrir áratugum og jafnvel öldum, geta verið nálægt því að skírskota til atburða líðandi stundar. Hér á landi virðist allt vera á fljúgandi ferð afturábak í því mikla bakslagi sem kom í fjármálamarkaðinn og þeir sem skulda virðast í vondum málum og yfirleitt allir þeir sem sitja nú við óhagstæðan gengismun. Áhrifamenn róa lífróður fyrir þjóðarbúið og leita bjargráða í lausafjárkreppu og hvað það nú heitir sem einkennir kreppuna að þessu sinni. Verði ráð þeirra öll til góðs. Það er einmitt nú sem við þurfum hér í kirkjunni að biðja Guð að gefa ráðamönnum vit og styrk og styrkja drengskapinn í samfélaginu þannig að bálið í bankaheiminum kveiki ekki í neinu á heimilum landsmanna, en blessuð litla krónan okkar hressist og komist á fætur aftur eftir þetta hitakast og svima. Við þekkjum þetta svo mæta vel hér í plássinu okkar í Vestmannaeyjum að þegar ekki aflast herðir að um stundarsakir. Við höfum þurft að laga lífsstílinn að því hvernig vertíðin hefur verið. Sá hæfileiki til aðlögunar á afkomu okkar á einni vertíð til annarrar er einmitt núna hin besta gáfa sem kemur sér vel að vera gæddur. Vonandi hefur þjóðin ekki gleymt því hvernig hún hefur alltaf lifað af sveiflur í efnahagslífinu með þessari ríku aðlögunarhæfni. Þjóðin hefur verið kná í smæð sinni. Hún þarf núna að rifja það upp hvernig það var að rifa seglin í stormi, draga á rá hin hvítu tröf þegar gefur blíðan byr og grípa svo árarnar ella í ládeyðu eða stafalogni. Um allt lítur þetta að því sama setta marki sem ævinlega: að komast í örugga höfn með mannskap allan og afla. Guð gefi að stýrimennirnir kunni á kompás og kunni enn að reikna út fjögurra strika miðun og allt það sem þarf til að leiðrétta driftina. Það er sannarlega þörf á því núna þegar rekið hefur undan og skyggnið ekki upp á margar mílur. Það er þó aldrei svo með skyggnið, eins og einn góður vinur minn, nýlega látinn sagði, að skyggnið var svo slæmt að hann mældi það bara í lengdinni á kústskaftinu þar sem hann sópaði vongóður stéttina sína í norðanhríð.            Hér gildir líka að tala ekki niður lífsafkomuna, en það virðist sem við því hafi legið á köflum í umræðunni um gjaldmiðilinn okkar. Í heimsstyrjöldinni síðari sögðu Bretar: "loose lips sink ships" eða í lauslegri þýðingu: "óvarleg orð sökkva skipum." Sannarlega hafa orð áhrif. Þeir sem tala þurfa því að gæta þess að orð og stíll hafa á Íslandi ætíð verið beittasta vopn sem brugðið hefur verið á loft í sögu þessarar herlausu þjóðar.En það þarf ekki að seilast um hurð til lokunnar, (eða eins og unga fólkið myndi orða það í dag: Það eru nú engin geimvísindi) að Orð Guðs er öflugt og lifandi, lífgefandi og viðeigandi, en hittir í mark einmitt á okkar dögum líkt. Þannig hefur það verið alla tíð frá því að Guð tók að tala fyrir munn spámannanna og æ síðan guðspjallamennirnir tóku að greina frá orðum Jesú Krists og gjörðum hér á jörðu. En hér kastar alveg kólfunum (eða eins og unga fólkið myndi segja: Þetta hringir nú einhverjum bjöllum) að lesa frá altarinu guðspjall sem er hreinræktað guðspjall um hinn efsta dag og dóm Guðs yfir skeytingarlausri kynslóð sem ekki sinnir kalli Drottins. Í dag er okkur ætlað, samkvæmt textaröð kirkjunnar að lesa dómsdagsboðskap. Og við verðum líklega að segja eins og einn góður Ólafur Ragnar á Dagvaktinni: "Já, Sæll!"             Það verður grátur og gnístran tanna, segir konungurinn í þessari dæmisögu, sem er konungur einn er gerði brúðkaup sonar síns. Hér er um margt líkt með kónginum og um himnaríki, að hingað sendi Guð, faðir, son sinn til að leiða þá þjóð er hann hafði löngu fyrr útvalið, en fæstir af þeirri þjóð vildu við hann kannast, sem elskað hafði þau frá fyrstu bernsku og uppruna þessarar tilteknu þjóðar. Oft er komu Krists líkt við komu brúðgumans og oftar en ekki er brúðurinn Jerúsalem, helgistaður hans sjálfs. Í þeim líkingum er borgin helga helgur staður þeirra væntinga að senn komi Messías að frelsa þessa þjóð og leiða hana til hásætis og þið þekkið þessar líkingar frá hirðlífinu í hinum gömlu konungsríkjum, annað hvort af mannkynssögunni eða þá úr ævintýrum. Og boðsgestirnir eru margir og allir eiga að koma skartklæddir og í sínu fínasta pússi. Það er líkingin um að við eigum ekki að hundsa boðið til brúðkaups heldur leggja okkur fram og sýna okkar fínustu hlið, heil og óskipt í athygli og lotningu fyrir hinu heilaga. Það er í því ljósi eðlilegt að konungurinn lætur þá dæma sig sjálfa sem þóttust ætla að koma en komu svo ekki, en kasta út nokkrum sem voru mættir á staðinn en ekki nema með hálfum huga, ekki í sínu fínasta pússi, með hliðsjón af þessu merka tilefni á ævi brúðar og brúðguma. Merking þessarar líkingar er margslungin og nægir hér að nefna það augljósa. Meðal þeirra sem Drottinn vildi fyrst af öllu höfða til, þeirra sem hann hafði alið önn fyrir lengir og unni það mikið að hann vildi hafa í salnum á þessari hátíðarstundu reyndust fæstir þeirra verðugir. Og meðal þeirra sem hann síðar opnaði veislusalinn fyrir leyndust þeir sem voru óhæfir. Í fyrra tilfellinu voru margir sljógir gagnvart boði Drottins en í því seinna lentu nokkrir í úrkastinu. Er það ekki satt að Jesús átti það til að setjast til borðs með syndugum og samneyta þeim og varði hann ekki þá sem voru á götu úti og höfðu jafnvel ekki þótt boðlegir inn í hallir æðstuprestanna og jafnvel ekki í musteri Guðs, föður, á háaklettinum í Jerúsalem? Hann sagði einmitt við það tilefni að hann væri ekki kominn til að lækna heilbrigða heldur hina sjúku. Þess vegna veigraði hann sér ekki við að eiga orðastað við bersynduga og útskúfaða og hina sjúku og þá sem voru af annarri trú og þjóðflokki. Hann braut þau viðmið upp og snart hina ósnertanlegu. Það gerði hann vissulega. Og þess vegna sjáum við að elska hans og manngæska er langt fyrir ofan okkar viðmiðunarmörk hvað varðar skilgreiningu á náungakærleika. Það er einmitt þess vegna sem við skulum ekki láta það hvarfla að okkur að hann yfirgefi okkur þegar á reynir og jafnvel þótt við höfum klúðrað einhverju og jafnvel þótt við höldum að við höfum fyrirgert allri von um fyrirgefningu. Hann vill taka frá okkur eftirsjá og ásökun og harma. Ef það hendir núna í þessari þrúgandi þjóðmálaumræðu eða persónulega, er alveg ljóst, af boðskap Jesú Krists að dæma, að hann býður þér til brúðkaups og veislu og mikilla hátíðarhalda í þeim fögnuði sem einkennir komu guðsríkisins.Margt er í nútíðinni sem minnir á þetta en það er þó einnig ljóst af guðspjallstexta þessa Drottins dags 5. október anno Domini 2008 að enn er úrslitastundin eftir. Enn á eftir að koma í ljós hvað gerist í brúðkaupsveislunni þegar sólin rennur hinn efsta dag og játning brúðar og brúðguma fer að snúast um algjöran samruna á hjartalagi og vilja og huga og mætti. Þá varar þessi boðskapur við því að geti orðið grátur og gnístran tanna. Verður það sjálfsagt  aðallega vegna ranghugmynda mannsins eða vegna þess að maðurinn hefur sett traust sitt á allt annað en Guð og fyrirheit hans, sem fela þó m.a. í sér vonina um eilíft líf. Þegar sá dagur rennur mun allt vera á hendi Guðs á endanum. Það er því óhætt að leggja allt í hendur honum nú þegar, líkt og áður og eins og það verður um alla framtíð. Og þið munið eftir prédikaranum sem flutti þessa líka þrumandi ræðu um gnístran tanna, en þó tókst konu einni aldinni að kalla framí utan úr kirkjunni: "Hvað með hina tannlausu?" Honum varð ekki orðvant, enda andans maður og mikill trúmaður, en hrópaði djúpri röddu á móti: "Verið ekki áhyggjufull! Tönnum verður útbýtt!"Þegar öllu fleygir svo hratt fram og allt er á þjótanda streymi er mikilvægt að menn setji traust sitt á Drottinn alsherjar. Hver annar ætti að hafa ráð á öllu? Hver annar veitir líkn með hverri þraut? Hver annar er hinn sami í dag og í gær og um aldir? Það er aðeins einn Drottinn og við biðjum þess að menn snúi sér til hans, ekki bara af því að illa árar allt í einu í þessu litla ríki vellystinganna, heldur vegna þess að við eigum alla daga að setja traust okkar á hann. Líka þegar hann styrkti bein okkar á góðum dögum. Líka þegar hann reisti okkur upp fallin. Líka núna þegar þörf er á því að rétta af misvísun áttavitans í efnahagslegu tilliti. Fyrr en varir munum við aftur lifa í landinu sem flýtur í mjólk og hunangi. Fyrr en síðar ættum við því að beina sjónum okkar í þá átt sem hjálpin er vís, en það er ekki í hverfulli hyllingu þessa jarðneska lífs. Þau gæði, hversu mikið sem skartið er, verða ekki tekin með yfir til hins eilífa. Þessi þjóð þarf heldur betur að taka sig saman í andlitinu og fara að endurmeta það á hvað hún setur traust sitt í raun og veru. Hinir raunverulegu fjársjóðir í mannlegu lífi eru þeir sem sprottnir eru af kærleika og ást, því það var í ást sem brúðkaupið átti að hefjast. Það var í ást brúðgumans á brúði sinni, ást Guðs á manninum, að upphaflega var boðið til brúðkaups. Það byggðist því allt á þessum kærleika, sem er takmarkalaus ást og takmarkalaus fyrirgefning og þolinmæði og umburðarlyndi. Umfram allt er þessi kærleikur þó hin takmarkalausa trú á hið góða sem ætti að endurspeglast í öllu okkar fasi í manngæsku og náungakærleika. Það sjáist einmitt núna þegar tímarnir virðast harðir og menn eru hættir að reyna að vera töff. Nú er ekki tími stórra orða eða tími fyrir þrætulistina. Það gengur ekki að við tölum niður og sökkvum sjálfri þjóðarskútunni með óvarlegum orðum og það dugar ekki að vera ekki viðbúin. Nú gildir að vera viðbúin boði Guðs er kallar okkur af ást til samfundar við sig að fagna sigri lífsins yfir dauða. Forsómum ekki öryggi það sem við eigum í Guði og lífgefandi orði hans.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband