Rannsóknarréttur 24 Stunda

Í sólinni í Eyjum fékk ég undarlega dimmt símtal frá blaðakonu 24 Stunda sem krafði mig svara á kaldhæðnislegan hátt varðandi staðfesta samvist. Hún vildi fá já eða nei við því hverju ég svaraði pari sem kæmi að biðja mig um að staðfesta samvist í dag.

Ekki fékk ég mikla möguleika á að kanna hvers konar skoðanakönnun þetta var, en fljótlega heyrði ég að hér var ekki fagmennska í gangi. Hún vildi ekkert viðtal heldur já eða nei og það yrði birtur nafnalisti allra presta Þjóðkirkjunnar. Birtur yrði listi eftir svörum þessara presta. Ekkert hvort allir forstöðumenn trúfélaga yrðu spurðir. Sennilega bara Þjóðkirkjuprestarnir svo fríkirkjupresturinn í Reykjavík geti sagt eitthvað lúalegt um móðurkirkju sína Þjóðkirkjuna í glansandi viðtali.

Svarið við trukkalegri spurningu rétttar-blaðamannsins gat ekki verið efnislegt. Til að þurfa ekki að neita að svara - og gjalda þannig líku líkt - sagði ég sem rétt er að ég hafi ekki þurft að taka þessa ákvörðun ennþá. Ég eigi því einfaldlega eftir að ákveða það. "Þú ert þá óákveðinn," sagði hún. Þar sem ég fékk ekki að vita hvaða flokkar væru aðrir í boði en "já", "nei" eða "óákveðinn", sagði ég henni að hafa þetta eins og hún vildi. Eitt er víst að hún vildi ekkert viðtal.

Eftir þessa snöggsoðnu yfirheyrslu fékk ég það sterklega á tilfinninguna að búið væri að endurvekja rannsóknarréttinn og aðferðir miðaldamanna núna í blaðamennsku okkar tíma. Sviðsetning rannsóknarréttarins í auglýsingum Jóns Gnarr var þá ekki bara brandari. Fyrirbærið er orðið að praktical brandara í vinnubrögðum og hugsanagangi þessara blaðamanna og fréttastjóra.

Hvað sem líður þessum vinnubrögðum þeirra á 24 Stundum óska ég samkynhneigðum af heilum hug til hamingju með þau skil að geta leitað til fleirri vígslumanna en áður. Það hlýtur að vera léttir fyrir þau pör sem vilja leita til presta eða annarra trúarleiðtoga. Bið ég alla sem um það fjalla að gæta að málefnalegri umfjöllun. Eitt af því er athugun á greinagerð með þessum nýju lögum, þar sem skilyrt er að skoðanafrelsi þeirra sem eru vígslumenn að hjúskaparlögum og hafa nú þessa heimild, samkvæmt lögum um staðfesta samvist, verði virt. Það er mikilvæg forsenda fyrir þeirri sátt sem náðist t.d. innan Þjóðkirkjunnar um að mæla með þessari réttarbót í lögum um staðfesta samvist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælir eru þeir sem ofsóttir eru.

Aumingja maðurinn. Það er hroðalegt að heyra hvernig farið er með þig. Mér dettur bara eitt orð í hug: "viðurstyggð".

Loki (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 19:35

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Athyglisverð tíðindi, Kristján. En ég er hræddur um, að þú haldir þér fært að sitja á girðingunni. Mér leizt vel á þetta blogg þitt, þar til ég kom að þeim orðum, að þú óskir samkynhneigðum "af heilum hug til hamingju með þau skil að geta leitað til fleiri vígslumanna en áður." Hvað áttu við með því, ef þú átt EKKI við það, að GOTT sé, að kristnir prestar standi fyrir svona gjörningi?

Þetta minnir mig á krosstrén ...

Og hvers lags "vígslu" áttu við? Og ef það kemur til greina fyrir þig að "blessa" samvist af þessu tagi, þrátt fyrir boð Biblíunnar, hvers blessun heldur þú þá, að það verði? Guðs eða Alþingis? En eiga prestar að útdeila "blessunum" Alþingis? Og hvers lags blessun er það, ef hún stendur gegn vilja Guðs? Gáðu að því, að blessun Guðs yfir hjónabandi karls og konu er ekki orðin tóm, heldur felur í sér fyrirheiti.

Hve marga finnur Meistarinn vakandi og trúa, þegar hann kemur?

Jón Valur Jensson, 2.7.2008 kl. 20:43

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Úff...mig hryllir við því að hugsa út í aðferðir hins alræmda rannsóknarréttar. Svívirðilegt hvernig hann spurði fólk að einföldum spurningum. Enn verstu örlögin biðu þeirra sem gátu ekki gefið einföld svör við þessum einföldu spurningum, þá var það talið vera óákveðið. Vonandi mun heimurinn aldrei aftur upplifa slíkan hrylling!

Hjalti Rúnar Ómarsson, 2.7.2008 kl. 23:16

4 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Það er ekki gott að lenda í því að fá símtöl frá fjölmiðlamönnum/konum sem að eru búin að bíta í sig að fá svör hvað sem tautar og raular. Ég hef í minni vinnu lent í því að þurfa að taka á móti svona símtölum. Þegar ég hef sagt þeim að ég megi ekkert og muni ekkert segja þeim hef ég fengið yfir mig skammir og ákúrur fyrir það hvað ég er óliðlegur.

Aðalsteinn Baldursson, 2.7.2008 kl. 23:52

5 Smámynd: Kristján Björnsson

Takk fyrir gagnleg viðbrögð. Ef til vill má ég aumur segjast. Verst að nú sannast rannsóknarréttar-fyrirbærið í nútímanum. Þarna kallar Loki á bekknum í kviðdómi kúskanna og hæðst að vesalings presti. Rétt er það Jón Valur að svarið okkar á að vera já eða nei. Ætli það sé ekki aðal vandi minn, sem ég lýsti þó ekki, að ég hef um ævina einmitt verið stoltur af því að taka oftast af skarið og þola ekki flokkinn "óákveðinn". Ef til vill var þetta mín vanlíðan að vera tekinn svona. Aðferðin er ömurleg og til skammar fyrir blaðamannastéttina. Í hinum hlakkar þar til þeir verða sjálfir teknir en ég skerpist í því að segja bara já eða nei en annars að svara svona blaðamönnum í sama skætings tóni og þeir hringja inn í mitt líf.

Þótt fuglinn tylli sér stundum á girðinguna, hafði ég ekki hugsað mér annað en kalla þarna yfir þessa ímynduðu girðingu til þeirra sem eru í öðrum högum en ég. Það er bara vegna þess að mér er ekkert mannlegt óviðkomandi. Mér er annt um kjör og tilfinningar annarra þótt ég þekki þær ekki á sjálfum mér.

Það er rétt, Steini, að maður vinnur það ekki fyrir vinskap manns að víkja af þeirri götu sem við erum sjálfir að ganga, vonandi á vegi sannleikans :)

Kristján Björnsson, 3.7.2008 kl. 09:24

6 identicon

Mér finnst þú gera heldur mikið úr litlu tilefni ágæti Kristján, að líkja vinnubrögðum einnar blaðakonu við eitt dekksta tímabil mannkynssögunnar, og að aðferð hennar í leit að skúbbi dagsins sé heilli stétt til vansa finnst mér full þungt í árina tekið. Flestir blaðamenn sinna starfi sínu af fagmennsku og heilindum sem einni konu ætti nú ekki að takast að rýra með snöggu símtali á sólríkum degi.

Það er vitað mál að staðfest samvist samkynhneygðra hefur verið álitamál meðal presta þjóðkirjkunnar og er ekki einmitt ástæða til þess að þeir viti að hverju þeir ganga þegar þeir leita þjónustu presta landsins, hvert þeir geti leitað og þá hvert þeir eigi alls ekki að leita. Það er nú svo að í starfi sem þínu þá eru sumar skoðanir ekki lengur manns eigin einkaeign, þar sem vinnusvæðið liggur að hluta í sálum annarra einstaklinga.

Það stingur svolítið í augun að lesa frá þér að þú ætlir fríkirkjuprestinum að segja eitthvað lúalegt um þjóðkirkjuna í glansviðtali í kjölfar slíkrar skoðanakönnunnar meðal þjóðkirkjupresta. Mér hefur þú virst of vandaður maður bæði í leik og starfi til að láta slíkt og annað eins frá þér...

eyjagirl (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 02:20

7 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Það er ljótt að lenda undir hrammi fjölmiðlamanna sem svífast einskis í ásókn sinni eftir athygli. Fyrir þeim vakir einvörðungu að selja illa soðna súpu sína, sem því miður oftast er úr lélegu hráefni og vekur ljótan kvíða og enn hryggilegri stundir á postulíninu. Fréttamenn sem hafa skorðast fastir við milli lygasagna og gróðafíknar svífast einskis.  Því miður eru þeir fréttamenn sem standa í því að stilla prestunum upp við vegg, ekki sjálfu málinu til framdráttar.  Starfsemi sem þessi sem sr. Kristján lýsir er aðeins til þess fallin að vekja fordóma, illvilja, hatur og leiðindi.  Því miður skilur þetta fólk það ekki. Hér væri betur heima setið, en að heiman farið.

Fréttamenn þessir hafa greinilega ákveðið hvað koma skuli út úr samsuðu kaffistofusnakks þeirra á einhverjum fréttamiðlinum: Þeir vilja í raun með "viðtölum" sínum einvörðungu fá staðfestingu á því sem þeir hafa fengið í kollinn; að þeir hafi krassandi vöru sem selji sig að mestu sjálf.  Góð vara selur sig sjálf, en raunveruleg niðurstaða er að þessir aðilar hafa skjotið sig í fótinn og samtímis dregið úr trúverðuleika fólks á miðilinn. Flestir fréttamenn og fólk í fjölmiðlun myndi aldrei setja nafn sitt við svo hryggileg vinnubrögð sem þau sem sr. Kristján nefnir í bloggi sínu, enda margt heiðursólkið í þeirri atvinnugreininni. En vissulega er svona fólk að finna, því miður.

Baldur Gautur Baldursson, 14.7.2008 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 39681

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband