Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Nýr Herjólfur??

Er þetta kvikmyndahús ekki upplagt í Bakkafjöruna og bara stutt að sigla henni frá Danmörku :) Ekki sakar ef í henni eru líka undirgöng. Þá fáum við Eyjamenn göngin með í kaupunum gratís!! Þetta gæti líka orðið fín þróunaraðstoð Íraks við þjáningarsystur sína Ísland. Þeir þekkja uppþot og borgaralega óhlýðni og ættu að hafa góðan skilning á átandinu hérna á Fróni.
mbl.is Enginn vill kaupa lúxussnekkju Saddams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Weimar?

Ég hugsa oftar og oftar um upplausnarástand Weimar-lýðveldisins. Veit ekki alveg af hverju þessi hugrenningartengsl eru að styrkjast, en styð það heilshugar að Alþingishúsið okkar verði varið í ljósi upphafsins að þeim hörmulega kafla í sögu Þýskalands. Guð forði okkur frá því að næst verði farið að kalla eftir sterkum leiðtoga sem virðir ekki stjórnskipan landsins!!!

En svo spyr ég hvort fólk hafi virkilega verið að mótmæla því að þingfundir löggjafarsamkomu lýðveldisins hafi verið að hefjast að nýju eftir áramót. Það mætti ætla af fréttinni. Getur verið að mótmælum, sem í eðli sínu eru bæði skiljanleg vegna þrenginga þjóðarinnar og í sjálfu sér æskilegur tjáningarmáti almennings í landinu, sé leynt eða ljóst beint gegn lýðræðislegu skipulagi? Það var ekki að heyra á grófu orðfæri og stjórnleysi á þinginu að virðing væri meðal allra þingmanna fyrir sjálfu Alþingi.

Það er líka mjög mikið umhugsunarefni hvað það er breiður hópur fólks sem kemur til þátttöku í mótmælunum. Og tilefni fólks virðist líka vera sprottið af ólíkum rótum frá einum til annars. Í því öllu er einmitt fróðlegt að heyra viðtöl þar sem þátttakendur eru spurðir um ástæðu þess að það sækir mótmælafundina.


mbl.is Svæði við þinghúsið rýmt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opnað milli ólíkra heima - virðingunni umturnað

Merkilegt hvernig Frelsaranum tókst að umturna virðingarröðinni með því að stilla barninu upp að fyrirmynd í frásögn Markúsar. Jesús blessar börnin og sjálfur var hann barn þegar vitringarnir lutu honum. Hugleiðing í prédikun minni í Landakirkju í dag á www.landakirkja.is undir prédikun.

1.8 milljón Dana í kirkju á jóladag

Það er dágóð kirkjusókn í mínum huga og miðað við þjóðkirkjuna þeirra. Í Danmörku búa núna 5,5 milljónir manna og þar af 8,9% innflytjendur sem margir eru taldir til þjóða sem ekki játa kristna trú.

Það er því ekki rétt í frétt mbl.is að fáir Danir ætli í kirkju um jólin. Ef fréttin frá Berlinske byggir hins vegar á góðum samanburði við fyrri ár er fréttin sú að færri ætla til kirkju en í fyrra. Það er leitt að heyra hjá kristinni þjóð og ætti vissulega að vera áhyggjuefni presta og biskupa þar í landi.

Þess skal getið að kirkjusókn hefur verið góð í Landakirkju í Vestmannaeyjum það sem af er jólahátíð. Nokkur hundruð manns mættu til bænastundar í Kirkjugarði Vestmannaeyja á aðfangadag og kirkjan hefur verið þétt setin við aftansöng á aðfangadag, helgisund á jólanótt og við hátíðarguðsþjónustu á jóladag. Enn eru nokkrar guðsþjónustur eftir í dag og veðrið er það fagurt að börn og fullorðnir ættu að geta komist til kirkju í stórum hópum. Barna- og fjölskylduguðsþjónustan hefst kl. 14 og eru allir velkomnir. 

Vona að allir hafi notið friðar og blessunar á fæðingarhátíð Frelsarans, gleðileg jól.


mbl.is Danir sniðganga kirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól og óskir um kærleika, frið og helgi

Stafkirkjan

Sendi ykkur öllum óskir um gleðileg jól með þessari hátíðlegu ljósmynd af Stafkirkjunni á Heimaey sem Egill Egilsson tók um daginn.

Megi friður og helgi fæðingarhátíðar Frelsarans fylla hjörtu ykkar og næra trú ykkar og kærleika til allra manna. Komi hans náðartíð og réttlæti yfir þjóðina alla á þessum reynslutíma í sögu landsins.

Sr. Kristján og fjölskylda


Dr. Rowan Williams af Kantaraborg með skýra varnaðarræðu

Ég leyfi mér að vekja athygli ykkar á frétt á Vísir.is um merkilegan pistil erkibiskupsins af Kantaraborg, en hann er yfirmaður bresku biskupakirkjunnar og fremstur meðal jafningja í þeirri kirkjudeild um allan heim.

"Erkibiskupinn af Kantaraborg líkir efnahagsstjórn Gordons Brown við þriðja ríki Adolfs Hitler.

Doktor Rowan Williams erkibiskup er ómyrkur í máli þegar hann skrifar í breska blaðið Telegraph að margt sé líkt með stjórnarháttum forsætisráðherrans Gordons Brown og því hvernig Hitler hélt um stjórnartauma síns veldis á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Williams varar við því að stefna Browns taki ekkert tillit til þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu og nefnir þar eldri borgara og þá sem misst hafa atvinnuna. Biskupinn hvetur til þess að varlega verði stigið til jarðar við að skuldsetja breskan almenning en eftir hrun bankakerfisins krafðist hann aukins eftirlits með fjármálafyrirtækjum og benti á að Karl Marx hefði haft rétt fyrir sér þegar hann greindi hættur auðvaldsstefnunnar.

Í grein sinni minnir biskup enn fremur á að í Þýskalandi nasismans hafi skilyrðislaus hlýðni við kerfi snúist upp í martröð. Hann klykkir út með því að minnast guðfræðingsins Karls Barth sem Hitler gerði útlægan en Barth sagði höfuðkost kristninnar þann að fylgjendur hennar gætu lifað utan pólitískra lögmála og kennisetninga."

Gæti eitthvað af þessu átt við hér á landi? Getur gremja íslensks almennings verið sprottin af því ranglæti sem biskupinn bendir á og felst í því að viðhalda auðvaldsstefnu og efnishyggju á kostnað öryrkja, aldraðra og atvinnulausra - nú eða skuldsettra íbúðaeigenda sem sæta auk þess kjaraskerðingu í aðgerðum stjórnvalda?


Svarið er nei, það væri mjög vitlaust

Þetta er mjög vitlaus hugmynd hjá Katrínu þótt alltaf sé gott að spyrja. Við veljum æði margt fyrir börnin okkar og við tökum ákvarðanir um velferð barna okkar í ótrúlega mörgum efnum.  Það er af því að við erum ábyrgir forjáraðilar. Við höfum forsjá og erum foreldrar. Þess vegna eigum við að hafa það fyrir algjöra reglu að stýra þeim á heillabraut, verja þau gegn öllu illu og ala þau upp í kærleika og öruggri vissu og von. Við gefum þeim ekki stein ef þau biðja um brauð. Svo vond erum við ekki.

Ég á ekki von á öðru en kirkjumálaráðherra svari þessu skynsamlega enda traustur maður á þessum ráðherrastóli.

Þessi stöðuskráning nýfæddra barna styðst við ágæta reglu sem miðar við trúfélag móður. Það gefur barninu vernd gegn ágengum markaðsaðferðum sumra lífsskoðunarhópa, einsog til dæmis trúleysingjum. Það ætti eiginlega að veita börnum vernd allt til 18 ára aldurs, en eins og flestir vita geta börn tekið afstöðu til trúfélgasaðildar með skráningu við 16 ára aldur.

Vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu, eftir að sameiginlegt forræði varð til, mætti vel skoða hvort skilgreina þurfi þetta verklag frekar út frá því hjá hvoru foreldri barnið hefur lögheimili eða kanna hvort hjón eða foreldrar með sameiginlegt forræði geti tekið ákvörðun um trúfélagsaðild ef trú eða lífsskoðun er ólík hjá þeim og þau ala barnið upp saman.

Að skilja barnið eftir án uppeldis í trú eða sið er vont og það hefur ekki verið sýnt fram á að það geti skilað því nokkrum verðmætum í uppeldislegum efnum. Og ég held að allir heilbrigt hugsandi menn sjái vel muninn á slíku uppeldi og því sem allir óttast: innrætingu vondra siða.

Svo minni ég bara á þrengstu félagsfræðilegu skilgreiningu á orðinu fjölskylda: Það er móðir og barn í þann mund sem barnið er að fæðast. Það er líklega þessi frumlægi náttúrulegi skilningur sem ræður því að trúfélag móður ræður þessu.

 


mbl.is Hver stýrir trúnni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkun sóknargjalda og trúfélagsgjalda dapurleg

Það er ljóst að niðurskurður á fjárlögum 2009 er víða mikill. Ljótt er að heyra af dæmum um niðurskurð í velferðarmálum, framlögum til heilbrigðismála og t.d. til vímuvarna hjá SÁÁ. Það er líka verið að leggja til lækkun á framlagi til háskóla og til annarra skóla á sama tíma og þeir ættu að vera efldir til að taka við fólki til náms í stað fjölgunar á atvinnuleysisbótum.

Sóknargjöldin er líka skert um töluverðar upphæðir og þar kemur skerðingin jafnt niður á þjóðkirkjunni og trúfélögum í landinu. Sóknargjöldin hefðu átt að hækka um ríflega 12% vegna hækkunar á meðaltekjuskatti einstaklinga í landinu milli áranna 2007 - 2008. Þessi hækkun verður ekki að veruleika og þótt mörgum hefði þótt það nógu mikil skerðing er skerðingin meiri í fjárlögum 2009. Það er gengið lengra fyrir það sem virðist vera einkennilegur slumpreikningur. Sóknargjaldið fyrir hvern mann 16 ára og eldri var 872 á árinu 2008. Nú á meira að segja að lækka það niður í 855 kr. á mann á mánuði í kirkjusókn eða öðru trúfélagi. Raunlækkunin er því ýkt einsog einhver myndi segja og mun hafa varanleg áhrif á gjaldið um ókomin ár.

Það þýðir einnig lækkun til Háskóla Íslands en þangað hafa jafngildi sóknargjalda þeirra runnið sem standa utan trúfélaga, samkvæmt stjórnarskránni. Og verst er að þessi gjöld munu sannarlega lækka árið 2010 því varla hækkar meðaltekjuskattur einstaklinga milli áranna 2008 og 2009. Skerðing sóknargjalda árið 2009 mun svo hafa varanleg áhrif á þann stofn sem verðbætur komandi ára reiknast ofaná ár frá ári.

Þá er gert ráð fyrir lækkun á launum presta en það er sjálfsagt mál að taka því ef launalækkun verður almenn á Íslandi. Við erum þó lægst launaðir af þeim sem heyra undir kjararáð og ef ég les frumvarið um lagabreytingu fyrir kjararáð rétt er fyrst og fremst gert ráð fyrir lækkun launa til ráðherra og alþingismanna. Nóg yrði lækkunin og þátttaka presta í lækkunarferlinu með því að laun þeirra yrðu fryst árið 2009. Það yrði bærileg raunlækkun og verðugt persónulegt framlag.

Allar þessar lækkanir til samfélagslegra mála og velferðarmála eru nú á dagskrá til að ná niður halla ríkissjóðs og kostnaði við lántöku og skakkaföll þjóðarinnar í kreppu fjármálaheimsins. Guð láti gott á vita og blessi þessi ráð, sem gripið er til, en aðeins með hans blessun getum við átt von um að rétta úr kútnum í framtíðinni.


Talar með hjarta Íslendings

Merk hugrenningartengsl við liðna forsetatíð þessarar merku konu. Hittir hún ekki líka naglann á höfuðið þegar hún stillir sér hér upp við hlið alls þorra Íslendinga: Að fjármálahrunið kom flestum Íslendingum í opna skjöldu. Að fæstir hafi gert sér grein fyrir ábyrgð almennings á áhættunni sem tekin var með útrásinni. Að hátimbraðar hallir peninganna voru kynntar í öllum fjölmiðlum með glæsibrag.

Hér talar hún í það minnsta úr mínu hjarta og er heil sem fyrr. Sannur þjóðhöfðingi og stór sál.


mbl.is „ Særandi að vera sakaður um glannalegar athafnir “
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðventan, tími iðrunar og yfirbótar

Á mannamáli mætti segja að tími iðrunar merki það að sjá að sér og tími yfirbótar merki það að gefa af sér. Er það ekki málið núna? Við þurfum að sjá að okkur vegna þess sem hefur gerst og er að ganga yfir. Hvernig tökum við á því?

Við þurfum síðan að hætta að soga allt inn á við í ótilgreindri reiði og ásökunum. Við þurfum að hætta alveg þessari sjálftöku, sjálfmiðlægni og sérhygli. Lífið þarf að fara að flæða áfram en það gerist ekki nema í tengslum við aðra í samfélaginu. Við komumst heldur ekkert áfram án þess að hafa andleg mið.

Við þurfum að láta gott af okkur leiða, stöðva reiði með mjúklegu andsvari. Við þurfum að horfa til þess hvað við getum gefið öðrum í gæðum þessa lífs með kærleika, friði og eindrægni í samskiptum hvert við annað. Við þurfum að færa öðrum þann rétt sem þau eiga. Við þurfum að gæta að hag náungans. Við þurfum að styða það góða sem er í gangi og leita með ljósi sannleikans að því sem er heilnæmt í mannlegum samskiptum.

Ég held það hljóti að vera í hag okkar allra að nýta núna aðventu kristinna manna til þess að bæta heiminn og búa okkur undir hátíð friðarins og þess æðra ljóss sem lýsir alltaf yfir landinu okkar góða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 39701

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband