Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Þau höfðu unnið fyrir sínum bónusum, það er munurinn

Stóri munurinn á þessum bónusum og aukagreiðslunum í íslensku fjármálafyrirtækjunum er auðvitað sá að þetta fólk haðfi unnið hörðum höndum fyrir þessum þakkargjöfum frá eigendunum. Þeir urðu sam-arfar eigendanna sem seldu fyrirtækið á góðu verði.

Okkar bónusar eru óréttlátir af því að þeir runnu til einstakra "stjörnu" stjórnenda en ekki hinna sem þjónað höfðu sinn tíma árum og áratugum saman hjá bönkunum. Stjörnustjórnendur vinna aldrei fyrir sínum aukagreiðslum og hafa aldrei gert. Það er munurinn og það er líklega þess vegna sem réttlætiskennd Íslendinga er misboðið þessar vikurnar.


mbl.is Ríflegir bónusar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími pöntunarfélaganna að renna upp?

Við lifum undarlega tíma. Það er of dýrt fyrir innflytjendur að kaupa inn og þá verður minna til í hillum glæsilegra verslana. Verst er að ekki er heiglum hent að verða sér út um byggingarefni. Fjórar spítur snúnar og klofnar í Húsasmiðjunni. Flísarnar ekki komnar. Þeir sem geta vel haldið áfram að byggja og laga fá ekki innflutta efnið.

Ætli veltan í versluninni eigi ekki eftir að ráðast af þessu fyrst og fremst, að ekki er eins mikið og áður flutt inn til að selja okkur? Það gæti kallað á meiri fyrirhyggju neytenda og pantanir. Ég hélt reyndar að þessir tímar kæmu ekki aftur, en viti menn. Verslunarhættir æskuáranna aftur komnir með nýlenduvöruverslunum og pöntunarfélögum. Ja, hérna.


mbl.is Kaupmenn þrauka fram yfir jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum

Kirkjuþing samþykkti frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum í dag. Til hamingju með það. Verði þetta frumvarp að lögum frá Alþingi verða þau lög til að fullkomna þau þáttaskil sem urðu með setningu laganna um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997. Það stóð alltaf til að þau yrðu endurskoðuð eftir tíu ár frá setningu svo hér er á ferðinni tímabær lagasetning. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur verið hvetjandi í þessu máli og leggur vonandi frumvarpið fram sem fyrst. Hann á þakkir skilið fyrir áhuga sinn á kirkjumálum og elju, hjá honum er orðin mikil þekking og skilningur á þjóðkirkjunni.

Hér er gengið mun lengra í átt að rammalöggjöf þótt fyrsta og merkasta skrefið hafi verið tekið fyrir rúmum áratug. Nú er sú kirkjuskipan fest í sessi, sjálfstæði þjóðkirkjunnar er aukið til muna og allar mótsagnir eða agnúar væntanlega horfnir, sem voru í frumrauninni. Hér er í fyrsta sinn farið svo ofan í saumana á stjórnkerfi kirkjunnar að nær öll hugsanleg úrræði, ábyrgð og vald er komið á hendur þjóðkirkjunni og stofnunum hennar hvað varðar málefni kirkjunnar. Það hefur í fyrsta sinn verið hægt núna eftir að samningarnar voru í höfn varðandi prestsetrin og kirkjueignir árið 2007. Hér er gengið lengra í því að skilgreina skiptingu æðsta valdsins í þjóðkirkjunni og ber þar hæst hina kirkjulegu þrískiptingu á hendi kirkjuþings (löggjafarvaldið), kirkjuráðs (framkvæmdavaldið) og biskups (tilsjónarvaldið). Staða sóknarbarna, þjóðkirkjufólks, er skilgreind, hlutverk grunneiningarinnar í sókninni og kirkjustjórn í héraði, gagnkvæmar skyldur ríkis og kirkju, og staða presta, prófasta og djákna, svo eitthvað sé nefnt.

Það hefur verið heiður að fá að vinna að gerð þessa frumvarps undir formennsku Péturs Kr. Hafstein, kirkjuþingsforseta, og með Bryndísi Helgadóttur, lögfæðingi úr kirkjumálaráðuneytinu. Það var hátíðleg stund að finna samstöðuna á kirkjuþingi við afgreiðslu frumvarpsins. Það hefur verið ánægjulegt að fá að vinna að þessu og fylgja því eftir, fara yfir gagnlegar ábendingar úr ýmsum áttum og sjá verkið síðan ganga upp í samstöðu kirkjuþings. Hafi allir þökk fyrir það sem lögðu hönd á plóginn og horfðu til framtíðar í kirkjunni í skugga efnahagslegra þrenginga þjóðarinnar.

 


Veður á súðum, lítið innihald, lítil þekking

Mikið skelfing veður á súðum í þessu pólitíska almennings-skjallandi tali gamla bekkjabróður míns. Lítil innistæða er fyrir þessum orðum, nema hann sé hinn nýji messías, nema hann hafi kenningu gjörvallrar kristinnar kirkju í vasanum.

Hann hefur engan áhuga á því að vita hvað er raunverulega að gerast í málefnum kirkju og kristni á Íslandi. Af miklum hugsjónaeldi er einmitt verið að vinna að sífelldri endurskoðun kirkjulöggjafarinnar í landinu. Þjóðkirkjan er stöðugt að verða sjálfstæðari með skipan sinni og starfsháttum. Ef hann hefði nú verið á landinu undanfarið hefði hann vitað það.

Hver er hann þessi maður að hann þykist vita manna best á Íslandi hvert sé inntak og kjarni kenningarinnar hjá lútherskri evangelískri kristni í landinu.

Svo vænir hann okkur, presta og stjórn Þjóðkirkjunnar, um makindi!! Sjálfur á launum eins og yfirborgaður prófastur og makar krókinn.

Leitt að hann níðir niður skóinn á einni kirkju í landinu í stað þess að berjast fyrir stöðu sinnar eigin. Hvar er krafan fyrir Fríkirkjuna? Væri ekki nær að setja hana fram í stað þess að vega sig upp á gagnrýni á aðra.

Um sektarkennd má mikið segja. Finnst virkilega einhverjum ærlegum presti eðlilegt að segja fólki að það hafi ekki dansað í kringum gulkálfinn? Þjóðin hefur vissulega ekki öll grætt á því en efnishyggjan hefur verið ferleg í landinu öllu í mörg ár. Efnishyggjan hefur læst sig svo rækilega um merg og bein þessarar þjóðar að það er enginn saklaus.

Og milljarðar eru þetta ekki sem þjóðkirkjan hefur umfram önnur trúfélög í landinu. Upphæðirnar eru einfaldlega hærri vegna fjöldans sem tilheyrir þjóðkirkjunni.

Þjóðkirkjunni er ekki lengur stjórnað af kirkjumálaráðherra. Það ætti sr. Hjörtur Magni að vita ef hann vissi eitthvað um hvað hann er að tala. Það er enginn prestur lengur skipaður af ráðherra og öll stjórnsýslan er að meira eða minna leyti komin yfir til biskupsstofu og undir kirkjuþing og kirkjuráð. Mikið væri gaman að fá að fræða þennan Tjarnarprest um það sem er raunverulega að gerast. Nema hann viti það mæta vel en tali gegn betri vitund. Það væri eftir öllu.

Guð blessi Ísland og forði okkur frá svona samsuðu og árásarhneigð í garð annars trúfélags. Það á ekki að geta gerst á Íslandi, en það væri eftir öllu að hann reyndi að láta eitthvað af kastljósinu yfir sjálfan sig sem beint er að mótmælendum á Austurvelli um þessar mundir.

 


mbl.is Fagnar úrsögn úr þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram er krónan rægð og rökkuð niður

Vandi krónunnar er ekki í henni sjálfri, blessaðri, né heldur í sjálfstæði landsins. Vandinn er að fjármálamenn og stjórnmálamenn hafa keppst við að tala hana niður og rægja eigin gjaldmiðil svo jaðrar við landráð. Væri ekki nær að tala hana upp eins og færi er á samkvæmt almennu markaðslögmáli!

Það væri spennandi að sjá blaðamenn taka það vægðarlaust út hverjir hafa hag af því að rakka krónuna niður þótt það kosti Ísland næstum sjálfstæðið. Eru það pólitískir evrusinnar? Eru það ákveðnir atvinnuvegir? Er það ákveðin fjármálastarfsemi?

Vandinn endurspeglast í þeim aðstæðum sem Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og Ríkissjórn hafa staðið frammi fyrir en liggur grafinn í hlaðinu hjá þessari litlu þjóð. Vandinn liggur í stöðunni sem var komin upp í hinu markaðsvædda fjármálakerfi þjóðarinnar og afstöðu alls almennings, i.e. fjármálaskuldbindingum Íslendinga og fjárfestingum þeirra sem byggðu ekki á eignum og eigin atorku heldur á lánsfé, mestu að utan.

Mér sýnist fátt vera að breytast í afstöðu almennings. Hann ætlar bara að lengja í lánum, losa um sparnað og hrifsa til sín erlend lán í þessa hít. Það mun sennilega allt brenna upp í eldi verðtrygginganna.

 


mbl.is Krónunni verði leyft að falla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf að styrkja Bakkaflug til mótvægis

Ekki get ég sagt að ég hafi orðið hissa. Ástandið er búið að vera þannig að erfitt er að halda dampi og byrja nýjar framkvæmdir á slíkum óvissutíma.

En nú er nauðsynlegt að ríkið komi að styrkjum vegna flugsins á Bakkaflugvöll til samræmis við ríkisstyrk á Reykjavíkurflugið, ekki síst yfir vetrartíma þangað til úr rætist með Herjólf. Nú er ferjan okkar biluð enda komin til ára sinna. Nauðsynlegt að liðka fyrir öðrum samgöngubótum þar til smíði nýrrar ferju verður ákveðin.

 


mbl.is Gríðarlegt áfall fyrir Eyjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurfellingin gæti orðið fyrr

Það hefur verið unnið að því að fella niður þetta gjald og þess vegna var þetta lagt til í fyrra að það félli niður 1. janúar 2009. Það hefur verið á hendi ráðherra sem setur þessa gjaldskrá til tíu ára í senn. Tillagan núna felur í sér að það gerist eigi síðar en 1. janúar 2010.

Við erum hins vegar að vinna ágætar breytingar á þjóðkirkjulögum og í þeim fellst m.a. að kirkjuþing muni ákveða þessa gjaldskrá í framtíðinni ef Alþingi samþykkir lögin. Þá verða ekki inni í henni gjöld fyrir fermingarfræðslu miðað við samþykktina frá því í fyrra og þann vilja Kirkjuþings að fella þetta gjald niður.

Niðurfellingin gæti semsé orðið að veruleika fyrr á næsta ári ef ályktunin endar þannig. Vonandi verður hún enn fyrr, því þetta gjald ætti alls ekki að vera til. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar.


mbl.is Fermingarfræðsla og skírnir gjaldfrjálsar 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opin Landakirkja og úrræði vegna álags í fjármálakreppunni

Vek athygli á www.landakirkja.is varðandi upplýsingar um sálgæslusíma, bæn og helgihald og úrræði eins og Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, Hjálparstarfið og Ráðgjafarstöð í fjármálum heimilanna.

Andúðin í garð fjármálagoðanna - endurmat á viðskiptalegu siðferði

Það er alveg ljóst að bankahrunið á eftir að verða til að við endurskoðum algjörlega öll viðmið í viðskiptasiðferði og viðhorfi til þeirra sem leitt hafa þróun fjármálaheimsins undanfarin ár. Í raun hefur allt verið leyfilegt um langa hríð til að ná hámarks vexti og árangri í útþennslu. Fáeinir frægir einstaklingar hafa orðið nokkurs konar goðar á þingi auðlegðarinnar. Leiðandi menn í fjármálaheiminum hafa verið í hæstum metum og þeim hefur liðist hvað sem er - nema kannski öfgafyllstu afmælisveislurnar.

Sú reiði sem kraumar undir núna í garð bankanna er sennilega sprottin af niðurbældri andúð gegn þeim sem hafa haft mestu áhrif og völd í viðskiptalífinu, hvort sem það er með réttu eða ekki. Það er nokkurs konar andúð í garð fjármálagoða. Hún getur ekki með réttu beinst gegn almennum bankastarfsmanni. Hún getur ekki beinst gegn peningum eða hlutabréfamarkaði sem slíkum og heldur ekki beinlínis gegn hvers kyns markaðshyggju.

Hin réttláta reiði hlýtur að beinast að því opinbera valdabrölti í átt til stöðugt meiri viðskiptalegra áhrifa hjá okkar litlu þjóð í stórum heimi alþjóðlegra viðskipta. Reiðin er sjálfsagt líka sprottin af særðri réttlætiskennd almennings vegna margra dæma af óheyrilegri misskiptingu launa. Á það hefur verið bent að mánaðarlaun fáeinna hafa verið á við mörg árslaun almennings.

Nú er líka að koma í ljós að það stenst ekki nein siðferðileg viðmið að hafa ætlað að ávaxta eftirlaunasjóði landsmanna nema að litlu marki með hlutabréfum og kaupum í verðbréfasjóðum. Hér gæti einnig verið eðlileg ástæða fyrir reiði sem enn á eftir að koma fram.

Í botni þessara hugleiðinga hlýtur að koma hvatning til endurmats. Það heitir á biblíulegu máli iðrun og afturhvarf. Ástandið er svo altækt í íslensku þjóðlífi (og reyndar um allan heim) að þessi iðrun og þetta afturhvarf í siðferðilegum efnum þarf að ná til allrar þjóðarinnar en ekki bara þeirra stjórnenda og leiðtoga sem athyglin beinist að núna í þessum hremmingum. Það er þörf á almennu endurmati á því viðskiptasiðferði sem við höfum látið viðgangast lengi.


Verum samstíga þeim sem stíga í rétta átt!

Já, sæll! Nú er um að gera að vera samstíga þeim sem stíga skref í rétta átt. Það væri mikið batamerki fyrir vaxtastefnuna á Íslandi.
mbl.is Skref í rétta átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 39737

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband