Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Margir þurfa að líða fyrir þetta skipbrot efnishyggjunnar

Það er ekki annað að sjá en menn séu að vinna gríðarlega vinnu til að bjarga því sem bjargað verður í hremmingunni í bankakreppunni. Nú er skynsamlegast að hafa ekki uppi stór orð eða alhæfa of mikið, en við þurfum sannarlega að meta stöðuna sem upp er komin í efnahagslífi þjóðarinnar og umheimsins.

Þetta á eftir að reynast óskapleg áminning um hverfulleikann og hefur áhrif á afkomu og efnahag mjög margra. Hjá mörgum er þetta stór skellur en snertir alla landsmenn. Við þurfum samt að átta okkur á að þetta eru peningar en hremmingarnar varða ekki líf og heilsutjón. Ég finn til þeim sem hafa sett allt sitt traust á eignir eða efnisleg gæði, því hjá þeim er áfallið mjög mikið. Nú er um að gera að halda ró sinni og skerpa á skilningi okkar á raunverulegum undirstöðum í lífinu, þ.e.a.s. í hverju er hald og hvað er öruggt í lífinu. Þetta er mikið skipsbrot fyrir efnis­hyggjuna, en efnishyggja sem slík hefur verið gríðarlega öflug og áberandi í gildismati fólks. Ekki síst í allri þessari miklu umfjöllun um verðmæti, eignir og umsvif. Það eykur á áfallið hvað þetta virðist hafa skipt fólk miklu og hvað fjármálaumræða hefur verið þessari þjóð hugleikin undanfarin ár.

Það er ekki ólíklegt að fólk eigi eftir leita til kirkjunnar og ýmissa ráðgjafa en það er alveg ljóst að áhyggjur fólks eru margvíslegar. Sumir eru að sjá stórar eignir sínar gufa upp, þessi þróun hefur áhrif á rekstur fyrirtækja og svo eru það þeir sem eru skuldugir. Verðtryggð lán hafa verið að vaxa og alveg sérstaklega lán í erlendri mynt. Ætli það reyni ekki á alla þætti samfé­l­agsins og komi bæði fram strax og seinna hjá nær öllum landsmönnum. Ég tek undir það sem ráðherrar ríkisstjórnar hafa sagt. Mikilvægast af öllu er að standa vörð um fjölskylduna, skuldastöðu heimila og bjarga húsnæði fólksins í landinu. Það þarf að gæta að almenn­ingi, innlánum sem útlánum, og sparnaði fjölskyldufólksins. Og svo þarf að muna það líka að láta þetta ekki þrúga heimilislífið og það þarf að vernda bernskuna fyrir öllum þeim bölmóði sem gæti verið eðlilegur fylgifiskur kreppunnar. 

Ég hef sérstakar áhyggjur af bændum vegna skuldsetningar á bújörðum og húsum. Það ætti ekki að vera því við þurfum að leggja áherslu á frumatvinnuveginn í landinu og sjávarútveg.  Þar liggja ótrúleg verðmæti sem hafa aukist aftur að vægi fyrir þjóðina í heild.


Þetta er auðvitað líka alveg rétt, en ...

Hér er frétt úr vísi.is sem var undir fyrirsögninni: Páfinn gagnrýnir fjármálahrunið. Ætli það sé ekki réttara að segja sem svo að hans heilagleiki gagnrýni það á hverju fólkið hafi grundvallað lífsgildi sín. Ég þekki nokkuð marga sem lifa grandvarlega í Guði en hafa líka tekið þátt í viðskiptum og verið virk í fjármálaheiminum. Hvað með hinn trúa og dygga þjón sem ávaxtaði fé húsbónda síns vel?

Benedikt XVI 

"Benedikt páfi sextándi segir að fjármálakreppan í heiminum sé til marks um hve eftirsóknin eftir peningum og veraldlegum frama sé lítils virði . Páfi sagði í dag að peningahrunið og gjaldþrot bankanna sýndi að fólk ætti ekki að byggja líf sitt á peningum heldur ætti grundvöllurinn að vera guðs orð. Páfi sagði í ávarpi á fundi biskupa í Vatíkaninu að þeir sem sæktust eftir frama og peningum byggðu hús sín á sandi."


Missum ekki trú og þrek, Steingrímur!

Er ekki einmitt núna tími til að endast og duga og þreytast ekki? Vísa að öðru leyti á prédikun mína núna í Landakirkju, sunnudaginn 5. október kl. 14. Hún er hér fyrir neðan í blogginu. Guð blessi þessa litlu þjóð.


mbl.is Sáttahöndin að þreytast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá verður grátur og gnístran tanna - prédikun á líðandi stund

Það er alveg heint með eindæmum hvað guðspjallstextar, sem valdir eru fyrir áratugum og jafnvel öldum, geta verið nálægt því að skírskota til atburða líðandi stundar. Hér á landi virðist allt vera á fljúgandi ferð afturábak í því mikla bakslagi sem kom í fjármálamarkaðinn og þeir sem skulda virðast í vondum málum og yfirleitt allir þeir sem sitja nú við óhagstæðan gengismun. Áhrifamenn róa lífróður fyrir þjóðarbúið og leita bjargráða í lausafjárkreppu og hvað það nú heitir sem einkennir kreppuna að þessu sinni. Verði ráð þeirra öll til góðs. Það er einmitt nú sem við þurfum hér í kirkjunni að biðja Guð að gefa ráðamönnum vit og styrk og styrkja drengskapinn í samfélaginu þannig að bálið í bankaheiminum kveiki ekki í neinu á heimilum landsmanna, en blessuð litla krónan okkar hressist og komist á fætur aftur eftir þetta hitakast og svima. Við þekkjum þetta svo mæta vel hér í plássinu okkar í Vestmannaeyjum að þegar ekki aflast herðir að um stundarsakir. Við höfum þurft að laga lífsstílinn að því hvernig vertíðin hefur verið. Sá hæfileiki til aðlögunar á afkomu okkar á einni vertíð til annarrar er einmitt núna hin besta gáfa sem kemur sér vel að vera gæddur. Vonandi hefur þjóðin ekki gleymt því hvernig hún hefur alltaf lifað af sveiflur í efnahagslífinu með þessari ríku aðlögunarhæfni. Þjóðin hefur verið kná í smæð sinni. Hún þarf núna að rifja það upp hvernig það var að rifa seglin í stormi, draga á rá hin hvítu tröf þegar gefur blíðan byr og grípa svo árarnar ella í ládeyðu eða stafalogni. Um allt lítur þetta að því sama setta marki sem ævinlega: að komast í örugga höfn með mannskap allan og afla. Guð gefi að stýrimennirnir kunni á kompás og kunni enn að reikna út fjögurra strika miðun og allt það sem þarf til að leiðrétta driftina. Það er sannarlega þörf á því núna þegar rekið hefur undan og skyggnið ekki upp á margar mílur. Það er þó aldrei svo með skyggnið, eins og einn góður vinur minn, nýlega látinn sagði, að skyggnið var svo slæmt að hann mældi það bara í lengdinni á kústskaftinu þar sem hann sópaði vongóður stéttina sína í norðanhríð.            Hér gildir líka að tala ekki niður lífsafkomuna, en það virðist sem við því hafi legið á köflum í umræðunni um gjaldmiðilinn okkar. Í heimsstyrjöldinni síðari sögðu Bretar: "loose lips sink ships" eða í lauslegri þýðingu: "óvarleg orð sökkva skipum." Sannarlega hafa orð áhrif. Þeir sem tala þurfa því að gæta þess að orð og stíll hafa á Íslandi ætíð verið beittasta vopn sem brugðið hefur verið á loft í sögu þessarar herlausu þjóðar.En það þarf ekki að seilast um hurð til lokunnar, (eða eins og unga fólkið myndi orða það í dag: Það eru nú engin geimvísindi) að Orð Guðs er öflugt og lifandi, lífgefandi og viðeigandi, en hittir í mark einmitt á okkar dögum líkt. Þannig hefur það verið alla tíð frá því að Guð tók að tala fyrir munn spámannanna og æ síðan guðspjallamennirnir tóku að greina frá orðum Jesú Krists og gjörðum hér á jörðu. En hér kastar alveg kólfunum (eða eins og unga fólkið myndi segja: Þetta hringir nú einhverjum bjöllum) að lesa frá altarinu guðspjall sem er hreinræktað guðspjall um hinn efsta dag og dóm Guðs yfir skeytingarlausri kynslóð sem ekki sinnir kalli Drottins. Í dag er okkur ætlað, samkvæmt textaröð kirkjunnar að lesa dómsdagsboðskap. Og við verðum líklega að segja eins og einn góður Ólafur Ragnar á Dagvaktinni: "Já, Sæll!"             Það verður grátur og gnístran tanna, segir konungurinn í þessari dæmisögu, sem er konungur einn er gerði brúðkaup sonar síns. Hér er um margt líkt með kónginum og um himnaríki, að hingað sendi Guð, faðir, son sinn til að leiða þá þjóð er hann hafði löngu fyrr útvalið, en fæstir af þeirri þjóð vildu við hann kannast, sem elskað hafði þau frá fyrstu bernsku og uppruna þessarar tilteknu þjóðar. Oft er komu Krists líkt við komu brúðgumans og oftar en ekki er brúðurinn Jerúsalem, helgistaður hans sjálfs. Í þeim líkingum er borgin helga helgur staður þeirra væntinga að senn komi Messías að frelsa þessa þjóð og leiða hana til hásætis og þið þekkið þessar líkingar frá hirðlífinu í hinum gömlu konungsríkjum, annað hvort af mannkynssögunni eða þá úr ævintýrum. Og boðsgestirnir eru margir og allir eiga að koma skartklæddir og í sínu fínasta pússi. Það er líkingin um að við eigum ekki að hundsa boðið til brúðkaups heldur leggja okkur fram og sýna okkar fínustu hlið, heil og óskipt í athygli og lotningu fyrir hinu heilaga. Það er í því ljósi eðlilegt að konungurinn lætur þá dæma sig sjálfa sem þóttust ætla að koma en komu svo ekki, en kasta út nokkrum sem voru mættir á staðinn en ekki nema með hálfum huga, ekki í sínu fínasta pússi, með hliðsjón af þessu merka tilefni á ævi brúðar og brúðguma. Merking þessarar líkingar er margslungin og nægir hér að nefna það augljósa. Meðal þeirra sem Drottinn vildi fyrst af öllu höfða til, þeirra sem hann hafði alið önn fyrir lengir og unni það mikið að hann vildi hafa í salnum á þessari hátíðarstundu reyndust fæstir þeirra verðugir. Og meðal þeirra sem hann síðar opnaði veislusalinn fyrir leyndust þeir sem voru óhæfir. Í fyrra tilfellinu voru margir sljógir gagnvart boði Drottins en í því seinna lentu nokkrir í úrkastinu. Er það ekki satt að Jesús átti það til að setjast til borðs með syndugum og samneyta þeim og varði hann ekki þá sem voru á götu úti og höfðu jafnvel ekki þótt boðlegir inn í hallir æðstuprestanna og jafnvel ekki í musteri Guðs, föður, á háaklettinum í Jerúsalem? Hann sagði einmitt við það tilefni að hann væri ekki kominn til að lækna heilbrigða heldur hina sjúku. Þess vegna veigraði hann sér ekki við að eiga orðastað við bersynduga og útskúfaða og hina sjúku og þá sem voru af annarri trú og þjóðflokki. Hann braut þau viðmið upp og snart hina ósnertanlegu. Það gerði hann vissulega. Og þess vegna sjáum við að elska hans og manngæska er langt fyrir ofan okkar viðmiðunarmörk hvað varðar skilgreiningu á náungakærleika. Það er einmitt þess vegna sem við skulum ekki láta það hvarfla að okkur að hann yfirgefi okkur þegar á reynir og jafnvel þótt við höfum klúðrað einhverju og jafnvel þótt við höldum að við höfum fyrirgert allri von um fyrirgefningu. Hann vill taka frá okkur eftirsjá og ásökun og harma. Ef það hendir núna í þessari þrúgandi þjóðmálaumræðu eða persónulega, er alveg ljóst, af boðskap Jesú Krists að dæma, að hann býður þér til brúðkaups og veislu og mikilla hátíðarhalda í þeim fögnuði sem einkennir komu guðsríkisins.Margt er í nútíðinni sem minnir á þetta en það er þó einnig ljóst af guðspjallstexta þessa Drottins dags 5. október anno Domini 2008 að enn er úrslitastundin eftir. Enn á eftir að koma í ljós hvað gerist í brúðkaupsveislunni þegar sólin rennur hinn efsta dag og játning brúðar og brúðguma fer að snúast um algjöran samruna á hjartalagi og vilja og huga og mætti. Þá varar þessi boðskapur við því að geti orðið grátur og gnístran tanna. Verður það sjálfsagt  aðallega vegna ranghugmynda mannsins eða vegna þess að maðurinn hefur sett traust sitt á allt annað en Guð og fyrirheit hans, sem fela þó m.a. í sér vonina um eilíft líf. Þegar sá dagur rennur mun allt vera á hendi Guðs á endanum. Það er því óhætt að leggja allt í hendur honum nú þegar, líkt og áður og eins og það verður um alla framtíð. Og þið munið eftir prédikaranum sem flutti þessa líka þrumandi ræðu um gnístran tanna, en þó tókst konu einni aldinni að kalla framí utan úr kirkjunni: "Hvað með hina tannlausu?" Honum varð ekki orðvant, enda andans maður og mikill trúmaður, en hrópaði djúpri röddu á móti: "Verið ekki áhyggjufull! Tönnum verður útbýtt!"Þegar öllu fleygir svo hratt fram og allt er á þjótanda streymi er mikilvægt að menn setji traust sitt á Drottinn alsherjar. Hver annar ætti að hafa ráð á öllu? Hver annar veitir líkn með hverri þraut? Hver annar er hinn sami í dag og í gær og um aldir? Það er aðeins einn Drottinn og við biðjum þess að menn snúi sér til hans, ekki bara af því að illa árar allt í einu í þessu litla ríki vellystinganna, heldur vegna þess að við eigum alla daga að setja traust okkar á hann. Líka þegar hann styrkti bein okkar á góðum dögum. Líka þegar hann reisti okkur upp fallin. Líka núna þegar þörf er á því að rétta af misvísun áttavitans í efnahagslegu tilliti. Fyrr en varir munum við aftur lifa í landinu sem flýtur í mjólk og hunangi. Fyrr en síðar ættum við því að beina sjónum okkar í þá átt sem hjálpin er vís, en það er ekki í hverfulli hyllingu þessa jarðneska lífs. Þau gæði, hversu mikið sem skartið er, verða ekki tekin með yfir til hins eilífa. Þessi þjóð þarf heldur betur að taka sig saman í andlitinu og fara að endurmeta það á hvað hún setur traust sitt í raun og veru. Hinir raunverulegu fjársjóðir í mannlegu lífi eru þeir sem sprottnir eru af kærleika og ást, því það var í ást sem brúðkaupið átti að hefjast. Það var í ást brúðgumans á brúði sinni, ást Guðs á manninum, að upphaflega var boðið til brúðkaups. Það byggðist því allt á þessum kærleika, sem er takmarkalaus ást og takmarkalaus fyrirgefning og þolinmæði og umburðarlyndi. Umfram allt er þessi kærleikur þó hin takmarkalausa trú á hið góða sem ætti að endurspeglast í öllu okkar fasi í manngæsku og náungakærleika. Það sjáist einmitt núna þegar tímarnir virðast harðir og menn eru hættir að reyna að vera töff. Nú er ekki tími stórra orða eða tími fyrir þrætulistina. Það gengur ekki að við tölum niður og sökkvum sjálfri þjóðarskútunni með óvarlegum orðum og það dugar ekki að vera ekki viðbúin. Nú gildir að vera viðbúin boði Guðs er kallar okkur af ást til samfundar við sig að fagna sigri lífsins yfir dauða. Forsómum ekki öryggi það sem við eigum í Guði og lífgefandi orði hans.

Ný prédikun um öldurótið í viðskiptalífinu og hin æðstu gildi

Ég leyfi mér að vekja athygli á nýrri prédikun um þetta efni, út frá guðspjalli Markúsar um æðsta boðorðið, sem ég birti á www.tru.is (postilla) og www.landakirkja.is

Þar byrja ég á tilraun til spámennlegrar prédikunar út frá þróun markaðs og viðskipa undanfarið og siglingu þjóðarskútunnar. Þá koma hugrenningartengslin við þann fjársjóð sem við eigum í æðstu gildum og kærleiksboði Jesú Krists. Dæmi tek ég af söfnun fyrir mænuskaðaða og öðrum alvöru verkefnum í anda hinnar kristnu þjóðar. Svo spyr ég: Hvað hefur þessi þjóð annars fyrir stafni sem nær alltaf virðist vera að tala um efnahagsmál? Ég spyr hvort þessi þjóð geti endalaust sett Drottinn alsherjar út á spássíurnar á fjölmiðlunum landsins? Að lokum beinum við sjónum upp til Guðs. Við lítum hærra og hærra upp til hans og göngum glöð til þeirrar þjónustu að hlaða guðshús á grýttri leið. 


Alister McGrath magnaður trúvarnarmaður í Skálholti

Þessi eftirtektarverði guðfræðingur og merkilegi vísindamaður var ótrúlega flottur í fyrirlestrum sínum í Skálholti. Það er ekki vanþörf á þessari skeleggu trúvarnarbaráttu hans enda hefur hann haft gríðarleg áhrif víða um heim. Apólógetían er nauðsynleg og ef menn setja hana fram á jákvæðan hátt rifa sólargeislar trúarvissunnar inn í líf hvers manns.

Ég lét það líka koma fram í prédikun minni í Landakirkju í morgun að trúvörn hefur á sér minnst tvær hliðar. Eitt er að verja trúna á Jesú Krist. Hitt að skynja hvernig trúin á hann ver mig og þig. Og ég vitna í Lewis: "Ég er kristinnar trúar á sama hátt og ég er fullviss um sólarupprásina í morgunn. Ekki af því að ég sé sólina eða Guð heldur af því að í ljósi þess sé ég allt í þessu lífi." Ég sé ekki alltaf sólin en birta hennar lýsir daginn. Verk Guðs eru augljós í náttúrunni og sögu mannkyns - og líka í mínu lífi.

Margt var grípandi í máli McGrath. Einn molinn er skondinn: Þeir sem aðhyllast trúleysi á forsendum vísindalegra rannsókna hafa sumir sagt að trú á Guð sé einsog vírus í huga mannsins. Dawkins nokkur í Oxford hefur m.a. haldið þessu fram. En ef við skoðum þessa fullyrðingu, sem er í dulargervi vísindalegrar framsetningar, kemur í ljós að engar vísbendingar eru til um tilvist slíkra vírusa. Það er með engu móti hægt að sýna fram að slíkt sé til og hvað þá rannsakanlegt með nokkurri aðferðafræði vísindamanna, hvorki sem agnir, örður eða efnaskipti. Trúin á að enginn guð sé til byggir þá á venjulegum forsendum átrúnaðar ef hún er sett fram með svona fullyrðingum.

Það minnir mig á mann einn sem sagðist vera "lútherskur trúleysingi". Það var ekki annað hægt en dást að slíkri lífsafstöðu og virða hana sem lífsskoðun hvað sem þetta þýddi í þessu átrúnaðarkerfi einstaklingsins.

http://www.skalholt.is/2008/04/21/alister-e-mcgrath-heimsaekir-skalholt/


Það er ekki spurning - upp í næstu vél Þorgerður Katrín

Það er ekki spurning að ráðherra íþróttamála fljúgi aftur til Bejing. Hér er um einstaka stöðu að ræða og um að gera að efla strákana okkar með ráðum og dáð. Bara muna það sem Ólafur sagði í viðtalinu eftir leikinn í ótrúlega flottu viðtali við þennan einn magnaðasta íþróttamann þjóðarinnar.

Kær kveðja með sigurbros á vör - og ekkert - píp - !


mbl.is Íhugar að fara aftur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðing um kirkjusókn í Landakirkju

Einhverra hluta vegna fór ég að velta fyrir mér kirkjusókninni. Ef til vill af því að nú er frekar rólegt yfir að líta mest allan sumarleyfistímann. Síðsta sunnudag var kirkjusókn meiri en ég átti von á þar sem auglýsingar fórust alveg fyrir af tæknilegum ástæðum og miður ágúst er algengasti orlofstíminn í Eyjum. En hér er tölfræðin í Landakirkju fyrir 2007:

Miðað við kirkjusókn síðasta árs lætur nærri að hver einasti íbúi Vestmannaeyja hafi mætt oftar en fjórum sinnum til helgihalds í Landakirkju á árinu og fullyrði ég að það sé langt yfir landsmeðaltali! Ef aðeins eru taldar almennar guðsþjónustur á sunnudögum og öðrum helgidögum sótti hver íbúi kirkjuna oftar en einu sinni. Það er líka nokkuð gott. Svo mætti hvert sóknarbarn oftar en einu sinni í barnaguðsþjónustu eða kaffihúsamessu á árinu. Hver íbúi mætti líka oftar en tvisvar til jarðarfara, skírna, hjónavígslu eða í aðrar helgistundir safnaðarins.

Nánar tiltekið er þessi útreikningur þannig að íbúarnir voru 4040 hinn 1. desember 2007 en þar af voru 3675 skráðir í Þjóðkirkjunni. Hlutfallið er um 91% sem er hærra en hlutfall Þjóðkirkjunnar á Íslandi.

Heildarfjöldi þeirra sem sóttu helgihald Landakirkju var 18359 manns. Það er 4,5 föld íbúatala og nærri því fimmföld tala þjóðkirkjufólks.

Alls sóttu 5443 manns almenna guðsþjónustu á sunnudegi og aðra helga daga og hátíðir (1,3 x íbúatala og 1,5 x tala sóknarbarna). Þær voru 58 svo það gefur okkur meðaltalið 94 yfir allt árið. Fæst er jafnan í kirkju á sumrin nema við sérstök tilefni. Fjölmennasta messan var ferming á pálmasunnudag um 335 manns. Aðrar fermingarmessur voru einnig mjög fjölmennar. Einnig voru yfir 200 manns á fjölskylduguðsþjónustu á aðventunni, göngumessunni á goslokahátíð og á aðfangadagskvöld. Þar á eftir má nefna vorhátíð, sjómannadag, jólanótt og hvítasunnu.

Alls sóttu 3963 barnaguðsþjónustu og aðrar safnaðarguðsþjónustur, einsog t.d. kaffihúsamessu. Þær voru samtals 49 svo meðaltalið er 81 yfir árið. Fjölmennast var í barnaguðsþjónustu á æskulýðsdaginn í mars og 21. október um 160 manns í hvort skiptið.

Alls sóttu 8953 aðrar guðsþjónustur, helgistundir, hjónavígslur, skírnir og útfarir í Landakirkju. Helgistundin í Kirkjugarðinum er þó meðtalin hér en þar er talið að um 350 manns hafi safnast saman í bæn og blessun.

Alls voru guðsþjónustur 236 og gengu um 1400 manns til altaris á árinu.

Það skal tekið fram að hér eru ekki taldar með helgistundir á Hraunbúðum og sjúkrahúsinu, né heldur skírnir og helgistundir í heimahúsum eða helgistund í Herjólfsdal á Þjóðhátíð eða yfirleitt á öðrum stöðum utan við guðshúsið sjálft.

Ég á von á hærri tölum fyrir árið 2008 og reikna ég með að þar muni um góða kirkjusókn í maí og frábæra þátttöku í göngumessunni. Það er óskandi að menn sjái ástæðu til að þakka Guði fyrir gott sumar með góðri kirkjugöngu um leið og vetrarstarf safnaðarins fer í gang í september.

Mesta fjölgunin yrði trúlega ef þeir sem mæta einu sinni á ári tækju upp á því að mæta tvisvar á ári, nema ef það gerðist að sá sem mætti ekki í eitt skipti til kirkju sinnar allt síðasta ár myndi mæta einu sinni eða tvisvar á þessu ári. Það hefur reynst mörgum gagnleg hefð að mæta einn eða tvo tiltekna daga ársins og rækja þá sem sína helgu kirkjudaga. Mest fá þeir þó út úr kirkjugöngu sem mæta sem oftast. Og það eru vitaskuld þeir sem teljast oftast sem halda uppi góðri kirkjusókn í Landakirkju. Megi það vera okkur öllum til mikillar uppörvunar og eflingar í þjónustunni við Guð í Eyjum og víðar í hinum kristna heimi.


Að prósessera á sumarleyfi

Það er merkilegt hvað hvíldar- og endurnæringarferlið er mikilvægt fyrir allt sem við ætlum okkur í framtíðinni. Líka til að vinna úr því sem áunnist hefur. Einsog fyrir bóndann að horfa yfir heyin sem komin eru í hús. Nú er ég búinn að vera í sumarleyfi í júlí. Fyrstu dagarnir fóru í það að vinda ofan af og ljúka verkefnum. Svo var það letin í sólinni í Brekkuskógi og yndileg skírn fyrsta afa-barnsins. Láta eftir sér að vaska og bóna amerísku drossíuna. Einn og einn dagur sem gestur í Yzta Kletti hjá lundaveiðimönnunum þar. Góðir veiðifélagar og svolítið strit að rölta um stíga, hált stórþýfi og bera lundapokana og veiðigræjurnar. Ótrúlegt að finna að enn eru vöðvar um allan kropp að vakna til lífsins með tilheyrandi verkjum og vellíðan. No pain - no gain, einsog sagt er í ræktinni. Þetta er bara meira, en auk þess stórkostlegt útsýni yfir haf og yfir jökla og fjöll og fell og eyjar. Aragrúi fugla í loftinu. Ótal þúsundir lunda í brekkum og svartur sjór af fugli á vaggandi öldum í æti. Háhyrningar og krökkt af síli. Iðandi lífríki fiskjarins í hafi.

Núna fyrst er ég að ná að trappa mig niður. Einn mikilvægur þáttur í því var erindislaus vikudvöl í Reykjavík. Krefjandi að slaka á inní miðju stressinu og í sama umhverfi og stór hluti vinnu minnar á sér stað með fundarhöldum og stjórnun í kirkjunni. Féll nokkrum sinnum og bæði hringdi og kom við á Biskupsstofu. Smá fráhvarfseinkenni. Mjög spennandi barátta við sjálfan mig. Stundum næstum pirraður. Þurfti meira að segja að ná mér niður og taka þátt í Skálholtshátíðinni án þess að vera að gera eitthvað sjálfur. Bara njóta og láta byggja sig upp.

Mér hefur verið bent á að mig skorti meiri hæfileika til að setjast niður og njóta afraksturs af allri þjónustunni. Nú er þetta einmitt að gerast. Jaðrar við titring í skrokknum og hrísl um sálarlífið. Besta endurnæringin er að skapa sér næði til að pósessera á þessar tilfinningar. Nú er ég allt í einu farinn finna hvernig ég horfi sannarlega með tillhlökkun til þess að taka af endurnýjuðum krafti á verkefnum sem ég veit að munu bíða síðsumars og í haust.

Með þeim orðum er best að rölta aðeins úti í garð á prestsetrinu og slá blettinn, tæta upp illgresið. Kannski að klippa runna. Rækta garðinn sinn. Þið fyrirgefið þetta hringsól um sjálfan mig.


Takk fyrir Skálholtshátíð 2008 - Þorláksmessu á sumar

Það væsti ekki um okkur í Skálholti og margir lögðu leið sína til hins forna höfuðstaðar kristni og kirkju í stiftinu. Pílagrímagangan frá Þingvöllum til kirkjunnar var tákn hreyfingarinnar og leitar að innri krafti, ef ekki tæming hugans og streitu til að hleypa hinu andlega að í sálinni. Það sama hendir þá er koma á seinna hundraðinu og tveimur hjólum fyrir horn inn á hlaðið og eru allt í einu leiddir í mestu rósemd inn á víðar lendur fegurstu lista, fræðslu, söngs og tilbeiðslu. Ég skrifa þessi fáu orð til að þakka sérstaklega þeim er að dagskránni stóðu, sr. Sigurði vígslubiskupi, Sumartónleikunum og rektor og starfsfólki staðarins.

Að öðrum flytjendum ólöstuðum stóð Kolbeinn Bjarnason, flautuleikari, uppúr, sérstaklega vegna samspils hans í fyrirlestri um tónverkin og svo hljóðfæraleik þeirra Guðrúnar Óskarsdottur á tónleikunum, en ótrúleg túlkun hans á Ferneyhough í þessu sambandi. Voces Thules voru flottir og þá ekki síst Upphaf Völuspár Eggerts Pálssonar. Samhljómur hinna fornu tíða var þráður í gegnum hátíðarmessu og tónleika, en þar þakka ég líka Pax og Steingrími Þórhallssyni organista og stjórnanda. Ekki klikkaði Hörður Torfa sem fékk mig til að hlusta af meiri athygli á texta ljóða sinna en nokkru sinni áður, af því að þeir áttu að vera trúarlegir.

Já, hafið þökk, allir þátttakendur, leikir og lærðir vinir og collegar fyrir nærveru og lífsfyllingu og líka þessa klassísku elskusemi sem aldrei er fegurri en þegar ást Guðs birtist í hátíðleika kirkjulegrar menningar. Erum við ekki sannarlega í skuld við Guð og menn fyrir stað eins og Skálholt þar sem helgin ein ríkir?

Og sérstakar þakkir fyrir innihaldsríka prédikun sr. Sigurðar og þeirrar hugvekju sem fékk okkur til pælinga um samtíðina og snertingar við minni sögunnar, um kænsku og trúmennsku, en heiðarleika gagnvart farsæld þjóðarinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband