Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Bjarni Sighvatsson eyjamaður ársins 2008

Til hamingju Bjarni fyrir sköruglega framgöngu í öllum þínum baráttumálum. Hafðu heila þökk fyrir ómetanlegt framlag þitt og þinna til sjúkrahússins, en það eru ekki bara gjafir uppá tugi milljóna króna í sneiðmyndatækið og sjúkrarúmin og öll hin tækin. Það er ómetanlegt að við skulum vera svona vel búin tækjum - það fækkar ferðum sjúkra til borgarinnar og það kemur sér afar vel fyrir mjög marga.

Megi sá baráttuandi sem fram kom í ræðu þinni og orðum þínum til heilbrigðisráðherra verða til að styrkja og þjappa saman þeim sem vilja efla og styrkja okkar eigið sjúkrahús. Það væri enn fokhelt ef ekki nyti gjafmildi eyjamanna, líknarfélaga og manna eins og þín. Það fyrirkomulag sem er í dag er beinlínis að bjarga mannslífum og stuðlar alla daga að heill samfélagsins. Guð launi það.


Kreppuafmæli fimmtugs eyjaklerks

Þá er komið að því að ég verð 50 ára laugardaginn 6. des. Þeir sem vilja gleðjast með mér og fjölskyldu minni er boðið í fátæklegan sal í Frímúrarahúsinu við Básaskersbryggju (gamla Geirseyri) sama dag kl. 17 – 19 og þiggja léttar veitingar. Í stað gjafa bið ég fólk að koma með gleðina með sér en leggja fé sitt frekar til líknar- og styrktarsjóða. Einnig verður baukur á staðnum í söfnun fyrir innanlandsaðstoð kirkjunnar.

Fjölskyldan og vinir hafa verið að útbúa salinn og gera klárt. Xprent prentar út myndir, Eyjaís skaffar klakann í fiskiker Vinnslustöðvarinnar, vínið kemur frá Ástralíu og bjórinn ofan af klaka, eins og límonaði og kóka-kóla. Nammið verður íslenskt og fríkadellurnar af pönnu frúarinnar og smáræði úr eldhúsinu hans Gríms kokks, bakstur úr ofni Guðrúnar Helgu og frá Arnóri bakara. Svo verða vonandi ýmsir til að syngja eða halda spaklegar ræður. Reynt verður að stilla ræðum í hóf en tónlist er vel þegin ef einhver vill leggja á borð með sér.

Allir velkomnir sem vilja gleðja okkur fjölskylduna á þessum tímamótum.

Hér kemur svo myndin af afmælisspjaldinu og yfirskrift karlsins (t.d. Mt. 5.16) á einum veggnum í hinum fátæklega en bjarta sal:

afmælismyndin

Hér er svo farið að þynnast meðal veislugesta. Synd hvað mikið var eftir í ískarinu.

IMG_3984

Má vera að ég fái fleiri myndir sendar innan tíðar. Nokkrar góðar birtust þó í Vaktinni í Eyjum af góðum gestum, kór Landakirkju og fleirum, en auk þeirra spiluðu Eymenn, þeir Finnur, Frikki og Einar, og kvartettinn Mandal söng eftirminnilega. Veislustjórarnir voru þeir synir mínir, Bjarni Ben og Sigurður Stefán, auk tengdasonarins in spe Péturs Vilhjálmssonar.

Hjartans þakkir fyrir alla gleðina sem þið sýnduð mér öll, takk fyrir kveðjur og gjafir, en allra bestu þakkir fyrir gjafir í styrktarsjóði. Í boðinu söfnuðust 82 þúsund krónur til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins. Takk fyrir það og líka geitur til Afríku og önnur framlög. Maður þyrfti að verða fimmtugur sem oftast.

Og takk líka, elskuleg eiginkonan mín, Guðrún Helga fyrir að elda ofan í mannskapinn :)


Opin Landakirkja og úrræði vegna álags í fjármálakreppunni

Vek athygli á www.landakirkja.is varðandi upplýsingar um sálgæslusíma, bæn og helgihald og úrræði eins og Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, Hjálparstarfið og Ráðgjafarstöð í fjármálum heimilanna.

Dagur eiginkonu, dætra og dótturdóttur

Hátíðis- og baráttudagurinn 19. júní er dagur baráttunnar fyrir auknum áhrifum kvenna í þjóðfélaginu. Við kosningu frú Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands 1980 var dóttir mín í barnavagni fyrir utan Aragötu 2, en Ólöf mín er fædd í janúar það sama ár. Nú er þessarar fagnaðarstundar minnst í dag við Aragötuna 28 árum síðar. Í dag var hún dóttir mín á ferðinni í háskólahverfinu með dóttur sína sem fæddist í síðasta mánuði. Sjálf er hún orðin starfandi verkfræðingur á verkfræðistofu og til alls líkleg í framtíðinni. Yngri dóttir mín er líka í borginni og er ferðamálafræðingur hér og í Lundi í Svíþjóð. Til þeirra öll mín gleði í dag, en líka til eiginkonu minnar, sem ég elska og virði eins mikið og einni karlrembu er unnt að sýna. Björt veri framtíð þeirra allra. Hinn 19. júní 2008 er ég stoltur eiginmaður, faðir og afi.

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband