Að hefna sín á dómsmálaráðherra

Ég hef ekki síður áhyggjur af því hvert þessi þróun gætur leitt okkur. Vísa á fyrri færslu um fyrri frétt af útstrikununum undir fyrirsögninni "Dramatísk hefnd á dómsmálaráðherra":

Það er umhugsunarvert að sakborningur í dómsmáli geti yfirhöfuð komið fram hefndum á dómsmálaráðherra með þessum hætti. Einum of augljós tengsl eru á milli Baugsmálsins þar sem fjölskylda Jóhannesar í Bónus hefur sætt ásökunum ákæruvaldsins og auglýsingarinnar þar sem hann hvetur til útstrikana á nafni dómsmálaráðherra í nafni fjölskyldunnar. Óttalega er þetta lágkúrulegt og hættulegt fyrir lýðræðislega kjörna leiðtoga okkar sem gegna æðstu embættum þjóðfélagsins. Það liggur við að hér hafi verið um að ræða hættulega aðför að hinu þrískipta æðsta valdi lýðveldisins.

Ég hef svosem líka verið að velta því fyrir mér í öllu þessu Baugsmáli, hvort yfirhöfuð sé hægt að sækja mjög efnað fólk til saka í okkar litla samfélagi. Þótt ég líki ekki saman ákærumálunum eða meintum sakarefnum, kom þessi umræða upp á yfirborðið í Bandaríkjunum í tengslum við réttarhöldin yfir Michael Jackson og fleiri vellauðugum á þeirra mælikvarða skoðað.


mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatísk hefnd á dómsmálaráðherra

Það er umhugsunarvert að sakborningur í dómsmáli geti yfirhöfuð komið fram hefndum á dómsmálaráðherra með þessum hætti. Einum of augljós tengsl eru á milli Baugsmálsins þar sem fjölskylda Jóhannesar í Bónus hefur sætt ásökunum ákæruvaldsins og auglýsingarinnar þar sem hann hvetur til útstrikana á nafni dómsmálaráðherra í nafni fjölskyldunnar. Óttalega er þetta lágkúrulegt og hættulegt fyrir lýðræðislega kjörna leiðtoga okkar sem gegna æðstu embættum þjóðfélagsins. Það liggur við að hér hafi verið um að ræða hættulega aðför að hinu þrískipta æðsta valdi lýðveldisins.

Ég hef svosem líka verið að velta því fyrir mér í öllu þessu Baugsmáli, hvort yfirhöfuð sé hægt að sækja mjög efnað fólk til saka í okkar litla samfélagi. Þótt ég líki ekki saman ákærumálunum eða meintum sakarefnum, kom þessi umræða upp á yfirborðið í Bandaríkjunum í tengslum við réttarhöldin yfir Michael Jackson og fleiri vellauðuga á þeirra mælikvarða séð.


mbl.is Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessuð haldið þá áfram

Fyrst ríkisstjórnin hélt velli og enginn stórágreiningur í stefnumálum stjórnarflokkanna hlýtur að liggja fyrir að halda áfram með stjórnarsamstarfið. Þar að auki er enginn Gosi hvorki í þingmannaliði Sjálfstæðismanna né Framsóknar. Það er margháttað verkefni framundan og nauðsynlegt að tryggja stöðugleika og lækka verðbólgu, að ég tali nú ekki um að lækka verðbætur,  lækka tekjuskatta launafólks, skerðingu lífeyris- ot tryggingaréttinda vegna launa og svona mætti lengi telja.

Blessuð komið ykkur að þessu verki því það má ekki bíða of lengi að þið takið af skarið. Hættið að velta ykkur upp úr sigri eða ósigri því verkefnin kalla eftir samhentu fólki í Stjórnarráðið.

Sr. Kristján í Eyjum


mbl.is Geir: Sérstök ákvörðun ef stjórnarsamstarfið heldur ekki áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennan að aukast. Hvað verður daginn eftir kvöldið áður?

Það er alveg ljóst að spennan er að aukast töluvert á lokaspretti kosningabaráttunnar. Daginn eftir kosningar verður spennandi að sjá hvert menn halda til að slaka á eða þakka fyrir sig. Nýkjörinn forseti Frakklands valdi slökun á lystisnekkju auðkýfings á Miðjarðarhafinu og hlaut bágt fyrir. Þannig gerði hann sennilega lítið úr fyrri yfirlýsingum sínum um að hann ætlaði sér að verða forseti allra Frakka. Hann valdi samneyti við þá sem mest mega sín fjárhagslega og gerði lítið úr eyri ekkjunnar.  

Nú bíð ég spenntur að sjá hvort nokkrir frambjóðenda til Alþingis koma til að þakka Guði fyrir gengi sitt og val þjóðarinnar. Ég skil það ósköp vel að þeir muni kjósa að hvíla sig heima eftir lokasprettinn og vöku kosninganæturinnar. En í trausti þess að hinir nýju þingmenn verði komnir á fætur snemma með uppbrettar ermar að hefja kjörtímabil sitt strax að morgni hins fyrsta dags er ætlunin að biðja fyrir hinum nýkjörnu alþingismönnum í messunni á sunnudag, en hún hefst kl. 11 árdegis í Landakirkju. Það verður margt annað að gerast líka. Við óskum mæðrunum til hamingju með sunnudaginn og í Landakirkju verður líka skírn og kirkjudagur systranna í Oddfellowstúkunni Vilborgu. Aðalefnið er þó sem fyrr að lofa Guð fyrir lífið og vorið og ljósið í þessu lífi. Vonandi koma sem flestir að njóta þess að koma fram fyrir Guð sinn í Landakirkju - hvað sem líður tilefni eða ástæðu kirkjugöngunnar.


Trúin fyrir fólkið, vegurinn fyrir bíla

Það er einhvern veginn ekki nóg að segja að trúin sé fyrir fólkið. Fólkið er varla eins og neytendur sem velja og hafna úr trúnni. "Fá svona mikið af Kristi og svolítið af Búdda, en bara örlitla ögn af Taó." Er ekki trúin fyrir fólk eins og vegur fyrir bíla. Sagði ekki Jesú að hann væri vegurinn, sannleikurinn og lífið? Ekki getum við ekið þversum eða öfugt á vegum landsins. Það hlýtur að vera okkur öllum til heilla að hafa þarna ákveðnar umferðarreglur og þótt þær setji okkur nokkuð miklar skorður á köflum og þótt þær heimili ekki öllum allt er vegurinn samt fyrir fólkið.


Dagur hins vinnandi manns - Heilagur Jósef

Í dag er síðasti apríl svo á morgun skín maísólin björt og vonarrík. Frá fornu fari hefur fyrsti maí verið messudagur heilags Jósefs, hins vinnandi manns. Eftir honum er ekkert haft í guðspjöllunum en það vill segja að hann hefur unnið verk sín í hljóði. Hann gekk í verkin án þess að um það sé rætt, líka það þjónustuverk að vera ljósmóðir Jesú.

Ég vil óska öllu vinnandi fólki til hamingju með Fyrsta maí, baráttudaginn mikla, þar sem vonirnar klæðast nýrri fullvissu um betri tíma og betri kjör. Guð blessi þennan dag og helgi baráttu hins vinnandi manns.


Okurvextir í útlánum viðskiptabankanna - 1. maí

Alveg er það ótrúlegt hvað viðskiptabankarnir komast upp með mikið vaxtaokur í útlánum. Ofaná fullkomna og skothelda verðtryggingu bæta þeir vöxtum sem ættu að vera bannaðir í landinu. Það eru vextir sem ættu að þykja nokkuð góðir á óverðtryggð lán. Hin gamla lögmálsbók heilagrar Ritningar leggur bann við því að taka umfram álag á útlánin. Það hlýtur því að vera ókristilegt athæfi í landinu okkar.

Útlánsvextir sem eru nærri því tvöföld prósentutala verðbólgu ættu að duga til að taka megi áhættu við óverðtryggð lán. En að taka fulla verðtryggingu og svo tvöfalda prósentutölu verðbólgunnar ofaná verðtrygginguna er hreint rán. Í 4% verðbólgu ættu hámarksvextir ofaná verðtryggingu ekki að vera hærri en 4% lögum samkvæmt. Með breytilegum vöxtum mætti ef til vill miða við tvöfalda verðbólgu, en ekki þrefalda eins og í dag. Það er ekki glóra fyrir okkur viðskiptavini viðskiptabankanna að taka þátt í þessari útlánastefnu.


Sumrinu heilsað með kaffihúsamessu í Grafarvogskirkju

Það stendur heldur betur mikið til hjá Kaffihúsakór Landakirkju sumardaginn fyrsta. Nú kemur þessi kór, sem hefur verið að æfa og syngja gospel og trúarlega söngva í vetur undir stjórn Óskars Sigurðssonar, og syngur heila kaffihúsamessu í Grafarvogskirkju í Reykjavík.

Margir koma að messunni

Messan verður niðri í safnaðarheimili Grafarvogskirkju kl. 16.00 þann 19. apríl. Söngurinn verður örugglega góður og enginn svikinn af því. Við prestarnir í Landakirkju og prestar Grafarvogskirkju komum til með að leiða stundina með prédikun orðsins, bæn og blessun. Æskulýðsfulltrúar og fleiri koma að lestri og skipulagi og hægt verður að fá sér kaffi og kleinur á vægu verði, en aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis.

Hugmyndin að kaffihúsakór 

Hugmyndin að kaffihúsakór fæddist í Landakirkju fyrir nokkrum árum þegar tónlistarfólk undir forystu Ósvaldar Freys Guðjónssonar og prestar kirkjunnar vildu freista þess að brjóta upp hnakkasamfélagið. Það gerum við með því að skapa notalega stemningu við guðsþjónustu í safnaðarsal kirkjunnar. Við sköpum umgjörð kaffihúss með því að fólkið situr við borð og kertaljós, slakar á og fær sér kaffi og með því á meðan stundin líður við söng og lifandi Orð Guðs. Prédikun prestanna hefur oftar en ekki verið samtalsprédikun eða samtal prestsins við söfnuðinn.


Stórir helgir dagar og fíflalegt bingó

Kæru bloggarar og lesarar á páskadegi 2007. Skellti hér inn prédikun minni í Landakirkju síðan í morgunn og vona að þið njótið boðskaparins. Pundaði örlítið á fíflalegt bingó vantrúarmanna og vitleysuna í þeim um leið og ég lagði áherslu á helgi daganna og þann mikla sigur sem Kristur vann með upprisu sinni á páskum. En umfram allt, gleðilega páska! Njótið helginnar.

Það eru margir stórir dagar í kirkjunni þessar vikurnar og rekur hver viðburðurinn annan. Varla að nokkur hafi undan að fylgjast með því öllu og svo líka fermingarnar fyrir og eftir páska. Nú er enda stærsta og mesta hátíð kristinna manna, sjálfir páskarnir, en messuhaldið er í anda þess; hver dagur með sínu móti að minnast alls þess er gerðist hjá Jesú dag fyrir dag. Skírdagurinn, föstudagurinn langi, aðfangadagurinn og svo sjálf stórhátíðin í dag, páskadagur, svo stór að ekki tjáir að hafa aðeins einn dag, heldur tvo daga páskanna. Í aðdraganda dymbildaganna var pálmasunnudagurinn fullur gleði og fagnaðar yfir innreið Jesú í Jerúsalem. Í raun eru þetta miklar sviptingar í lífi hins trúaða. Fastan með aðeins tveimur dögum til að fagna, á boðunardegi Maríu og svo pálmasunnudagurinn hávaðasami, þá kyrravika og allt í einu hin fagnaðarríka hátíð páskanna. Var engin furða að stundum var talað um páskahlátur því þá mátti söfnuðrinn hlæja og hafa hátt og njóta lífsins í lystisemdum og matseld. Er ég þó ekki að tala um hinn litúrgíska páskahlátur sem var formlegt fyrirbæri í páskamessunni.            Ég hló til dæmis í gær að fíflalegum rökstuðningi þeirrar vantrúarmanna sem voru með málatilbúnað á föstudaginn langa við Austurvöll eða hvar sem það annars var í 101. Þá klæjaði svo undan því að hin fátæklega rest af helgidagalöggjöf Alþings Íslendinga skuli enn minnast á að enn er eitthvað sem ekki má gera á föstudaginn langa. Og kjánar á fréttavef Vísis.is töluðu um það eins og sjálfsagðan hlut að eitthvað væri réttlætanlegt í þessari ádeilu á “helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar”, eða það var það látið heita þar. Þetta vakti hlátur vegna þess hvað þetta er vitlaust. Er heimsku manna engin takmörk sett, spyr ég bara? Vitaskuld er ekki neitt til sem heitir helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar. Það er Alþingi sem setur lögin í landinu. Og vitaskuld hlýtur það að vera þannig, að ef ekkert stendur eftir af helgi tiltekins helgidags, sem þó hefur verið helgidagur heillar þjóðar með lagastoð í löggjöf hins háa Alþings um langan aldur, fæ ég ekki séð að þjóðin í heild sinni geti áfram haldið í helgidaginn sem frídag eða dag með sérstökum helgidagablæ. Ef þjóðin lætur það endurspeglast með æ fleiri helgidaga í löggjöf Alþings að þessir dagar séu ef til vill ekki svo miklir helgidagar, er engin ástæða til að taka þá frá. Hjá þeim sem ekki sér helgi föstudagsins langa eða sér hana og er ráðinn í hafa hana að engu er auðvitað að lifa bara einn föstudaginn enn í ársins hring. Hjá honum eru allir dagar jafnir. Honum er þá heldur engin vorkunn að vinna þennan föstudag ef hann er orðinn að virkum degi í huga hans eins og hér væri engin kristni.            Í þjóðfélagi sem ekki tekur svo mikið tillit til trúarskilnings kristinna manna umfram trúarskilning fólks af annarri trú eða trúleysingja er föstudagurinn að sjálfsögðu ekki helgidagur með tilheyrandi helgi og frið og fríi. Hann er virkur dagur um öll Bandaríkin, svo dæmi sé tekið af einni tæplega 300 milljóna þjóð. Og það sama gildir um skírdaginn og annan í páskum. Ekki veit ég um nokkra þjóð, þótt slík dæmi megi eflaust finna, sem heldur annan í páskum helgan dag. Fíflaleg uppákoma vantrúarmanna vekur mér því bara hlátur og þó væri ef til vill nær að tala um aðhlátursefni, fyrst fólk getur verið svo lokað í eigin heimi eða blint í þröngsýnni lífsskoðun sinni, þeir sem vildu sjálfsagt segja eitthvað voða merkilegt með því athæfi að halda bingó á gömlum messutíma föstudagsins langa.            Ég vil aðeins skýra það nánar með dæmi frá Ísraelsríki nútímans. Þar er auðvitað ekki þriggja daga helgi í hverri viku og aðeins fjórir virkir dagar þótt múslímir haldi föstudaginn helgan, gyðingar laugardaginn, sabbatinn, og kristnir menn sunnudaginn helgan hvíldardag. Helgi og virki daganna ræðst auðvitað af trúarskilningi, því án trúarskilnings er engin helgi. Og rétt er að minna á að helgi hvíldardagins er vitaskuld fengin með sköpun Guðs, sem skapaði himinn og jörð og allt sem þar hrærist í sköpunarverkinu á sex dögum en skapaði þá að lokum hinn sjöunda dag til að hinn skapaði mætti hvílast. Og það sem meira er, er að hann skapaði þennan dag og hvíldist sjálfur af öllu verki sínu. Þannig að hvíld Guðs verður til að gefa þessum degi helgi sína og fyrir hvíld skaparans er hvíld mannsins heilög. Það er innbyggt í trú okkar á hinn skapandi mátt Guðs, sem sést og heyrist í orði hans og þá einnig í þriðja boðorðinu af hinum tíu. Páskadagurinn er helgastur dagur því þá varð hin nýja sköpun.            Gallinn við okkar kynslóð, fólk sem er uppi núna og ber uppi þjóðfélagið með vinnusemi og útsjónasemi og elju og gáfum og margvíslegri getu til ótrúlegustu afreka er ekki að sinna þeirri heilögu köllun sem felst í því að helga sig Guði. Ef ég tek dæmi hér af okkur í Vestmannaeyjum verður að segjast að okkur fer aftur í einu efni. Áður fyrr voru páskastoppin tilefni til mannfagnaða og gleði yfir því að hittast og skemmta sér, því sjaldan voru jafn margir inni á sama tíma. Það hefur verið mikið um páskahlátur í Eyjum kynslóð eftir kynslóð og enn er það svo að ef stórir hópar vilja hittast er ekki úr vegi að velja þessa daga, þótt kristilegir helgidagar séu, til að ná saman og hafa jafnvel bara nokkuð hátt á köflum. Það er bara gott og blessað og ég hef tekið þátt í því á stundum af sérstöku tilefni. En ég sagði að okkur hafi farið aftur hér í Eyjum. Það er vegna þess að þrátt fyrir þennan gleðskap og söng og vín létu hinir hraustu það ekki um sig spyrjast að missa úr messu. Helgi daganna skyldi virða með kirkjugöngu þótt nota mætti aukagetuna eða umframkraftinn til að eiga líka góða stund með vinum. Hér er bleik brugðið og það fer að verða vel réttlætanlegt að spyrja hversu kristin sú kristna þjóð er sem tekur sér alla þessa helgidaga en heldur ekki helgi þeirra. Ekki einu sinni í einn og einn klukkutíma sem messan tekur. Hún lætur sér nægja að taka fríið og fjörið. Ef til vill á þetta eftir að breytast rétt eins og helgidagalöggjöf Alþingis hefur breyst hin síðari ár með vaxandi veraldarhyggju og verslunarhyggju og afhelgun daganna með því að gera þá virka. Ég get ekki annað en hvatt til þess að helgi daganna verði virt hjá þeim sem eiga þá helga. Löggjöf á vitaskuld að hjálpa fólki að verja helgi helgidaga sinna í samræmi við þá trú og sannfæringu sem það fylgir. Hér einsog víðar óttast ég mest það sem kallað hefur verið tómlæti samtíðarmanna minna, tómlæti sem segir að það hljóti að vera í lagi að hver maður geri bara það sem honum sýnist. Ég óttast að tómlæti en ekki árásir á kristna trú sem muni valda henni mestum skaða gagnvart því sem heilagt er.            Það er ekki svo í mínum huga að helgi þess heilaga sé mjög hætt komin hér í Eyjum og bið ég ykkur að skilja ekki orð mín þannig þegar ég segi að okkur hafi farið aftur í vissum efnum sem snýr að kirkjurækni. Þið eruð þá hér allmörg. En við megum gæta okkar og það má líka segja að við getum ekki lengur ætlast til þess að fólk muni jafn vel og áður hvað það er sem mestu skiptir á helgum hátíðum. Kirkjusókn er fádæma góð á jólum og ætti að vera betri í kyrruviku og páskum út frá því að í dag er hæsta hátíð kristinna manna um allan heim. Það er hins vegar æði margt sem glepur og trúlega er mun meiri þörf á að auglýsa betur en gert er hvað til friðar kristins manns heyrir í kirkjulegum efnum. Það er eiginlega fáránlegt hversu auðvelt er að gleyma að fara til kirkju í hátíðarmessur og helgar guðsþjónustur. Það er næstum því aðhlátursefni ef ekki grátlega kaldhæðnislegt hvað það er létt að láta sér koma eitthvað allt annað til hugar en sækja kirkju á helgum degi eða nýta sér helgidagafriðinn til að næla bara í fríið.             Hvað sem því líður er ljóst að virðing okkar fyrir trúarlegri helgi er sennilega ekki á neinu undanhaldi, nema síður sé. Ég hallast að því að hún sé stöðugt að aukast. Trúhneigð er að aukast. Það held ég að sé alveg stórmerkileg staðreynd um okkur hér. Sjáið hvernig þetta er innbrennt í peyjana sem sátu hér uppi á lofti og fylgdust með því eitt sinn er presturinn gekk hér skrýddur inn. Annar sagði þá upphátt: “Sjáðu þarna er Guð.” “Nehei,” sagði þá hinn, “þetta er ekki Guð, þetta er Drottinn.”            Það vantar ekkert á virðinguna og það kemur oft fram að trú okkar er mikil og traust. Það vantar ekkert á bænarlífið sem slíkt. Og meðan það er svo hjá næstum því heilli þjóð, að hún trúir því að Jesús frá Nazaret, sem krossfestur var á hinni fornu páskahátíð Gyðinga, hafi á þriðja degi risið upp frá dauðum, og minnist þess með hinni nýju páskahátíð kristinna manna, er ekki nema eðlilegt að sú þjóð setji sér löggjöf sem ver þessa helgi að einhverju hæfilegu marki. Hitt væri annað hvort bilun eða grunnhyggni sem ógnað gæti því að þjóðin ætti áfram hald og traust í trúarlegri sannfæringu sinni og trúarsið. Það er ekki lengur einn siður í þessu landi eins og lögfest var á sínum tíma á Alþingi hinu forna. En það er enn svo að kristinn siður mótar samfélagið og mótar helgidaga og mótar siðgæði og mótar framferði eftir hinum kristilega náunga kærleika. En það er ekki bara vegna þess að við viljum endilega vera gott fólk og kærleiksríkt svona almennt talað til að fullnægja einhverju almennu réttlæti. Við erum mótuð af þeim sið sem á sér hverfipunkt í einum stórum atburði mannkynssögunnar og úrslitaatriði í lífi og trú kristins manns: Að Jesús frá Nazaret reyndist vera Kristur, Drottinn og frelsari heimsins, er hann reis upp frá dauðum á þriðja degi. Um það snýst þetta nú allt hjá okkur hversu heit eða innileg sem hin kristna trú annars er hjá hverjum og einum frá einum tíma til annars. Hin nýja sköpun Drottins skóp helgi hins nýja skilnings á páskadegi kristinna manna og hinn nýji sáttmáli tók ekki aðeins gildi, heldur var honum þrykkt á enni og á brjóst hverrar kristinnar sálar með krossmarki trúarinnar. Af því tákni krossins er maðurinn helgaður og undir það tákn krossins, tákn hins nýja sáttmála, helgum við okkur signt og heilagt, það er að segja á virkum dögum og helgum. Vegna sigurverksins sem Kristur vann er sigurhátíð sæl og blíð hjá okkur núna og gleymum því aldrei.

 


Bleikir hanskar eru ömurlegir

Er ekki til samevrópsk könnun á stöðu og hugmyndum karlmannsins út frá háleitari sjónarmiðum? Til dæmis: Hvað hugsar fólk eða íhugar með sjálfum sér þegar það vaskar upp? En vel á minnst, bleikir gúmmíhanskar eru bara ömurlegt fyrirbæri og ættu ekki að vera til.

 


mbl.is Er körlum illa við bleika gúmmíhanska?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband