Mikill léttir og hreinsar andrúmsloftið

Allt annað hefði orðið mjög vandræðalegt fyrir alla aðila. Við þessar aðstæður er best að hreinsa andrúmsloftið í orðsins fyllstu merkingu. Við höfum ekkert með heræfingar að gera yfir landinu okkar hreina og stillta.

Ætli það yrði ekki bara hlegið að þeim sem ætlaði sér að koma og ræna okkur eða yfirtaka gjaldeyrislausa þjóð :)


mbl.is Hætt við loftrýmisgæslu Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf að styrkja Bakkaflug til mótvægis

Ekki get ég sagt að ég hafi orðið hissa. Ástandið er búið að vera þannig að erfitt er að halda dampi og byrja nýjar framkvæmdir á slíkum óvissutíma.

En nú er nauðsynlegt að ríkið komi að styrkjum vegna flugsins á Bakkaflugvöll til samræmis við ríkisstyrk á Reykjavíkurflugið, ekki síst yfir vetrartíma þangað til úr rætist með Herjólf. Nú er ferjan okkar biluð enda komin til ára sinna. Nauðsynlegt að liðka fyrir öðrum samgöngubótum þar til smíði nýrrar ferju verður ákveðin.

 


mbl.is Gríðarlegt áfall fyrir Eyjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurfellingin gæti orðið fyrr

Það hefur verið unnið að því að fella niður þetta gjald og þess vegna var þetta lagt til í fyrra að það félli niður 1. janúar 2009. Það hefur verið á hendi ráðherra sem setur þessa gjaldskrá til tíu ára í senn. Tillagan núna felur í sér að það gerist eigi síðar en 1. janúar 2010.

Við erum hins vegar að vinna ágætar breytingar á þjóðkirkjulögum og í þeim fellst m.a. að kirkjuþing muni ákveða þessa gjaldskrá í framtíðinni ef Alþingi samþykkir lögin. Þá verða ekki inni í henni gjöld fyrir fermingarfræðslu miðað við samþykktina frá því í fyrra og þann vilja Kirkjuþings að fella þetta gjald niður.

Niðurfellingin gæti semsé orðið að veruleika fyrr á næsta ári ef ályktunin endar þannig. Vonandi verður hún enn fyrr, því þetta gjald ætti alls ekki að vera til. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar.


mbl.is Fermingarfræðsla og skírnir gjaldfrjálsar 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindabarátta í háska

Er það ekki orðið alveg ljóst að við eigum ekki að leggja lag okkar við herðnaðarveldin. Valdsúrræði heimsveldanna er allt of háskalegt í höndum manna einsog Gordon Brown. Við erum saklaus börn sem líðum fyrir misbeitingu laganna gegn hryðjuverkjum.

Nú veljum við okkar eigin veg í alþjóðlegum efnum og hættum að styðja beitingu hryðjuverkalaga í hvaða tilvikum sem er. Við skulum skulum rjúfa þennan vítahring ofríkis og fara aldrei aftur á "lista viljugra þjóða." Styðjum frekar mannréttindi.

Vonandi taka stjórnvöld farsælar pólitískar ákvarðanir og afþakka eftirlitsflug Breta hér yfir eins og ráðgert er síðar á þessu ári. Það yrði hlægileg niðurlæging ofan á allt annað.

Hin friðsama þjóð, Ísland, þakkar hins vegar allan almennan velvilja Englendinga þar sem við eigum líka mörg dæmi um allt annað viðhorf, t.d. í Ensku biskupakirkjunni og þeirri lúthersku í Englandi gagnvart söfnuði Íslendinga í London.


mbl.is Gott dæmi um misnotkun laga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóð dagsins: Til batnaðar

Veikt er í spori eitt vesalings barn

sem veraldar láni finnst rúið,

það fellur í gloppur og fýkur á hjarn

og finnur sig vanmegna, búið.

Vart er í heimi þó alltaf svo hart

að ástandið líða skal lengur.

Nú velur þú barnið mitt vel sem þú þarft

og veg þinn til batnaðar gengur. 

Kristján


Því ekki allir fyrrum hluthafarnir?

Hví fá ekki allir fyrrverandi hluthafar í Kaupþingi bankann aftur á sanngjörnu kostnaðarverði. Það yrði til að tryggja þeim aftur aðkomu að rekstrinum og tækifæri til að koma eign sinni aftur til verðmætis og virðisauka. Það þyrfti ekki að vera hátt verð ef slíku réttlæti væri komið til leiðar þar sem það er hagur ríkissjóðs að bankinn verði aftur einkavæddur fyrr en síðar.

Helstu rökin fyrir því að þessir aðilar ættu að eiga þarna einhvern rétt eru þau að bankinn var gríðarlega stórt og mjög vel rekið fyrirtæki sem fór að ósekju í þrot, einkum vegna aðfara örvæntingarfullra breskra ráðherra og ófagmannlegra ummæla seðlabankastjóra okkar.

Og ég tek fram að ég sjálfur hætti að vera hluthafi að Kaupþingi snemma vors 2007!


mbl.is Stefnt að niðurstöðu lífeyrissjóða á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldan veldur einn þá tveir deila - Guð blessi samningamennina

Minni bara á þessa speki um ástæður deilna, en þetta kenndi amma mér ungum. Líklega er það rétt hjá okkar trausta forsætisráðherra að áhlaupið á Kaupþing í Bretlandi varð til að setja annars góðan rekstur og frábært fyrirtæki í uppnám. Megi það komast sem fyrst á flot aftur. Það sem setti áhlaupið af stað var án efa það sem fólst í yfirlýsingum Gordon Brown og Darling. Okkar sök er að hafa ekki unnið nógu vel með þessum mönnum og gert nógu góða grein fyrir stöðu Íslands og íslenskra fyrirtækja í útlöndum. Það er ekki allt á hausnum þótt lausafjárkreppan herði að. Sjáið t.d. Össur hf.

Nú snýst spurningin um það hvernig við ætlum að ná aftur vopnum okkar. Það gerist ekki nema með því að ná eyrum Breta og Hollendinga og svo framvegis. Það gerist ekki með því að tala hér heima við eldhúsborðið. Við náum mestum árangri með því að efla stöðu íslenskra fyrirtækja á hinum erlendu mörkuðum og tala þau upp af sama krafti og landinn talaði niður krónuna. Við náum mestum árangri með því að vinna með öðrum þjóðum í alþjóðlegu átaki til að rétta af fjármálamarkaðinn í heiminum.

Guð blessi þá sem vinna að samstarfssamningunum við Hollendinga og Breta þessa dagana. Guð blessi þá sem sjá þetta mál allt í víðara samhengi en ekki bara sem vanda Íslendinga.


mbl.is Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opin Landakirkja og úrræði vegna álags í fjármálakreppunni

Vek athygli á www.landakirkja.is varðandi upplýsingar um sálgæslusíma, bæn og helgihald og úrræði eins og Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, Hjálparstarfið og Ráðgjafarstöð í fjármálum heimilanna.

Hagur allra markaðsþjóðanna að laga stöðu Íslands

Er ekki ljóst að það er öllu samfélagi þjóðanna til góðs að IMF fái að eiga veglega aðkomu að lausn fjármálakreppunnar á Íslandi? Ef við erum það land sem fyrst hefur fallið og verst hefur farið í þessari bankakreppu hljóta ráðamenn í öðrum löndum þróaðra markaða að vera á nálum. Það er mjög trúlega rétt mat að sú mikla aðstoð sem við þurfum ætti að vera stjórnað af Aljóðagjarldeyrissjóðnum með aðkomu Norðmanna, Rússa, Japana og annarra vinveittra ríkja.

Það þarf aðkomu IMF, G7 og bestu grannþjóða líka til að festa gengið á krónunni, en það er forsenda þess að við getum einhvern tíma átt kost á aðild að evru, eða notað gjaldmiðil yfirleitt.

Okkar menn hljóta að sjá það skyldu sína að setja niður þessi gönuhlaup Breta og áhyggjur Hollendinga.


mbl.is Lausn á deilum forsenda IMF-aðstoðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andúðin í garð fjármálagoðanna - endurmat á viðskiptalegu siðferði

Það er alveg ljóst að bankahrunið á eftir að verða til að við endurskoðum algjörlega öll viðmið í viðskiptasiðferði og viðhorfi til þeirra sem leitt hafa þróun fjármálaheimsins undanfarin ár. Í raun hefur allt verið leyfilegt um langa hríð til að ná hámarks vexti og árangri í útþennslu. Fáeinir frægir einstaklingar hafa orðið nokkurs konar goðar á þingi auðlegðarinnar. Leiðandi menn í fjármálaheiminum hafa verið í hæstum metum og þeim hefur liðist hvað sem er - nema kannski öfgafyllstu afmælisveislurnar.

Sú reiði sem kraumar undir núna í garð bankanna er sennilega sprottin af niðurbældri andúð gegn þeim sem hafa haft mestu áhrif og völd í viðskiptalífinu, hvort sem það er með réttu eða ekki. Það er nokkurs konar andúð í garð fjármálagoða. Hún getur ekki með réttu beinst gegn almennum bankastarfsmanni. Hún getur ekki beinst gegn peningum eða hlutabréfamarkaði sem slíkum og heldur ekki beinlínis gegn hvers kyns markaðshyggju.

Hin réttláta reiði hlýtur að beinast að því opinbera valdabrölti í átt til stöðugt meiri viðskiptalegra áhrifa hjá okkar litlu þjóð í stórum heimi alþjóðlegra viðskipta. Reiðin er sjálfsagt líka sprottin af særðri réttlætiskennd almennings vegna margra dæma af óheyrilegri misskiptingu launa. Á það hefur verið bent að mánaðarlaun fáeinna hafa verið á við mörg árslaun almennings.

Nú er líka að koma í ljós að það stenst ekki nein siðferðileg viðmið að hafa ætlað að ávaxta eftirlaunasjóði landsmanna nema að litlu marki með hlutabréfum og kaupum í verðbréfasjóðum. Hér gæti einnig verið eðlileg ástæða fyrir reiði sem enn á eftir að koma fram.

Í botni þessara hugleiðinga hlýtur að koma hvatning til endurmats. Það heitir á biblíulegu máli iðrun og afturhvarf. Ástandið er svo altækt í íslensku þjóðlífi (og reyndar um allan heim) að þessi iðrun og þetta afturhvarf í siðferðilegum efnum þarf að ná til allrar þjóðarinnar en ekki bara þeirra stjórnenda og leiðtoga sem athyglin beinist að núna í þessum hremmingum. Það er þörf á almennu endurmati á því viðskiptasiðferði sem við höfum látið viðgangast lengi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband