Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sól og blíða 17. júní!!

Gleðilega lýðveldishátíð! Eyjarnar okkar skarta sínu fegursta, sól gyllir hvern hól og klettarnir brosa út í heiðríkjuna. Sennilega hvergi fallegra veður á lýðsveldishátíð Íslands. Til hamingju með að vera enn sjálfstæð þjóð og eiga enn sjálfstætt land. Ef við lifðum af versta fjármálavetur í sögu Íslands hljótum við að geta lifað af hvað sem er. Guði sé lof fyrir Ísland, sem hann blessar svona ríkulega.

Óráð að skapa óvissu um sjávarútveginn

Það er merkilegt að nú, þegar stórir geirar atvinnulífsins eru í lamasessi eftir hrunið á fjármálamarkaði, byggingarverktakar berjast í bökkum og fjöldi fyrirtækja á ýmsum sviðum verslunar og þjónustu eiga í erfiðleikum, m.a. vegna fjármagnskostnaðar, skuli ráðamönnum koma það helst til hugar að skapa óvissu um eina af fáum greinum atvinnulífsins sem eru að bjarga landinu.

Í sjávarútvegi hafa fyrirtæki Eyjamanna sýnt fádæma útsjónarsemi og framsýni við kaup á aflaheimildum og unnið markvisst að uppbyggingu greinarinnar. Nú var loksins að sjá sem þessi útvegur gæti hugsanlega átt góða daga í vændum, ekki síst þegar litið er til þess að útflutningsverðmætin hafa aukist við núverandi gengi krónunnar, sjómenn fá mun meira fyrir sinn hlut og tekjurnar eru loksins á uppleið. Magur tími er að baki þar sem menn hafa þraukað.

Við þessar aðstæður virðist nýja ríkisstjórnin hennar Jóhönnu Sigurðardóttur ætla að taka upp eignirnar, sem keyptar hafa verið í núverandi kerfi, þ.e.a.s. eignirnar sem felast í veiðiheimildunum, með það fyrir augum að úthluta þeim aftur. Það verða þá væntanlega einhverjir aðrir sem fá að kaupa þessar eignir eða fá þær að gjöf. Trúlega eru það þeir sem áður hafa verið í bransanum en séð hag sinn í því að selja aflaheimilir frá sér í núverandi kerfi. Í þriðja eða fjórða sinn fá þeir þá aftur veiðiheimildir sem þeir geta þá selt með góðum vöxtum. Látum það þó liggja milli hluta hvað þetta gæti farist óhönduglega, því auðvitað vonum við það besta.

Það liggur þó fyrir að með eignaupptöku veiðiheimilda, sem boðuð er, hljóta þeir að fara verst út úr þeim afskiptum sem hafa byggt hvað mest upp. Verstöðin í Vestmannaeyjum fer trúlega einna verst út úr þessari uppstokkun, enda er erfitt að taka frá þeim sem ekkert á.

Nóg er að gert nú þegar þessi óvissa hefur verið sköpuð, því auðvitað kippa ríkisbankarnir að sér höndum nú þegar, en bíða ekki boðanna. Yfirlýsingin í stjórnarsáttmálanum hefur trúlega þegar áhrif á stöðu þeirra sem senn eiga að tapa veðhæfum eignum veiðiheimildanna í kjölfar síðustu ára aflaskerðingar og tapaðra annarra eigna í fjármálahruninu.


Sjálfsmynd þjóðarinnar svona mikið brotin?

Ætli sjálfsmynd þjóðarinnar sé svo niður brotin að hún verði að fá útlending í embætti seðlabankastjóra? Og eins þótt það sé andstætt ákvæðum stjórnarskrárinnar, ef marka má ábendingar Sigurðar Líndal, lagaprófessors, því fyrsta skilyrði fyrir embættisgengi hér heima er að vera íslenskur ríkisborgari.

Sennilega liggur okkur svona mikið á að laga sjálfsmynd þjóðarinnar að við þurfum útlending til að ganga í augun á útlendingum. Lengi höfum við Íslendingar verið háðir áliti annarra og oft höfum við gert grín að setningum eins og: "Há dú jú læk æsland?" Nú sýnist mér það vera komið á annað stig og heldur aukast nú vandræði okkar, kerling.

Hefði ekki verið nær að setja Arnór seðlabankastjóra og ráða handa honum alþjóðlegan sérfræðing sem aðstoðarmann eða ráðgjafa? En nú er ekkert heilagt og ekki heldur stjórnarskráin og hvað þá ímynd þjóðar í eftirköstum bankakreppu.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki meiri þrælar en við viljum vera

Ég tel að við verðum ekki meiri þrælar en við viljum vera. Þetta er táknrænn gjörningur og mjög sterkur. Samt get ég ekki verið sammála því að við séum að gerast þrælar nokkurra aðila, nema við ætlum virkilega að leggjast á strekkingarbekkinn hjá þeim eins og þrælar. Ég er ekki til í þessa píslarvættisvæðingu íslenskrar þjóðar. Þessi þjóð þarf ekki að vera í þrældómi frekar en hún vill, enda tel ég að skuldirnar okkar séu alls ekki óyfirstíganlegar.

Þótt ég skuldi bankanum mínum nokkrar milljónir í íbúðarláni er ég einfaldlega viðskiptamaður bankans. Það er eign á móti og skuldbinding um greiðslu. Sem betur fer höfum við ekki oft þurft að vera viðskiptamenn IMF en við erum einfaldlega í stórum viðskiptum við þá núna. Við erum ekkert fórnarlamb öðrum þjóðum fremur, því kreppan virðist bitna á öllum þjóðum sem á annað borð hafa haft opið fyrir alþjóðleg viðskipti. Efnahagssamdrátturinn er mjög viðtækur en við erum lánsöm að eiga mikinn auð í gæðum landsins og miklum sjávarafla, en ekki síður í miklum og dýrum mannauði mikillar menntunar og vinnusamra handa sjálfstæðra kvenna og karla.


mbl.is Láta hýða sig í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slys ef losa á um séreignasparnaðinn

Það yrði hörmulegt slys ef löggjafinn tæki uppá því núna að losa um viðbótarlífeyrissparnaðinn hjá okkur. Það myndi hafa áhrif á eignina sem eftir stæði bæði hjá þeim sem fengju að taka út hluta hans og okkar hinna sem ekki hafa minnstan áhuga á því að eyðileggja þennan ævisparnað meira en orðið er.

Í fyrsta lagi er þessi sparnaður ekki aðfarahæfur og slyppi því ef gengið yrði að skuldurum. Þeir misstu sjálfsagt sitt en ættu þó þetta sem ósnertanlega eign þrátt fyrir gjaldþrot.

Í öðru lagi þarf hlutur þeirra sem losa úr séreignasjóðum sínum að seljast og ólíklegt annan en þeir sem geta keypt reyni að kaupa á sem lægsta verði. Ólíklegt annað en sú eign yrði metin niður þegar til útgreiðslu kæmi. Sá sem ætlar þannig að losa fé fær ekki raunvirði fyrir það.

Vonandi skjóta ráðmenn hvorki sjálfan sig né alla aðra í fótinn með svo slæmri aðgerð.


Mannapólitíkin ráðandi og græðgin lifir

Það er ótrúlega dapurt að horfa uppá það þessar vikunarnar hvernig mannapólitíkin yfirskyggir alla umræðu um þjóðfélagsmál um þessar mundir. Krafa mótmælenda snýst helst um eitt og eitt nafn eða mannaskipti sem slík. Ég hef hlustað og hlustað en heyri ekki kröfu um einhverja sérstaka stefnu í peningamálum. Krafan er um mannabreytingar og velferð skuldugra heimila. Helst er þó að heyra að menn vilji breytta vaxtastefnu svo skuldir heimila og fyrirtækja lækki.

Ekki heyri ég kröfu til varnar lífeyrissjóðum landsmanna gegn spákaupmönnum og fjárfestum sem eiga allt sitt undir því að skuldavafningar viðskiptabanka og lífeyrirssjóða haldi. Hinir ríkustu fjárfestar vilja ekki gefa eftir og því mun það kosta landsmenn óheyrilegan skaða í töpuðum lífeyri í framtíðinni. Græðgin er enn allsráðandi, græðgi í valdastóla og græðgi í peningagróða.

Umbæturnar í stjórn landsins snúast of mikið um tiltekna menn. Of lítið um innihald. Það ætti að setja "low profile" fólk í allar þessar stöður og "no nonsense" vinnusama einstaklinga. Best ef þeir hafa hvorki átt nokkurn hlut nokkurn tíma í nokkru fjármálafyrirtæki og best ef þeir hafa aldrei komið nálægt bankastarfsemi.

Af hverju ekki að setja fólk í stjórnir FME og Seðlabanka og ríkisbankana sem hefur einfaldlega gott brjóstvit, heilbrigða skynsemi og æðri gildi fyrir sjónum?


Sannarlega eitt mikilvægasta verkefni þjóðarinnar

Gott að vita af Björgu í þessum hugleiðingum. En það er þörf á því að kjósa til stjórnlagaþingsins fólk utan stjórnmálaflokkanna en ekki þá sem hafa setið í hinni óljósu aðgreiningu framkvæmda- og löggjafarvalds. Mikil nauðsyn af upptöku þjóðaratkvæðagreiðslu í sem flestum málum. Íslendingar eru fúsir að gefa álit sitt í skoðanakönnunum og kosningaþátttaka er góð. Við erum virk og viljum láta að okkur kveða oftar en á fjögurra ára fresti.
mbl.is Björg kaus að vinna að nýrri stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stendur vaktina svikalaust

Það er ekki annað að sjá en Geir hafi staðið vaktina svikalaust allt til þessa frá því í október. Ekki get ég óskað nokkrum manni að hafa einmitt verið á vakt í haust þegar bankarnir hrundu og ofvaxin spilaborg fjármálaheimsins fauk um koll.

Merkilegt að við skulum þrátt fyrir allt hafa í okkur og á og ekki annað að sjá en ljósin logi og straumur á flest öllum kerfum samfélagsins, fiskur berst að landi og skepnur á húsi. Ekki viðlit að fá iðnaðarmann. Æsingurinn er á köflum aðeins of mikill, en gremja er skiljanleg hjá þeim sem hafa glatað miklu fé eða eru að tapa húsunum vegna óhugnanlegra lánakjara. Ekki vildi ég hafa þá við stjórnvölin sem espa og æpa, meira að segja af ræðustól Alþings.

Getur verið að gremjan sé að hluta vegna þess að fólk hafði sett traust sitt á peninga og eignir en ekki eitthvað sem varir?


mbl.is Margvíslegar aðgerðir stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Weimar?

Ég hugsa oftar og oftar um upplausnarástand Weimar-lýðveldisins. Veit ekki alveg af hverju þessi hugrenningartengsl eru að styrkjast, en styð það heilshugar að Alþingishúsið okkar verði varið í ljósi upphafsins að þeim hörmulega kafla í sögu Þýskalands. Guð forði okkur frá því að næst verði farið að kalla eftir sterkum leiðtoga sem virðir ekki stjórnskipan landsins!!!

En svo spyr ég hvort fólk hafi virkilega verið að mótmæla því að þingfundir löggjafarsamkomu lýðveldisins hafi verið að hefjast að nýju eftir áramót. Það mætti ætla af fréttinni. Getur verið að mótmælum, sem í eðli sínu eru bæði skiljanleg vegna þrenginga þjóðarinnar og í sjálfu sér æskilegur tjáningarmáti almennings í landinu, sé leynt eða ljóst beint gegn lýðræðislegu skipulagi? Það var ekki að heyra á grófu orðfæri og stjórnleysi á þinginu að virðing væri meðal allra þingmanna fyrir sjálfu Alþingi.

Það er líka mjög mikið umhugsunarefni hvað það er breiður hópur fólks sem kemur til þátttöku í mótmælunum. Og tilefni fólks virðist líka vera sprottið af ólíkum rótum frá einum til annars. Í því öllu er einmitt fróðlegt að heyra viðtöl þar sem þátttakendur eru spurðir um ástæðu þess að það sækir mótmælafundina.


mbl.is Svæði við þinghúsið rýmt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Sighvatsson eyjamaður ársins 2008

Til hamingju Bjarni fyrir sköruglega framgöngu í öllum þínum baráttumálum. Hafðu heila þökk fyrir ómetanlegt framlag þitt og þinna til sjúkrahússins, en það eru ekki bara gjafir uppá tugi milljóna króna í sneiðmyndatækið og sjúkrarúmin og öll hin tækin. Það er ómetanlegt að við skulum vera svona vel búin tækjum - það fækkar ferðum sjúkra til borgarinnar og það kemur sér afar vel fyrir mjög marga.

Megi sá baráttuandi sem fram kom í ræðu þinni og orðum þínum til heilbrigðisráðherra verða til að styrkja og þjappa saman þeim sem vilja efla og styrkja okkar eigið sjúkrahús. Það væri enn fokhelt ef ekki nyti gjafmildi eyjamanna, líknarfélaga og manna eins og þín. Það fyrirkomulag sem er í dag er beinlínis að bjarga mannslífum og stuðlar alla daga að heill samfélagsins. Guð launi það.


Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband