Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Enginn sparnaður aukinn kostnaður

Hugmyndirnar um þessa sameiningu eru ótrúlega vitlausar. Allir sjá að sameining yfir mikil lönd og sjó fela í sér stóraukinn kostnað og því engann sparnað. Í gegnum tíðna hafa litlu sjúkrahúseiningarnar komið best út í rekstri. Það er skömm að sjá hvernig svona vinnubrögð nísta inn að hjarta okkar sem viljum frekar efla heilbrigðisþjónustu okkar á hverjum stað rétt eins og við hér í Vestmannaeyjum, m.a. með ómældum gjöfum á tækjum og aðstöðu og uppbyggingu þekkingar og færni lækna og hjúkrunarfólks.

Við viljum hafa þjónustuna þar sem fólkið er en ekki neyða fólk til að þjóna stofnuninni af því hún nennir ekki að halda úti fleiri skurðstofum en færri eða ómaka sérfræðinga sína til að ferðast til fólksins þangað sem þeir eru ekki í föstum stöðum. Mest af þessari aðstöðu hefur verið komið upp á stöðunum til að létta af fólki óþarfa ferðalögum í veikindum sínum. 

Það er heimskulegt að ætla að búa til einhverja stóra svífandi yfirstjórn með fólki sem enginn þekkir á götu en þiggur forstjóralaun fyrir ekki neitt einhvers staðar í Grafarvoginum. Eftir sitja undir-yfirmenn sem ráða litlu en vinna alla framkvæmdasýsluna á lægri launum locali.

Guðlaugur Þór segir að öllum steinum verði umturnað, rétt eins og það sé nú heppilegt í heilbrigðiskerfi almennings sem hefur einmitt verið frekar valt á fótunum að undanförnu. Ef umturna á öllum steinum í þessu kerfi væri fróðlegt að byrja á því að sjá réttar tölur yfir kostnaðinn sem hefur hlotist af sameiningu Landsspítala og Borgarspítala á sínum tíma. Komið með það fram í dagsljósið og þá sjá allir að það hefur hvorki haft í för með sér sparnað né hagræðingu.

 


mbl.is Sameining stofnana mætir harðri andstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dr. Rowan Williams af Kantaraborg með skýra varnaðarræðu

Ég leyfi mér að vekja athygli ykkar á frétt á Vísir.is um merkilegan pistil erkibiskupsins af Kantaraborg, en hann er yfirmaður bresku biskupakirkjunnar og fremstur meðal jafningja í þeirri kirkjudeild um allan heim.

"Erkibiskupinn af Kantaraborg líkir efnahagsstjórn Gordons Brown við þriðja ríki Adolfs Hitler.

Doktor Rowan Williams erkibiskup er ómyrkur í máli þegar hann skrifar í breska blaðið Telegraph að margt sé líkt með stjórnarháttum forsætisráðherrans Gordons Brown og því hvernig Hitler hélt um stjórnartauma síns veldis á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Williams varar við því að stefna Browns taki ekkert tillit til þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu og nefnir þar eldri borgara og þá sem misst hafa atvinnuna. Biskupinn hvetur til þess að varlega verði stigið til jarðar við að skuldsetja breskan almenning en eftir hrun bankakerfisins krafðist hann aukins eftirlits með fjármálafyrirtækjum og benti á að Karl Marx hefði haft rétt fyrir sér þegar hann greindi hættur auðvaldsstefnunnar.

Í grein sinni minnir biskup enn fremur á að í Þýskalandi nasismans hafi skilyrðislaus hlýðni við kerfi snúist upp í martröð. Hann klykkir út með því að minnast guðfræðingsins Karls Barth sem Hitler gerði útlægan en Barth sagði höfuðkost kristninnar þann að fylgjendur hennar gætu lifað utan pólitískra lögmála og kennisetninga."

Gæti eitthvað af þessu átt við hér á landi? Getur gremja íslensks almennings verið sprottin af því ranglæti sem biskupinn bendir á og felst í því að viðhalda auðvaldsstefnu og efnishyggju á kostnað öryrkja, aldraðra og atvinnulausra - nú eða skuldsettra íbúðaeigenda sem sæta auk þess kjaraskerðingu í aðgerðum stjórnvalda?


Lækkun sóknargjalda og trúfélagsgjalda dapurleg

Það er ljóst að niðurskurður á fjárlögum 2009 er víða mikill. Ljótt er að heyra af dæmum um niðurskurð í velferðarmálum, framlögum til heilbrigðismála og t.d. til vímuvarna hjá SÁÁ. Það er líka verið að leggja til lækkun á framlagi til háskóla og til annarra skóla á sama tíma og þeir ættu að vera efldir til að taka við fólki til náms í stað fjölgunar á atvinnuleysisbótum.

Sóknargjöldin er líka skert um töluverðar upphæðir og þar kemur skerðingin jafnt niður á þjóðkirkjunni og trúfélögum í landinu. Sóknargjöldin hefðu átt að hækka um ríflega 12% vegna hækkunar á meðaltekjuskatti einstaklinga í landinu milli áranna 2007 - 2008. Þessi hækkun verður ekki að veruleika og þótt mörgum hefði þótt það nógu mikil skerðing er skerðingin meiri í fjárlögum 2009. Það er gengið lengra fyrir það sem virðist vera einkennilegur slumpreikningur. Sóknargjaldið fyrir hvern mann 16 ára og eldri var 872 á árinu 2008. Nú á meira að segja að lækka það niður í 855 kr. á mann á mánuði í kirkjusókn eða öðru trúfélagi. Raunlækkunin er því ýkt einsog einhver myndi segja og mun hafa varanleg áhrif á gjaldið um ókomin ár.

Það þýðir einnig lækkun til Háskóla Íslands en þangað hafa jafngildi sóknargjalda þeirra runnið sem standa utan trúfélaga, samkvæmt stjórnarskránni. Og verst er að þessi gjöld munu sannarlega lækka árið 2010 því varla hækkar meðaltekjuskattur einstaklinga milli áranna 2008 og 2009. Skerðing sóknargjalda árið 2009 mun svo hafa varanleg áhrif á þann stofn sem verðbætur komandi ára reiknast ofaná ár frá ári.

Þá er gert ráð fyrir lækkun á launum presta en það er sjálfsagt mál að taka því ef launalækkun verður almenn á Íslandi. Við erum þó lægst launaðir af þeim sem heyra undir kjararáð og ef ég les frumvarið um lagabreytingu fyrir kjararáð rétt er fyrst og fremst gert ráð fyrir lækkun launa til ráðherra og alþingismanna. Nóg yrði lækkunin og þátttaka presta í lækkunarferlinu með því að laun þeirra yrðu fryst árið 2009. Það yrði bærileg raunlækkun og verðugt persónulegt framlag.

Allar þessar lækkanir til samfélagslegra mála og velferðarmála eru nú á dagskrá til að ná niður halla ríkissjóðs og kostnaði við lántöku og skakkaföll þjóðarinnar í kreppu fjármálaheimsins. Guð láti gott á vita og blessi þessi ráð, sem gripið er til, en aðeins með hans blessun getum við átt von um að rétta úr kútnum í framtíðinni.


Ekki mönnum sæmandi

Ljótt er að heyra af slíkum aðförum. Þetta er ekki gott og minnir á skríl sem vill ljúka málum án dóms og laga. Vonandi fer fólk að sjá að sér varðandi slíka framkomu enda varpar þetta rýrð á álit almennings og mannvirðinguna sem slíka.

Ósköp er stutt síðan allur fjöldinn dáði manninn og taldi hann til áhrifamestu manna þjóðarinnar. Megi hún núna virða hann fyrir það.


mbl.is Veist að Jóni Ásgeiri í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kallar á iðrun og yfirbót

Meining þessara mótmælenda er í raun ótrúlega nálægt eðli aðventunnar. Á aðventunni er kallað eftir iðrun og yfirbót, að fólk sjái að sér og vinni raunveruleg yfirbótarverk. Aðfarirnar eru reyndar hrikalegar þótt þær séu á margan hátt skiljanlegar.

Ef þessi hugsun mín reynist gáfuleg er líka jafn líklegt að við njótum þess enn frekar en áður að ganga inn í helgi jólanna eftir viku. Spurning hvort ekki sé bara andleg heilsubót í því að hreinsa svona huga sinn. 

En ég minni alla á helgi mannsins. Hinn meinti afbrotamaður er meira að segja helgur í sjálfu manngildinu vegna þess að hann er skapaður í mynd Guðs þrátt fyrir allt. Árás á bankamanninn Tryggva Jónsson og árásin Jón Ásgeir á götu úti er t.d. jafn óásættanleg og aðför að nokkrum manni öðrum.

Samkvæmt þessari hugsun eiga mótmælendurnir sjálfir eftir að leita iðrunar í eigin lífi jafn einbeitt og þeir deila á aðra. Það er væntanlega verkefni þessarar þjóðar í heild.


mbl.is Ruddust inn í Landsbankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirstrikar vanmátt fjórða valdsins - gagnrýnin reynist sönn

Það er eiginlega of freistandi að hnjóða í Reyni, mann sem hefur ekki sýnt mikla vægð í sínum blaðamannsferli. Maður fer að velta fyrir sér ýmsu í hans blaðamennsku, smyglinu og fleiru. Það ætla ég því ekki að gera enda gæti einhver farið að halda að hann hafi e.t.v. einhvern tíma þjarmað að mér. Eftir minni bestu vitund er það nú ekki þótt hann hafi tvisvar eða þrisvar skrifað upp nafnið mitt í tengslum við fréttir af öðru fólki.

Hins vegar verður ekki framhjá því horft að fjórða valdið í samfélaginu býður mikinn hnekki ef Reynir Traustason situr áfram sem ritstjóri. Fjölmiðlar hafa sannarlega fengið að heyra það undanfarnar vikur að þeir hafi brugðist hlutverki sínu - einmitt vegna eignahalds og hagsmunatengsla við ráðandi menn í fjármálaheiminum.

Slæmt að þessi gagnrýni á fjölmiðla reynist sönn. Það er líklega stærsta fréttin í þessu. Með hvaða broddi ætla ærlegir blaðamenn að stinga á úldin kýli í fjármálaheiminum eða t.d. hjá stjórnvöldum eftir þetta?


mbl.is Aldrei aftur mun óttinn stýra fréttaflutningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð Jóhönnu ráðherra sýna skilning hennar

Það er með hryllingi sem ég horfi upp á vaxandi ólgu og ákafa í framgöngu mótmælenda í Reykjavík. Atgangurinn við ráðherrabústaðinn um daginn var í raun mjög sterk og alvarleg áminning um hugarástand hjá hópi fólks. Ekki veit ég neitt um það hversu vel þessi mótmælaaðferð fellur að hugmyndum þorra landsmanna. Ekki veit ég hvort ég get yfirhöfuð dæmt um það hvort það er í lagi að koma svona fram eða hvort það sé réttlætanlegt að fólk sýni andúð sína í garð ríkisstjórnar með þessum hætti eða ekki.

Það sem situr eftir í huga mér fram á þennan dag, daginn eftir, eru viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra. Af viðbrögðum ráðherra sem sýnd voru í sjónvarpi, vitnuðu viðbrögð Jóhönnu um einstakan skilning á aðstæðum. Ef ég man þetta rétt: "Þetta er alveg ferlegt ástand og það fer stöðugt versnandi." Henni leið illa yfir þessu ástandi og átti erfitt með að horfa upp á það versna og átökin að harðna með hverjum deginum.

Það er ef til vill ekki lengur sá mikli fjöldi þátttakenda í mótmælaaðgerðunum sem farið hafa fram á Austurvelli og á fundunum í Háskólabíói og víðar. Ástandið er að versna af því að það verður stöðugt meira áberandi hversu margir ganga nú harkalega fram. Líka eins og í Landsbankanum í dag. Það er engu líkara en sá hópur stækki sem líður þannig að það sé engu að tapa. Það er hrikalegt ástand ef stöðugt fleiri Íslendingum líður þannig eða finnst þeir vera komnir í þvílíkt þrot. Í því er mikið niðurbrot þegar þjóðin þarf á því að halda að sjá ljósa von, standa saman og hefja sig upp úr erfiðu efnahagsástandi.  


Samhjálp og sjálfshjálp, en ekki sterkan leiðtoga

Þetta er næstum því allt satt og rétt hjá Möller, nema þetta með sterkan leiðtoga. Það er eitt það hættulegasta fyrirbæri sem til er þegar efnahagslíf lítillar lýðræðisþjóðar stendur svona höllum fæti. Það fór ekki vel hjá Þjóðverjum að kalla eftir sterkum leiðtoga þegar hún var orðinn dauðleið á glundroða Weimar-lýðveldisins.

Við þurfum hins vegar að fara að þjappa okkur saman um lausnir. Það er örugglega það sem Möllerinn er að segja. Fjölmiðlar eru alltof helteknir af uppgjöfinni. Nú þyrftum við helst að geta flýtt jólunum og kalla fram það jákvæða í manninum. Það er löngu orðið tímabært að beina sjónum að manngildinu, kærleikanum og sáttargjörðinni.

Það er löngu orðið tímabært að sefa reiði og ásökun sem beinist bara eitthvað út í loftið. Réttlát reiði beinist að einhverju tilteknu óréttlæti eða broti. Réttmæt ásökun byggist á tiltekinni sekt. Í því ástandi sem kemur upp með óðagotinu og almennri reiði fólks út í "ástandið", að því er virðist á nýliðnum útifundum og árásum á lögreglustöð og Seðlabanka, verður ekki ljóst hvers eðlis þessi reiði er eða ásökun. Krafan um afsagnir "þeirra allra", ríkisstjórnar og seðlabankastjóra o.s.frv., er í mínum huga dæmi um óaðgreinanlega reiði og ásökun. Aðgreinanleg og réttlát reiði myndi hins vegar vera beint gegn tilteknu atviki eða sakarefni, i.e. aðgreindri sök til afsagnar.

Ótilgreind almenn reiði dregur ekki bara þann niður sem er haldinn slíkri reiði. Hún verður á endanum eins og svarthol sem dregur alla aðra með í hyldýpið. Hópniðurbrot er þekkt fyrirbæri, því miður. Leiðin út úr þessum ógöngum er lausnarmiðuð og þar þarf þessi þjóð nýja sjálfshjálparbók. Þá list kann þessi þjóð mæta vel af mörgum hörðum tímabilum í sögunni. Sjálfshjálpin og samhjálpin eru þær leiðarstjörnur sem við þurfum einmitt núna til að fara eftir, en bara ekki sterkan leiðtoga!


mbl.is Íslendingar einblína á vandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt að byrja fyrst að lyfta krónunni

Þessi frétt vitnar um viturlega afstöðu forsætisráðherra í umræðunni um kronuna, sem annars einkennist af upphrópunum og óðagoti. Við höfum enga samningsstöðu eða stöðu til samanburðar krónunnar við nokkra aðra gjaldmiðla meðan hún er svona sokkin. Þá fyrst yrði eignarýrnun ofboðsleg ef við festum gengi hennar í þessari stöðu með því að ganga til skipta við annan gjaldmiðil.

Kónan er örugglega of lágt skráð. Við eigum þá fyrst að hugsa um skipti yfir í annan gjaldmiðil þegar hún hressist. Ekki kaupi ég dollar núna. Ekki kaupi ég evru núna. Þá fáum við of lítið fyrir laun og eignir. Þannig er allavega hagfræði mín, en þið leiðréttið mig, sem hrópið hvað hæst gegn eigin krónu. 


mbl.is Allt opið í gjaldeyrismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður er verkamaður launa sinna

Þetta ritningarvers er í það minnsta þau orð Krists sem koma fyrst upp í huga minn við þessa frétt. Gott að sjá þar líka réttarbót.

Réttlæti líðandi stundar er að lækka laun sem eru yfir milljón á mánuði og hækka þá sem vinna hörðum höndum.


mbl.is Samið um 20 þúsund króna launahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband