Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Flotholta-vísindi á fljótandi krónu

Nú er um að gera að draga bara djúpt andann áður en við stingum okkur útí. Fer maður ekki alltaf fyrst á kaf sem stingur sér til sunds? Svo hef ég fulla trú á því að við komum öll uppúr þessu kafi eins og korktappi og skjótumst áfram að settu marki.

Þetta eru kannski bara flotholta-vísindi í hagfræðinni fyrir fljótandi gjaldmiðilinn okkar, blessaða litlu krónuna. En ætli hún hafi ekki burði til að koma fljótar uppúr kafi en nokkur annar gjaldmiðill? Það er allavega eðli þessarar litlu "stórustu þjóðar" sem á þessa fallegu mynt með fiskum og eigin skjaldarmerki.

 


mbl.is Gengislækkun stendur stutt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum

Kirkjuþing samþykkti frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum í dag. Til hamingju með það. Verði þetta frumvarp að lögum frá Alþingi verða þau lög til að fullkomna þau þáttaskil sem urðu með setningu laganna um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997. Það stóð alltaf til að þau yrðu endurskoðuð eftir tíu ár frá setningu svo hér er á ferðinni tímabær lagasetning. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur verið hvetjandi í þessu máli og leggur vonandi frumvarpið fram sem fyrst. Hann á þakkir skilið fyrir áhuga sinn á kirkjumálum og elju, hjá honum er orðin mikil þekking og skilningur á þjóðkirkjunni.

Hér er gengið mun lengra í átt að rammalöggjöf þótt fyrsta og merkasta skrefið hafi verið tekið fyrir rúmum áratug. Nú er sú kirkjuskipan fest í sessi, sjálfstæði þjóðkirkjunnar er aukið til muna og allar mótsagnir eða agnúar væntanlega horfnir, sem voru í frumrauninni. Hér er í fyrsta sinn farið svo ofan í saumana á stjórnkerfi kirkjunnar að nær öll hugsanleg úrræði, ábyrgð og vald er komið á hendur þjóðkirkjunni og stofnunum hennar hvað varðar málefni kirkjunnar. Það hefur í fyrsta sinn verið hægt núna eftir að samningarnar voru í höfn varðandi prestsetrin og kirkjueignir árið 2007. Hér er gengið lengra í því að skilgreina skiptingu æðsta valdsins í þjóðkirkjunni og ber þar hæst hina kirkjulegu þrískiptingu á hendi kirkjuþings (löggjafarvaldið), kirkjuráðs (framkvæmdavaldið) og biskups (tilsjónarvaldið). Staða sóknarbarna, þjóðkirkjufólks, er skilgreind, hlutverk grunneiningarinnar í sókninni og kirkjustjórn í héraði, gagnkvæmar skyldur ríkis og kirkju, og staða presta, prófasta og djákna, svo eitthvað sé nefnt.

Það hefur verið heiður að fá að vinna að gerð þessa frumvarps undir formennsku Péturs Kr. Hafstein, kirkjuþingsforseta, og með Bryndísi Helgadóttur, lögfæðingi úr kirkjumálaráðuneytinu. Það var hátíðleg stund að finna samstöðuna á kirkjuþingi við afgreiðslu frumvarpsins. Það hefur verið ánægjulegt að fá að vinna að þessu og fylgja því eftir, fara yfir gagnlegar ábendingar úr ýmsum áttum og sjá verkið síðan ganga upp í samstöðu kirkjuþings. Hafi allir þökk fyrir það sem lögðu hönd á plóginn og horfðu til framtíðar í kirkjunni í skugga efnahagslegra þrenginga þjóðarinnar.

 


Vandi þjóðarinnar endurspeglast í stöðu ráðamanna

Miðað við þessa frétt er rökrétt að álykta að vandi þjóðarinnar endurspeglast í vandanum sem Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnin hafa staðið frammi fyrir um nokkurt skeið.

Seðlabankinn kemur heim með þau skilaboð að við fáum hvergi fyrirgreiðslu með gjaldeyri hjá nágrannaþjóðum okkar vegna stöðu bankakerfisins.

Fjármálaeftirlitið getur ekki átt allskostar við stöðu bankanna því þeir voru í einhvers konar ógnarjafnvægi, þ.e. yfirstærð gagnvart ríkissjóði og tímasprengja sem útlendingar köstuðu á milli sín.

Ríkisstjórnin veit að staðan er alvarlegri en nokkur gat ímyndað sér að yrði í öllu góðæristali efnishyggjunnar og beið fram á elleftu stundu með að grípa inní rekstur þeirra.

Vandinn endurspeglast í þeim aðstæðum sem þessir ráðamenn hafa staðið frammi fyrir en lá í öðru hjá þessari litlu þjóð. Vandinn liggur í stöðunni sem var komin upp í hinu markaðsvædda fjármálakerfi þjóðarinnar og afstöðu alls almennings, i.e. fjármálaskuldbindingum Íslendinga.

Vandi krónunnar er ekki heldur í henni sjálfri, blessaðri, né heldur í sjálfstæði landsins. Vandinn er að fjármálamenn og stjórnmálamenn hafa keppst við að tala hana niður og rægja eigin gjaldmiðil svo jaðrar við landráð.


mbl.is Sameining Seðlabanka og FME góður kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar í heljargreipum Davíðs

Fjölmiðlarnir sýna aftur hvað þeir eru máttlausir gagnvart svona ræðum sem eru yfirfullar af upplýsingum sem ekkert er unnið úr. Í stað þess að endurtaka bara sönginn hans Davíðs ættu þeir núna að vera á fullu að fara yfir skotin hans í allar áttir og greina við hverja hann á eða það sem er meira virði, greina hvert hann er að stefna, hvað ætlar hann sér í næsta leik. Nú vill hann að þeir eyði tíma í "Þúsund milljarða manninn", þriðja manninn í hrakfallasögu Matthildar.

Frá hverju er hann að beina athygli yfirborðskenndrar fjölmiðlunar Íslands? Honum tekst meira að segja að stinga þarna á veikan blett í heiðri blaðamanns og gera hann helst óvígan (svo hann ráðist ekki aftur á hann sjálfan og stöðu hans). Hann hótar að draga aðra með sér með órökstuddum ásökunum í allar áttir.

Sjáið hvernig hann dreilir sök til hægri og vinstri. Sjáið hvernig hann tengir saman fjármálaeftirlitið og eignarhald á fjölmiðlum án tengingar. Hvað var að gerast í höfðinu á honum þarna?

Sjá fjölmiðlamenn ekki að hann ætlar að minnsta kosti að draga forseta Íslands með sér í fallið (ef það verður) vegna gamalla sárinda yfir örlögum fjölmiðlafrumvarpsins? Hver stóð fyrir breytingum á stöðu FME 1998?

Sjáið hvernig hann lætur eftirmann sinn og fyrrum samherja hafa það óþvegið. Ætlar hann greinilega að draga hinn mæta, hófsama og trausta stjórnmálaleiðtoga, Geir Haarde, með sér í fallinu líka. Er það ekki takið sem hann hefur haft á forsætisráðherra á liðnum misserum?

Hvar eru frjálsir og fullveðja fréttaskýrendur og greinendur?

Nú reynir á þolrif fréttamannsins, að hann láti ekki þennan boxara erta sig með slíkum höggum og missi marks á klár sjónarhorn vegna skyndilegrar reiði sem Davíð er að reyna að vekja upp. Nú þýðir ekki að æpa á ráðamanninn og vaða að honum með offorsi eins og fréttafólk hefur stundum orðið uppvíst að á blaðamannafundum að undanförnu. Þá skera þeir sig ekki úr gremju almennings en hvert vindhöggið af öðru fyllir blaðsíður og fréttatíma með óunnum fréttum.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar slæmt að geta ekki þagað

Það er mjög rangt mat að seðlabankastjóri geti talað jafn frjálslega út frá sjálfum sér og sínu hjarta og Davíð gerir nú í annað sinn á stuttum tíma. Tíminn hefur verið erfiður mörgum og það er afar brýnt að einstaklingar í áhrifastöðum, eins og formaður bankastjórnar miðbanka Íslands, hafi vald á sjálfum sér og eigin egói svo þeir geti lifað og talað eftir því hlutverki sem þeir gegna.

Það er næstum því dómgreindarleysi að seðlabankastjóri leggi pólitískt mat á gjörðir og ummæli annarra og enn verra að hann leggur dóm á það sem "einhver annar" hefur sagt eða það sem honum finnst að einhver annar hafi verið að segja eða gefa í skin. Hvaða smjörklípuvísindi eru þetta eiginlega þegar hann segir að "fyrirhyggjuleysi sáðmanna hafi ráði þar miklu"? Þetta er sömu tegundar og þegar hann sló fram "óreiðumönnunum" og ætlaði sjálfsagt að slá einhvern utanundir. Vindhögg.

Þessi tilvitnun í dæmisögu Jesú af sáðmanninum fer ekki manni sem á að leggja fram tölur, rökstutt mat og efnahagslega yfirsýn í þágu þjóðarinnar. Hætti ekki einmitt dr. Benjamín H. J. Eiríksson, einn menntaðist hagfræðingur Seðlabanka Íslands á sínum tíma, eftir að hann fór að tala um hjálp heilags anda? Einhvern tíma var því hvíslað að mér, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti. 


mbl.is Uppskeran eins og sáð var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill léttir og hreinsar andrúmsloftið

Allt annað hefði orðið mjög vandræðalegt fyrir alla aðila. Við þessar aðstæður er best að hreinsa andrúmsloftið í orðsins fyllstu merkingu. Við höfum ekkert með heræfingar að gera yfir landinu okkar hreina og stillta.

Ætli það yrði ekki bara hlegið að þeim sem ætlaði sér að koma og ræna okkur eða yfirtaka gjaldeyrislausa þjóð :)


mbl.is Hætt við loftrýmisgæslu Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindabarátta í háska

Er það ekki orðið alveg ljóst að við eigum ekki að leggja lag okkar við herðnaðarveldin. Valdsúrræði heimsveldanna er allt of háskalegt í höndum manna einsog Gordon Brown. Við erum saklaus börn sem líðum fyrir misbeitingu laganna gegn hryðjuverkjum.

Nú veljum við okkar eigin veg í alþjóðlegum efnum og hættum að styðja beitingu hryðjuverkalaga í hvaða tilvikum sem er. Við skulum skulum rjúfa þennan vítahring ofríkis og fara aldrei aftur á "lista viljugra þjóða." Styðjum frekar mannréttindi.

Vonandi taka stjórnvöld farsælar pólitískar ákvarðanir og afþakka eftirlitsflug Breta hér yfir eins og ráðgert er síðar á þessu ári. Það yrði hlægileg niðurlæging ofan á allt annað.

Hin friðsama þjóð, Ísland, þakkar hins vegar allan almennan velvilja Englendinga þar sem við eigum líka mörg dæmi um allt annað viðhorf, t.d. í Ensku biskupakirkjunni og þeirri lúthersku í Englandi gagnvart söfnuði Íslendinga í London.


mbl.is Gott dæmi um misnotkun laga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóð dagsins: Til batnaðar

Veikt er í spori eitt vesalings barn

sem veraldar láni finnst rúið,

það fellur í gloppur og fýkur á hjarn

og finnur sig vanmegna, búið.

Vart er í heimi þó alltaf svo hart

að ástandið líða skal lengur.

Nú velur þú barnið mitt vel sem þú þarft

og veg þinn til batnaðar gengur. 

Kristján


Því ekki allir fyrrum hluthafarnir?

Hví fá ekki allir fyrrverandi hluthafar í Kaupþingi bankann aftur á sanngjörnu kostnaðarverði. Það yrði til að tryggja þeim aftur aðkomu að rekstrinum og tækifæri til að koma eign sinni aftur til verðmætis og virðisauka. Það þyrfti ekki að vera hátt verð ef slíku réttlæti væri komið til leiðar þar sem það er hagur ríkissjóðs að bankinn verði aftur einkavæddur fyrr en síðar.

Helstu rökin fyrir því að þessir aðilar ættu að eiga þarna einhvern rétt eru þau að bankinn var gríðarlega stórt og mjög vel rekið fyrirtæki sem fór að ósekju í þrot, einkum vegna aðfara örvæntingarfullra breskra ráðherra og ófagmannlegra ummæla seðlabankastjóra okkar.

Og ég tek fram að ég sjálfur hætti að vera hluthafi að Kaupþingi snemma vors 2007!


mbl.is Stefnt að niðurstöðu lífeyrissjóða á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldan veldur einn þá tveir deila - Guð blessi samningamennina

Minni bara á þessa speki um ástæður deilna, en þetta kenndi amma mér ungum. Líklega er það rétt hjá okkar trausta forsætisráðherra að áhlaupið á Kaupþing í Bretlandi varð til að setja annars góðan rekstur og frábært fyrirtæki í uppnám. Megi það komast sem fyrst á flot aftur. Það sem setti áhlaupið af stað var án efa það sem fólst í yfirlýsingum Gordon Brown og Darling. Okkar sök er að hafa ekki unnið nógu vel með þessum mönnum og gert nógu góða grein fyrir stöðu Íslands og íslenskra fyrirtækja í útlöndum. Það er ekki allt á hausnum þótt lausafjárkreppan herði að. Sjáið t.d. Össur hf.

Nú snýst spurningin um það hvernig við ætlum að ná aftur vopnum okkar. Það gerist ekki nema með því að ná eyrum Breta og Hollendinga og svo framvegis. Það gerist ekki með því að tala hér heima við eldhúsborðið. Við náum mestum árangri með því að efla stöðu íslenskra fyrirtækja á hinum erlendu mörkuðum og tala þau upp af sama krafti og landinn talaði niður krónuna. Við náum mestum árangri með því að vinna með öðrum þjóðum í alþjóðlegu átaki til að rétta af fjármálamarkaðinn í heiminum.

Guð blessi þá sem vinna að samstarfssamningunum við Hollendinga og Breta þessa dagana. Guð blessi þá sem sjá þetta mál allt í víðara samhengi en ekki bara sem vanda Íslendinga.


mbl.is Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband