Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hagur allra markaðsþjóðanna að laga stöðu Íslands

Er ekki ljóst að það er öllu samfélagi þjóðanna til góðs að IMF fái að eiga veglega aðkomu að lausn fjármálakreppunnar á Íslandi? Ef við erum það land sem fyrst hefur fallið og verst hefur farið í þessari bankakreppu hljóta ráðamenn í öðrum löndum þróaðra markaða að vera á nálum. Það er mjög trúlega rétt mat að sú mikla aðstoð sem við þurfum ætti að vera stjórnað af Aljóðagjarldeyrissjóðnum með aðkomu Norðmanna, Rússa, Japana og annarra vinveittra ríkja.

Það þarf aðkomu IMF, G7 og bestu grannþjóða líka til að festa gengið á krónunni, en það er forsenda þess að við getum einhvern tíma átt kost á aðild að evru, eða notað gjaldmiðil yfirleitt.

Okkar menn hljóta að sjá það skyldu sína að setja niður þessi gönuhlaup Breta og áhyggjur Hollendinga.


mbl.is Lausn á deilum forsenda IMF-aðstoðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andúðin í garð fjármálagoðanna - endurmat á viðskiptalegu siðferði

Það er alveg ljóst að bankahrunið á eftir að verða til að við endurskoðum algjörlega öll viðmið í viðskiptasiðferði og viðhorfi til þeirra sem leitt hafa þróun fjármálaheimsins undanfarin ár. Í raun hefur allt verið leyfilegt um langa hríð til að ná hámarks vexti og árangri í útþennslu. Fáeinir frægir einstaklingar hafa orðið nokkurs konar goðar á þingi auðlegðarinnar. Leiðandi menn í fjármálaheiminum hafa verið í hæstum metum og þeim hefur liðist hvað sem er - nema kannski öfgafyllstu afmælisveislurnar.

Sú reiði sem kraumar undir núna í garð bankanna er sennilega sprottin af niðurbældri andúð gegn þeim sem hafa haft mestu áhrif og völd í viðskiptalífinu, hvort sem það er með réttu eða ekki. Það er nokkurs konar andúð í garð fjármálagoða. Hún getur ekki með réttu beinst gegn almennum bankastarfsmanni. Hún getur ekki beinst gegn peningum eða hlutabréfamarkaði sem slíkum og heldur ekki beinlínis gegn hvers kyns markaðshyggju.

Hin réttláta reiði hlýtur að beinast að því opinbera valdabrölti í átt til stöðugt meiri viðskiptalegra áhrifa hjá okkar litlu þjóð í stórum heimi alþjóðlegra viðskipta. Reiðin er sjálfsagt líka sprottin af særðri réttlætiskennd almennings vegna margra dæma af óheyrilegri misskiptingu launa. Á það hefur verið bent að mánaðarlaun fáeinna hafa verið á við mörg árslaun almennings.

Nú er líka að koma í ljós að það stenst ekki nein siðferðileg viðmið að hafa ætlað að ávaxta eftirlaunasjóði landsmanna nema að litlu marki með hlutabréfum og kaupum í verðbréfasjóðum. Hér gæti einnig verið eðlileg ástæða fyrir reiði sem enn á eftir að koma fram.

Í botni þessara hugleiðinga hlýtur að koma hvatning til endurmats. Það heitir á biblíulegu máli iðrun og afturhvarf. Ástandið er svo altækt í íslensku þjóðlífi (og reyndar um allan heim) að þessi iðrun og þetta afturhvarf í siðferðilegum efnum þarf að ná til allrar þjóðarinnar en ekki bara þeirra stjórnenda og leiðtoga sem athyglin beinist að núna í þessum hremmingum. Það er þörf á almennu endurmati á því viðskiptasiðferði sem við höfum látið viðgangast lengi.


Blessunaróskir til bankamanna og þakkir

Það líður ekki sá dagpartur að ég hugsi ekki til fólksins sem þjónað hefur okkur í bönkunum og annars staðar í fjármálaheiminum. Það er að lyfta Grettistaki á hverjum degi þessar vikurnar og kemur síðan heim og býr þá við sömu kjör og við hin. Það er ekki annað að sjá en flest allir landsmenn hafi orðið fyrir verulegum áhrifum af sviptingunum í bankaheiminum og viðskiptalífinu almennt.

Þessi brotsjór hefur sannarlega laskað bankaheiminn og þar um borð eru bankastarfsmenn og viðskiptavinir þeirra. Samt eru það bankamenn og fjármálasérfræðingar sem við treystum á að standi sig og leiti úrræða. Og við biðjum bankamenn líka að róa okkur og gæta okkar hagsmuna. Það er eins gott að þau séu vel sjóuð og vel búin. Annar væru þau eins og björgunarsveitarmaður sem kæmi illa klæddur út í ofviðrið. Hann er ekki til margra hluta.

Herra Karl biskup hefur lagt áherslu á boðskapinn um trú, von og kærleika. Í mínum huga gætum við snúið þessu þannig að við þurfum að hafa trú á bata, von um meira ljós og kærleika til náungans til að við komust þangað sem við vonum að við náum.


Gat ekki farið öðruvísi eftir forsetaviðtalið við Davíð

Ég fékk hroll þegar ég heyrði yfirlýsingagleði Davíðs Oddssonar í Kastljóssþættinum. Nú hefur framganga hans náð nýjum hæðum í "ég vissi það allan tíman" hugsunargangi. Traustasti bankinn okkar gat ekki einu sinni haldið velli í þessum ólgusjó með slík vinnubrögð. Fór virkilega enginn að ræða við Englendinga? Hvað er þetta með samskiptin við önnur lönd? Það virðast allt of margir lifa í sápukúlu í þessum háu embættum fyrst svona gat farið fyrir banka með allt í skilum.

Bankastarfsmenn, þið eigið þakkir skilið fyrir baráttuna en enginn má við mörgum ómögulegum aðstæðum. Nú held ég að við þurfum öll að biðja Guð að blessa bestasta landið okkar Ísland.

Tek undir tillögu Samfylkingarmanna um mannaskipti í bankastjórn Seðlabankans.


mbl.is FME yfirtekur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir þurfa að líða fyrir þetta skipbrot efnishyggjunnar

Það er ekki annað að sjá en menn séu að vinna gríðarlega vinnu til að bjarga því sem bjargað verður í hremmingunni í bankakreppunni. Nú er skynsamlegast að hafa ekki uppi stór orð eða alhæfa of mikið, en við þurfum sannarlega að meta stöðuna sem upp er komin í efnahagslífi þjóðarinnar og umheimsins.

Þetta á eftir að reynast óskapleg áminning um hverfulleikann og hefur áhrif á afkomu og efnahag mjög margra. Hjá mörgum er þetta stór skellur en snertir alla landsmenn. Við þurfum samt að átta okkur á að þetta eru peningar en hremmingarnar varða ekki líf og heilsutjón. Ég finn til þeim sem hafa sett allt sitt traust á eignir eða efnisleg gæði, því hjá þeim er áfallið mjög mikið. Nú er um að gera að halda ró sinni og skerpa á skilningi okkar á raunverulegum undirstöðum í lífinu, þ.e.a.s. í hverju er hald og hvað er öruggt í lífinu. Þetta er mikið skipsbrot fyrir efnis­hyggjuna, en efnishyggja sem slík hefur verið gríðarlega öflug og áberandi í gildismati fólks. Ekki síst í allri þessari miklu umfjöllun um verðmæti, eignir og umsvif. Það eykur á áfallið hvað þetta virðist hafa skipt fólk miklu og hvað fjármálaumræða hefur verið þessari þjóð hugleikin undanfarin ár.

Það er ekki ólíklegt að fólk eigi eftir leita til kirkjunnar og ýmissa ráðgjafa en það er alveg ljóst að áhyggjur fólks eru margvíslegar. Sumir eru að sjá stórar eignir sínar gufa upp, þessi þróun hefur áhrif á rekstur fyrirtækja og svo eru það þeir sem eru skuldugir. Verðtryggð lán hafa verið að vaxa og alveg sérstaklega lán í erlendri mynt. Ætli það reyni ekki á alla þætti samfé­l­agsins og komi bæði fram strax og seinna hjá nær öllum landsmönnum. Ég tek undir það sem ráðherrar ríkisstjórnar hafa sagt. Mikilvægast af öllu er að standa vörð um fjölskylduna, skuldastöðu heimila og bjarga húsnæði fólksins í landinu. Það þarf að gæta að almenn­ingi, innlánum sem útlánum, og sparnaði fjölskyldufólksins. Og svo þarf að muna það líka að láta þetta ekki þrúga heimilislífið og það þarf að vernda bernskuna fyrir öllum þeim bölmóði sem gæti verið eðlilegur fylgifiskur kreppunnar. 

Ég hef sérstakar áhyggjur af bændum vegna skuldsetningar á bújörðum og húsum. Það ætti ekki að vera því við þurfum að leggja áherslu á frumatvinnuveginn í landinu og sjávarútveg.  Þar liggja ótrúleg verðmæti sem hafa aukist aftur að vægi fyrir þjóðina í heild.


Óvissan virðist versti óvinurinn, en fé misjafnlega bundið

Það er ljóst af þessum viðtölum að óvissan fer verst í fólk einsog alltaf, en alveg sértaklega þá sem hafa einmitt verið að tryggja sér öruggari afkomu í framtíðinni. Innlán og útlán eru svolítið annað en verðbréfasjóðir og það væri kostur ef fréttafólk greindi þarna á milli. Í mínum huga hefur alltaf verið erfitt að drífa út fé úr verðbréfasjóðum einn, tveir og þrír. Þeir eru annars eðlis og innistæður í þeim misjafnlega bundnar í venjulegu árferði. Eigum við ekki að minnka tjónið með því að sýna stillingu - og líka fréttafólk!

Það getur leitt til mjög alvarlegrar stöðu í þjóðfélaginu ef grafið er undan tiltrú fólks, því við þrífumst sem samfélag á því að treysta. Ég vil hvetja fólk til að hrapa ekki að niðurstöðu án þess að skoða það vel hvert stefnir í raun og veru. Augnabliks angist er skiljanleg en viðbrögð okkar við ástandinu í fjármálaheiminum geta jafnvel orðið til að auka á vandræðin og tapið.

Vonandi hefur fólk ekki sett of mikið traust á verðbréfin og vonandi hefur enginn talið fé sitt alveg öruggt í slíkum sjóðum eða hlutafé.

Vonandi verður þessi þróun ekki að algjöru skipbroti efnishyggjunnar, því það er nóg að hafa verið minnt óþægilega á það að við eigum ekki að setja traust okkar á efnisleg gæði í heiminum þegar öllu er á botninn hvolft.


mbl.is Reiðir viðskiptavinir Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hver hefur eftirlit með FME?

Guð láti gott á vita, en ég fer strax að sakna réttra eigenda Landsbankans, Björgólfs vinar míns og manngæsku hans.

Nú spyr ég hver hefur eftirlit með eftirlitsstofnuninni? Verðum við ekki að flýta okkur aðeins hægar í þessum efnum svo þetta verði ekki eftirlitslaust klúður?

Svo sýnist mér það vera "ömurlega íslenskt" að ætla að taka erlendu íbúðalánin yfir til Íbúðalánasjóðs á genginu sem þau voru tekin á. Það fólk er búið að græða á hagstæðum gengismun þangað til í fyrra, en hækkun þessara lána síðasta hálfa annað árið hefur m.a. haft mikil áhrif á vísitöluna sem hækkar lánin okkar hinna sem eiga þau í krónum. Ef íslensku íbúðalánin verða tekin yfir líka hlýtur lánskjaravísitalan að vera leiðrétt á þeim.


mbl.is FME stýrir Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er auðvitað líka alveg rétt, en ...

Hér er frétt úr vísi.is sem var undir fyrirsögninni: Páfinn gagnrýnir fjármálahrunið. Ætli það sé ekki réttara að segja sem svo að hans heilagleiki gagnrýni það á hverju fólkið hafi grundvallað lífsgildi sín. Ég þekki nokkuð marga sem lifa grandvarlega í Guði en hafa líka tekið þátt í viðskiptum og verið virk í fjármálaheiminum. Hvað með hinn trúa og dygga þjón sem ávaxtaði fé húsbónda síns vel?

Benedikt XVI 

"Benedikt páfi sextándi segir að fjármálakreppan í heiminum sé til marks um hve eftirsóknin eftir peningum og veraldlegum frama sé lítils virði . Páfi sagði í dag að peningahrunið og gjaldþrot bankanna sýndi að fólk ætti ekki að byggja líf sitt á peningum heldur ætti grundvöllurinn að vera guðs orð. Páfi sagði í ávarpi á fundi biskupa í Vatíkaninu að þeir sem sæktust eftir frama og peningum byggðu hús sín á sandi."


Geir H. Haarde sterkur leiðtogi á ögurstund

Framganga og röggsemi Geirs H. Haarde ber vott um ábyrgð og umhyggju fyrir almenningi í landinu á einhverjum mestu krepputímum í fjármálaheiminum. Meðan áherslan er öll á innlán og útlán einstaklinga og fyrirtækja og íbúðarlánin í landinu er full ástæða til að hvetja fólk til að flykkjast um þessi úræði. Tíðindi dagsins eru alvarleg en við eigum að sýna samstöðu og æðruleysi þegar mikið reynir á. Það koma síðar tímar þegar hægt verður að þrefa um keisarans skegg. Eru ekki Íslendingar alltaf bestir þegar mest á reynir. Það hef ég reynt í gegnum tíðina og í öllum áföllum og vona að fólk muni almennt eftir því úr hverju við erum gerð.

Og svo niður með stýrivexti og verðbólguna í samstilltu átaki Evrópuþjóðanna allra!!


mbl.is Skuldir bankanna þjóðinni ofviða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá verður grátur og gnístran tanna - prédikun á líðandi stund

Það er alveg heint með eindæmum hvað guðspjallstextar, sem valdir eru fyrir áratugum og jafnvel öldum, geta verið nálægt því að skírskota til atburða líðandi stundar. Hér á landi virðist allt vera á fljúgandi ferð afturábak í því mikla bakslagi sem kom í fjármálamarkaðinn og þeir sem skulda virðast í vondum málum og yfirleitt allir þeir sem sitja nú við óhagstæðan gengismun. Áhrifamenn róa lífróður fyrir þjóðarbúið og leita bjargráða í lausafjárkreppu og hvað það nú heitir sem einkennir kreppuna að þessu sinni. Verði ráð þeirra öll til góðs. Það er einmitt nú sem við þurfum hér í kirkjunni að biðja Guð að gefa ráðamönnum vit og styrk og styrkja drengskapinn í samfélaginu þannig að bálið í bankaheiminum kveiki ekki í neinu á heimilum landsmanna, en blessuð litla krónan okkar hressist og komist á fætur aftur eftir þetta hitakast og svima. Við þekkjum þetta svo mæta vel hér í plássinu okkar í Vestmannaeyjum að þegar ekki aflast herðir að um stundarsakir. Við höfum þurft að laga lífsstílinn að því hvernig vertíðin hefur verið. Sá hæfileiki til aðlögunar á afkomu okkar á einni vertíð til annarrar er einmitt núna hin besta gáfa sem kemur sér vel að vera gæddur. Vonandi hefur þjóðin ekki gleymt því hvernig hún hefur alltaf lifað af sveiflur í efnahagslífinu með þessari ríku aðlögunarhæfni. Þjóðin hefur verið kná í smæð sinni. Hún þarf núna að rifja það upp hvernig það var að rifa seglin í stormi, draga á rá hin hvítu tröf þegar gefur blíðan byr og grípa svo árarnar ella í ládeyðu eða stafalogni. Um allt lítur þetta að því sama setta marki sem ævinlega: að komast í örugga höfn með mannskap allan og afla. Guð gefi að stýrimennirnir kunni á kompás og kunni enn að reikna út fjögurra strika miðun og allt það sem þarf til að leiðrétta driftina. Það er sannarlega þörf á því núna þegar rekið hefur undan og skyggnið ekki upp á margar mílur. Það er þó aldrei svo með skyggnið, eins og einn góður vinur minn, nýlega látinn sagði, að skyggnið var svo slæmt að hann mældi það bara í lengdinni á kústskaftinu þar sem hann sópaði vongóður stéttina sína í norðanhríð.            Hér gildir líka að tala ekki niður lífsafkomuna, en það virðist sem við því hafi legið á köflum í umræðunni um gjaldmiðilinn okkar. Í heimsstyrjöldinni síðari sögðu Bretar: "loose lips sink ships" eða í lauslegri þýðingu: "óvarleg orð sökkva skipum." Sannarlega hafa orð áhrif. Þeir sem tala þurfa því að gæta þess að orð og stíll hafa á Íslandi ætíð verið beittasta vopn sem brugðið hefur verið á loft í sögu þessarar herlausu þjóðar.En það þarf ekki að seilast um hurð til lokunnar, (eða eins og unga fólkið myndi orða það í dag: Það eru nú engin geimvísindi) að Orð Guðs er öflugt og lifandi, lífgefandi og viðeigandi, en hittir í mark einmitt á okkar dögum líkt. Þannig hefur það verið alla tíð frá því að Guð tók að tala fyrir munn spámannanna og æ síðan guðspjallamennirnir tóku að greina frá orðum Jesú Krists og gjörðum hér á jörðu. En hér kastar alveg kólfunum (eða eins og unga fólkið myndi segja: Þetta hringir nú einhverjum bjöllum) að lesa frá altarinu guðspjall sem er hreinræktað guðspjall um hinn efsta dag og dóm Guðs yfir skeytingarlausri kynslóð sem ekki sinnir kalli Drottins. Í dag er okkur ætlað, samkvæmt textaröð kirkjunnar að lesa dómsdagsboðskap. Og við verðum líklega að segja eins og einn góður Ólafur Ragnar á Dagvaktinni: "Já, Sæll!"             Það verður grátur og gnístran tanna, segir konungurinn í þessari dæmisögu, sem er konungur einn er gerði brúðkaup sonar síns. Hér er um margt líkt með kónginum og um himnaríki, að hingað sendi Guð, faðir, son sinn til að leiða þá þjóð er hann hafði löngu fyrr útvalið, en fæstir af þeirri þjóð vildu við hann kannast, sem elskað hafði þau frá fyrstu bernsku og uppruna þessarar tilteknu þjóðar. Oft er komu Krists líkt við komu brúðgumans og oftar en ekki er brúðurinn Jerúsalem, helgistaður hans sjálfs. Í þeim líkingum er borgin helga helgur staður þeirra væntinga að senn komi Messías að frelsa þessa þjóð og leiða hana til hásætis og þið þekkið þessar líkingar frá hirðlífinu í hinum gömlu konungsríkjum, annað hvort af mannkynssögunni eða þá úr ævintýrum. Og boðsgestirnir eru margir og allir eiga að koma skartklæddir og í sínu fínasta pússi. Það er líkingin um að við eigum ekki að hundsa boðið til brúðkaups heldur leggja okkur fram og sýna okkar fínustu hlið, heil og óskipt í athygli og lotningu fyrir hinu heilaga. Það er í því ljósi eðlilegt að konungurinn lætur þá dæma sig sjálfa sem þóttust ætla að koma en komu svo ekki, en kasta út nokkrum sem voru mættir á staðinn en ekki nema með hálfum huga, ekki í sínu fínasta pússi, með hliðsjón af þessu merka tilefni á ævi brúðar og brúðguma. Merking þessarar líkingar er margslungin og nægir hér að nefna það augljósa. Meðal þeirra sem Drottinn vildi fyrst af öllu höfða til, þeirra sem hann hafði alið önn fyrir lengir og unni það mikið að hann vildi hafa í salnum á þessari hátíðarstundu reyndust fæstir þeirra verðugir. Og meðal þeirra sem hann síðar opnaði veislusalinn fyrir leyndust þeir sem voru óhæfir. Í fyrra tilfellinu voru margir sljógir gagnvart boði Drottins en í því seinna lentu nokkrir í úrkastinu. Er það ekki satt að Jesús átti það til að setjast til borðs með syndugum og samneyta þeim og varði hann ekki þá sem voru á götu úti og höfðu jafnvel ekki þótt boðlegir inn í hallir æðstuprestanna og jafnvel ekki í musteri Guðs, föður, á háaklettinum í Jerúsalem? Hann sagði einmitt við það tilefni að hann væri ekki kominn til að lækna heilbrigða heldur hina sjúku. Þess vegna veigraði hann sér ekki við að eiga orðastað við bersynduga og útskúfaða og hina sjúku og þá sem voru af annarri trú og þjóðflokki. Hann braut þau viðmið upp og snart hina ósnertanlegu. Það gerði hann vissulega. Og þess vegna sjáum við að elska hans og manngæska er langt fyrir ofan okkar viðmiðunarmörk hvað varðar skilgreiningu á náungakærleika. Það er einmitt þess vegna sem við skulum ekki láta það hvarfla að okkur að hann yfirgefi okkur þegar á reynir og jafnvel þótt við höfum klúðrað einhverju og jafnvel þótt við höldum að við höfum fyrirgert allri von um fyrirgefningu. Hann vill taka frá okkur eftirsjá og ásökun og harma. Ef það hendir núna í þessari þrúgandi þjóðmálaumræðu eða persónulega, er alveg ljóst, af boðskap Jesú Krists að dæma, að hann býður þér til brúðkaups og veislu og mikilla hátíðarhalda í þeim fögnuði sem einkennir komu guðsríkisins.Margt er í nútíðinni sem minnir á þetta en það er þó einnig ljóst af guðspjallstexta þessa Drottins dags 5. október anno Domini 2008 að enn er úrslitastundin eftir. Enn á eftir að koma í ljós hvað gerist í brúðkaupsveislunni þegar sólin rennur hinn efsta dag og játning brúðar og brúðguma fer að snúast um algjöran samruna á hjartalagi og vilja og huga og mætti. Þá varar þessi boðskapur við því að geti orðið grátur og gnístran tanna. Verður það sjálfsagt  aðallega vegna ranghugmynda mannsins eða vegna þess að maðurinn hefur sett traust sitt á allt annað en Guð og fyrirheit hans, sem fela þó m.a. í sér vonina um eilíft líf. Þegar sá dagur rennur mun allt vera á hendi Guðs á endanum. Það er því óhætt að leggja allt í hendur honum nú þegar, líkt og áður og eins og það verður um alla framtíð. Og þið munið eftir prédikaranum sem flutti þessa líka þrumandi ræðu um gnístran tanna, en þó tókst konu einni aldinni að kalla framí utan úr kirkjunni: "Hvað með hina tannlausu?" Honum varð ekki orðvant, enda andans maður og mikill trúmaður, en hrópaði djúpri röddu á móti: "Verið ekki áhyggjufull! Tönnum verður útbýtt!"Þegar öllu fleygir svo hratt fram og allt er á þjótanda streymi er mikilvægt að menn setji traust sitt á Drottinn alsherjar. Hver annar ætti að hafa ráð á öllu? Hver annar veitir líkn með hverri þraut? Hver annar er hinn sami í dag og í gær og um aldir? Það er aðeins einn Drottinn og við biðjum þess að menn snúi sér til hans, ekki bara af því að illa árar allt í einu í þessu litla ríki vellystinganna, heldur vegna þess að við eigum alla daga að setja traust okkar á hann. Líka þegar hann styrkti bein okkar á góðum dögum. Líka þegar hann reisti okkur upp fallin. Líka núna þegar þörf er á því að rétta af misvísun áttavitans í efnahagslegu tilliti. Fyrr en varir munum við aftur lifa í landinu sem flýtur í mjólk og hunangi. Fyrr en síðar ættum við því að beina sjónum okkar í þá átt sem hjálpin er vís, en það er ekki í hverfulli hyllingu þessa jarðneska lífs. Þau gæði, hversu mikið sem skartið er, verða ekki tekin með yfir til hins eilífa. Þessi þjóð þarf heldur betur að taka sig saman í andlitinu og fara að endurmeta það á hvað hún setur traust sitt í raun og veru. Hinir raunverulegu fjársjóðir í mannlegu lífi eru þeir sem sprottnir eru af kærleika og ást, því það var í ást sem brúðkaupið átti að hefjast. Það var í ást brúðgumans á brúði sinni, ást Guðs á manninum, að upphaflega var boðið til brúðkaups. Það byggðist því allt á þessum kærleika, sem er takmarkalaus ást og takmarkalaus fyrirgefning og þolinmæði og umburðarlyndi. Umfram allt er þessi kærleikur þó hin takmarkalausa trú á hið góða sem ætti að endurspeglast í öllu okkar fasi í manngæsku og náungakærleika. Það sjáist einmitt núna þegar tímarnir virðast harðir og menn eru hættir að reyna að vera töff. Nú er ekki tími stórra orða eða tími fyrir þrætulistina. Það gengur ekki að við tölum niður og sökkvum sjálfri þjóðarskútunni með óvarlegum orðum og það dugar ekki að vera ekki viðbúin. Nú gildir að vera viðbúin boði Guðs er kallar okkur af ást til samfundar við sig að fagna sigri lífsins yfir dauða. Forsómum ekki öryggi það sem við eigum í Guði og lífgefandi orði hans.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband