Opnað milli ólíkra heima - virðingunni umturnað

Merkilegt hvernig Frelsaranum tókst að umturna virðingarröðinni með því að stilla barninu upp að fyrirmynd í frásögn Markúsar. Jesús blessar börnin og sjálfur var hann barn þegar vitringarnir lutu honum. Hugleiðing í prédikun minni í Landakirkju í dag á www.landakirkja.is undir prédikun.

Fjárstreymið stöðvast og blóðið frýs í æðum

Það er ef til vill ekki rétt líking að atvinnulífinu blæði út. Er ekki blóðið hreinlega að storkna eða frjósa í botn í æðum íslensks atvinnulífs. Það versta sem hefur verið að gerast undanfarin misseri er stöðvun fjármagns því peningaflæði er eitt helsta einkenni á eðlilegu markaðskerfi eins og ég lærði mína hagfræði. Ég hef það á tilfinningunni að milljarðar króna séu enn undir koddanum hjá fólki. Við sjáum að svimandi háir stýrivextir Seðlabanka halda uppi háu vaxtastigi viðskiptabankanna og stöðva útlán. Rist hefur verið á framvindu lánakeðja erlendis frá og við höldum enn uppá sömu stjórnun peningastefnunnar og var við líði þegar allt var að stöðvast - sömu stefnu og beitt var þegar stöðva átti bankana í útþennslu sinni. Sama peningastefnan stöðvaði þá vissulega og er nú á góðri leið með að stöðva allt atvinnulífið. Afturhaldsstefnan hins gamla stjórnmálamanns er í sjálfu sér að þykkja blóðið í æðum athafnalífsins og kæfa súrefnisstreymi markaðskerfis sem ætti frekar að skokka um frjálst á þroskabraut sinni í átt til aukinnar hagsældar fyrir alla landsmenn.

Það stefnir í mun harðari lendingu en þarf. Og til að gera það enn dramatískara er líka skrúfað fyrir fjármögnun heilbrigðiskerfisins með þursasleggju Guðlaugs Þórs. Það verður þá enginn heldur til að taka við lífvana blóðstorknum restum Íslendingsins.


mbl.is Fyrirtæki hanga í snöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Sighvatsson eyjamaður ársins 2008

Til hamingju Bjarni fyrir sköruglega framgöngu í öllum þínum baráttumálum. Hafðu heila þökk fyrir ómetanlegt framlag þitt og þinna til sjúkrahússins, en það eru ekki bara gjafir uppá tugi milljóna króna í sneiðmyndatækið og sjúkrarúmin og öll hin tækin. Það er ómetanlegt að við skulum vera svona vel búin tækjum - það fækkar ferðum sjúkra til borgarinnar og það kemur sér afar vel fyrir mjög marga.

Megi sá baráttuandi sem fram kom í ræðu þinni og orðum þínum til heilbrigðisráðherra verða til að styrkja og þjappa saman þeim sem vilja efla og styrkja okkar eigið sjúkrahús. Það væri enn fokhelt ef ekki nyti gjafmildi eyjamanna, líknarfélaga og manna eins og þín. Það fyrirkomulag sem er í dag er beinlínis að bjarga mannslífum og stuðlar alla daga að heill samfélagsins. Guð launi það.


Enginn sparnaður aukinn kostnaður

Hugmyndirnar um þessa sameiningu eru ótrúlega vitlausar. Allir sjá að sameining yfir mikil lönd og sjó fela í sér stóraukinn kostnað og því engann sparnað. Í gegnum tíðna hafa litlu sjúkrahúseiningarnar komið best út í rekstri. Það er skömm að sjá hvernig svona vinnubrögð nísta inn að hjarta okkar sem viljum frekar efla heilbrigðisþjónustu okkar á hverjum stað rétt eins og við hér í Vestmannaeyjum, m.a. með ómældum gjöfum á tækjum og aðstöðu og uppbyggingu þekkingar og færni lækna og hjúkrunarfólks.

Við viljum hafa þjónustuna þar sem fólkið er en ekki neyða fólk til að þjóna stofnuninni af því hún nennir ekki að halda úti fleiri skurðstofum en færri eða ómaka sérfræðinga sína til að ferðast til fólksins þangað sem þeir eru ekki í föstum stöðum. Mest af þessari aðstöðu hefur verið komið upp á stöðunum til að létta af fólki óþarfa ferðalögum í veikindum sínum. 

Það er heimskulegt að ætla að búa til einhverja stóra svífandi yfirstjórn með fólki sem enginn þekkir á götu en þiggur forstjóralaun fyrir ekki neitt einhvers staðar í Grafarvoginum. Eftir sitja undir-yfirmenn sem ráða litlu en vinna alla framkvæmdasýsluna á lægri launum locali.

Guðlaugur Þór segir að öllum steinum verði umturnað, rétt eins og það sé nú heppilegt í heilbrigðiskerfi almennings sem hefur einmitt verið frekar valt á fótunum að undanförnu. Ef umturna á öllum steinum í þessu kerfi væri fróðlegt að byrja á því að sjá réttar tölur yfir kostnaðinn sem hefur hlotist af sameiningu Landsspítala og Borgarspítala á sínum tíma. Komið með það fram í dagsljósið og þá sjá allir að það hefur hvorki haft í för með sér sparnað né hagræðingu.

 


mbl.is Sameining stofnana mætir harðri andstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1.8 milljón Dana í kirkju á jóladag

Það er dágóð kirkjusókn í mínum huga og miðað við þjóðkirkjuna þeirra. Í Danmörku búa núna 5,5 milljónir manna og þar af 8,9% innflytjendur sem margir eru taldir til þjóða sem ekki játa kristna trú.

Það er því ekki rétt í frétt mbl.is að fáir Danir ætli í kirkju um jólin. Ef fréttin frá Berlinske byggir hins vegar á góðum samanburði við fyrri ár er fréttin sú að færri ætla til kirkju en í fyrra. Það er leitt að heyra hjá kristinni þjóð og ætti vissulega að vera áhyggjuefni presta og biskupa þar í landi.

Þess skal getið að kirkjusókn hefur verið góð í Landakirkju í Vestmannaeyjum það sem af er jólahátíð. Nokkur hundruð manns mættu til bænastundar í Kirkjugarði Vestmannaeyja á aðfangadag og kirkjan hefur verið þétt setin við aftansöng á aðfangadag, helgisund á jólanótt og við hátíðarguðsþjónustu á jóladag. Enn eru nokkrar guðsþjónustur eftir í dag og veðrið er það fagurt að börn og fullorðnir ættu að geta komist til kirkju í stórum hópum. Barna- og fjölskylduguðsþjónustan hefst kl. 14 og eru allir velkomnir. 

Vona að allir hafi notið friðar og blessunar á fæðingarhátíð Frelsarans, gleðileg jól.


mbl.is Danir sniðganga kirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól og óskir um kærleika, frið og helgi

Stafkirkjan

Sendi ykkur öllum óskir um gleðileg jól með þessari hátíðlegu ljósmynd af Stafkirkjunni á Heimaey sem Egill Egilsson tók um daginn.

Megi friður og helgi fæðingarhátíðar Frelsarans fylla hjörtu ykkar og næra trú ykkar og kærleika til allra manna. Komi hans náðartíð og réttlæti yfir þjóðina alla á þessum reynslutíma í sögu landsins.

Sr. Kristján og fjölskylda


Dr. Rowan Williams af Kantaraborg með skýra varnaðarræðu

Ég leyfi mér að vekja athygli ykkar á frétt á Vísir.is um merkilegan pistil erkibiskupsins af Kantaraborg, en hann er yfirmaður bresku biskupakirkjunnar og fremstur meðal jafningja í þeirri kirkjudeild um allan heim.

"Erkibiskupinn af Kantaraborg líkir efnahagsstjórn Gordons Brown við þriðja ríki Adolfs Hitler.

Doktor Rowan Williams erkibiskup er ómyrkur í máli þegar hann skrifar í breska blaðið Telegraph að margt sé líkt með stjórnarháttum forsætisráðherrans Gordons Brown og því hvernig Hitler hélt um stjórnartauma síns veldis á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Williams varar við því að stefna Browns taki ekkert tillit til þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu og nefnir þar eldri borgara og þá sem misst hafa atvinnuna. Biskupinn hvetur til þess að varlega verði stigið til jarðar við að skuldsetja breskan almenning en eftir hrun bankakerfisins krafðist hann aukins eftirlits með fjármálafyrirtækjum og benti á að Karl Marx hefði haft rétt fyrir sér þegar hann greindi hættur auðvaldsstefnunnar.

Í grein sinni minnir biskup enn fremur á að í Þýskalandi nasismans hafi skilyrðislaus hlýðni við kerfi snúist upp í martröð. Hann klykkir út með því að minnast guðfræðingsins Karls Barth sem Hitler gerði útlægan en Barth sagði höfuðkost kristninnar þann að fylgjendur hennar gætu lifað utan pólitískra lögmála og kennisetninga."

Gæti eitthvað af þessu átt við hér á landi? Getur gremja íslensks almennings verið sprottin af því ranglæti sem biskupinn bendir á og felst í því að viðhalda auðvaldsstefnu og efnishyggju á kostnað öryrkja, aldraðra og atvinnulausra - nú eða skuldsettra íbúðaeigenda sem sæta auk þess kjaraskerðingu í aðgerðum stjórnvalda?


Svarið er nei, það væri mjög vitlaust

Þetta er mjög vitlaus hugmynd hjá Katrínu þótt alltaf sé gott að spyrja. Við veljum æði margt fyrir börnin okkar og við tökum ákvarðanir um velferð barna okkar í ótrúlega mörgum efnum.  Það er af því að við erum ábyrgir forjáraðilar. Við höfum forsjá og erum foreldrar. Þess vegna eigum við að hafa það fyrir algjöra reglu að stýra þeim á heillabraut, verja þau gegn öllu illu og ala þau upp í kærleika og öruggri vissu og von. Við gefum þeim ekki stein ef þau biðja um brauð. Svo vond erum við ekki.

Ég á ekki von á öðru en kirkjumálaráðherra svari þessu skynsamlega enda traustur maður á þessum ráðherrastóli.

Þessi stöðuskráning nýfæddra barna styðst við ágæta reglu sem miðar við trúfélag móður. Það gefur barninu vernd gegn ágengum markaðsaðferðum sumra lífsskoðunarhópa, einsog til dæmis trúleysingjum. Það ætti eiginlega að veita börnum vernd allt til 18 ára aldurs, en eins og flestir vita geta börn tekið afstöðu til trúfélgasaðildar með skráningu við 16 ára aldur.

Vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu, eftir að sameiginlegt forræði varð til, mætti vel skoða hvort skilgreina þurfi þetta verklag frekar út frá því hjá hvoru foreldri barnið hefur lögheimili eða kanna hvort hjón eða foreldrar með sameiginlegt forræði geti tekið ákvörðun um trúfélagsaðild ef trú eða lífsskoðun er ólík hjá þeim og þau ala barnið upp saman.

Að skilja barnið eftir án uppeldis í trú eða sið er vont og það hefur ekki verið sýnt fram á að það geti skilað því nokkrum verðmætum í uppeldislegum efnum. Og ég held að allir heilbrigt hugsandi menn sjái vel muninn á slíku uppeldi og því sem allir óttast: innrætingu vondra siða.

Svo minni ég bara á þrengstu félagsfræðilegu skilgreiningu á orðinu fjölskylda: Það er móðir og barn í þann mund sem barnið er að fæðast. Það er líklega þessi frumlægi náttúrulegi skilningur sem ræður því að trúfélag móður ræður þessu.

 


mbl.is Hver stýrir trúnni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkun sóknargjalda og trúfélagsgjalda dapurleg

Það er ljóst að niðurskurður á fjárlögum 2009 er víða mikill. Ljótt er að heyra af dæmum um niðurskurð í velferðarmálum, framlögum til heilbrigðismála og t.d. til vímuvarna hjá SÁÁ. Það er líka verið að leggja til lækkun á framlagi til háskóla og til annarra skóla á sama tíma og þeir ættu að vera efldir til að taka við fólki til náms í stað fjölgunar á atvinnuleysisbótum.

Sóknargjöldin er líka skert um töluverðar upphæðir og þar kemur skerðingin jafnt niður á þjóðkirkjunni og trúfélögum í landinu. Sóknargjöldin hefðu átt að hækka um ríflega 12% vegna hækkunar á meðaltekjuskatti einstaklinga í landinu milli áranna 2007 - 2008. Þessi hækkun verður ekki að veruleika og þótt mörgum hefði þótt það nógu mikil skerðing er skerðingin meiri í fjárlögum 2009. Það er gengið lengra fyrir það sem virðist vera einkennilegur slumpreikningur. Sóknargjaldið fyrir hvern mann 16 ára og eldri var 872 á árinu 2008. Nú á meira að segja að lækka það niður í 855 kr. á mann á mánuði í kirkjusókn eða öðru trúfélagi. Raunlækkunin er því ýkt einsog einhver myndi segja og mun hafa varanleg áhrif á gjaldið um ókomin ár.

Það þýðir einnig lækkun til Háskóla Íslands en þangað hafa jafngildi sóknargjalda þeirra runnið sem standa utan trúfélaga, samkvæmt stjórnarskránni. Og verst er að þessi gjöld munu sannarlega lækka árið 2010 því varla hækkar meðaltekjuskattur einstaklinga milli áranna 2008 og 2009. Skerðing sóknargjalda árið 2009 mun svo hafa varanleg áhrif á þann stofn sem verðbætur komandi ára reiknast ofaná ár frá ári.

Þá er gert ráð fyrir lækkun á launum presta en það er sjálfsagt mál að taka því ef launalækkun verður almenn á Íslandi. Við erum þó lægst launaðir af þeim sem heyra undir kjararáð og ef ég les frumvarið um lagabreytingu fyrir kjararáð rétt er fyrst og fremst gert ráð fyrir lækkun launa til ráðherra og alþingismanna. Nóg yrði lækkunin og þátttaka presta í lækkunarferlinu með því að laun þeirra yrðu fryst árið 2009. Það yrði bærileg raunlækkun og verðugt persónulegt framlag.

Allar þessar lækkanir til samfélagslegra mála og velferðarmála eru nú á dagskrá til að ná niður halla ríkissjóðs og kostnaði við lántöku og skakkaföll þjóðarinnar í kreppu fjármálaheimsins. Guð láti gott á vita og blessi þessi ráð, sem gripið er til, en aðeins með hans blessun getum við átt von um að rétta úr kútnum í framtíðinni.


Ekki mönnum sæmandi

Ljótt er að heyra af slíkum aðförum. Þetta er ekki gott og minnir á skríl sem vill ljúka málum án dóms og laga. Vonandi fer fólk að sjá að sér varðandi slíka framkomu enda varpar þetta rýrð á álit almennings og mannvirðinguna sem slíka.

Ósköp er stutt síðan allur fjöldinn dáði manninn og taldi hann til áhrifamestu manna þjóðarinnar. Megi hún núna virða hann fyrir það.


mbl.is Veist að Jóni Ásgeiri í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
Eyjaklerkur
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 39698

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband